Lífskjör að láni

Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur mistekist að takast á við eina stærstu áskorunina sem hún stendur frammi fyrir. Vaxtakostnaður ríkissjóðs hefur aukist hratt á síðustu árum, vegna hallareksturs og skuldasöfnunar ríkisstjórnarinnar, og við erum minnt á veruleikann sem fylgir hávaxtaumhverfinu á Íslandi. Minnt á þann blákalda veruleika að þetta séríslenska hávaxtaumhverfi gleypir fjármuni sem við hljótum öll að vera sammála um að væri betur fyrir komið annars staðar.

Þrátt fyrir mikinn hagvöxt hér á landi er hlutfall vaxtagjalda af vergri landsframleiðslu umtalsvert hærra hér en í nágrannaríkjunum. Vaxtagjöldin eru þannig fimm til sex sinnum hærri en á hinum Norðurlöndunum. Og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru vaxtagjöld okkar líka hærri en vaxtagjöld landa sem eru töluvert skuldsettari en Ísland. Íslensku vaxtagjöldin eru meira að segja hærri en hjá þjóðum sem skulda tvöfalt meira en Ísland. Þessa þungu staðreynd mega þau sérstaklega hafa í huga, sem vilja auka enn frekar á skuldsetningu íslenska ríkisins af því að skuldahlutfall ríkissjóðs þoli það. Það sem við þolum ekki er langvarandi ástand þar sem vaxtagjöld eru þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs, eins og nú er.

Á síðustu 4-5 árum hafa vaxtagjöld ríkissjóðs aukist um u.þ.b. 40-50 milljarða króna. Á næsta ári er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin verði 95 milljarðar króna. Ef við setjum þessa 95 milljarða í samhengi við aðra útgjaldaflokka þá er þetta litlu minna en allt framhaldsskóla- og háskólastigið fær í fjárlögum næsta árs og meira en framlög til samgöngumála og heilsugæslu til samans. Það þarf ekki sérstaklega virkt ímyndunarafl til að sjá hvað það skiptir miklu máli að lækka þessa upphæð verulega. Hvað væri ekki hægt að gera fyrir þá fjármuni? Heilbrigðiskerfið okkar myndi alla vega ekki hafna innspýtingunni.

Langtímavextir á evrusvæðinu eru um helmingur af langtímavöxtum hér á landi. Ef gjaldmiðillinn okkar byði upp á sambærilega vexti myndi það spara okkur sömu fjárhæð og nemur aukningu vaxtagjaldanna síðustu 5 ár, eða um 40-50 milljarða. Sú fjárhæð samsvarar til dæmis framlögum okkar til Sjúkratrygginga Íslands á næsta ári. Fjárhæðin gæti tryggt samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og lækna og áfram mætti telja.

Ef vaxtagjöld ríkissjóðs væru ekki þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs eins og í dag værum við í mun betri færum til að tryggja sjálfbæra velferð samhliða ábyrgri efnahagsstjórn í stað þess að taka lífskjörin að láni og senda komandi kynslóðum reikninginn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2022