30 des Heilbrigðisþjónusta eða vaxtagjöld
Það er fátt nýtt undir sólinni.Þessi gömlu sannindi koma upp í hugann nú þegar enn eitt árið kveður og nýtt tekur við. Veðráttan hefur sinn óstýriláta gang eins og við Íslendingar þekkjum
manna best. Hagur fyrirtækja og heimila sveiflast upp og niður, ýmist vegna ytri eða innri þátta. Ýmislegt er svo nauðsynlegt að gera til að draga úr neikvæðum áhrifum á
hag fólks; líf og lífsviðurværi. Fjárfesting stjórnvalda í innviðum og viðhald þeirra er þar mikilvægur þáttur.
Ég hef oft í þessum reglulegu pistlum mínum hér á síðum Morgunblaðsins fjallað um aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þágu mikilvægra innviða. Ég ætla að halda mig á þeim slóðum í þessum síðasta pistli ársins. Þó fátt nýtt sé undir sólinni, er staðreynd að sjaldan ef nokkurn tímann höfum við upplifað annað eins ástand í heilbrigðismálum. Og hefur heilbrigðisstarfsfólk þó róið lífróður til þess að halda þjóðinni á floti undanfarin ár.
Stjórnendur Landspítalans eru hættir að tala undir rós; spítalinn er á leiðíþrot ef ekki verður brugðist við. Þeir sérfræðingar sem þekkja til á sambærilegum heilbrigðisstofnunum í löndunum í kringum okkur fullyrða að þar myndu stjórnvöld hiklaust stíga inn, væri ástandið jafnslæmt og það er t.d. á bráðaþjónustu Landspítalans. Hvorki sjúklingum né starfsfólki væri boðið upp á slíkt ástand. Hér er ekki í önnur hús að venda með marga þá þjónustu sem Landspítalinn býður. Sú staðreynd ýtir auðvitað undir skyldu stjórnvalda til að bregðast við. En það virðist ekki duga til.
Þrátt fyrir að umsvif hins opinbera hafi aukist sem aldrei fyrr skilar það sér ekki í umbótum á vanda Landspítalans. Ekki í rekstrarframlögum, ekki í framlögum til lækningatækja og ekki til lyfjakaupa. Ekki í umbætur fyrir sjúklinga né starfsfólk. Þess í stað fara tæplega 100 milljarðar króna í vaxtagjöld á næsta ári, þar af um helmingur vegna þeirra ömurlegu vaxtakjara sem ríkissjóður þarf að sætta sig við vegna íslensku krónunnar. Í heild kosta viðbótarvextir vegna krónunnar okkur ríflega 200 milljarðaáári, þ.e. ríkissjóð, fyrirtæki (þau sem ekki fá að flýja krónuna) og heimili (sem alls ekki fá að flýja krónuna).
Hvað ætlum við sem samfélag að halda áfram lengi að láta eins og það sé náttúrulögmál að fleiri tugir/hundruð milljarða tapist úr ríkiskassan um á hverju ári vegna krónunnar? Fjármunir sem ekki geta leitað í þarfari verkefni eins og heilbrigðisþjónustu? Upptaka evru kallar vissulegaápólitískt þrek en er það ekki einmitt hlutverk stjórnmálafólks að sýna slíkt þrek? Frekar en varpa vandanum til dæmis yfir á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga?
Greinin birtist fyrt í Morgunblaðinu 30. desember 2022