Kostnaðurinn afkorktappanum

Kannski er það óstöðugt veðurfarið sem við Íslendingar búum við sem gerir að verkum að það er hægt að telja okkur mörgum trú um að óstöðugt verðlag sé líka náttúrulögmál. Að það sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að búa á Íslandi að eiga allt okkar undir örgjaldmiðli sem hoppar og skoppar eins og korktappi á öldutoppum úti á rúmsjó þar sem náttúran ein ræður för. Og að
þannig ráðist lífskjör okkar.

Í umræðu síðustu vikna á Alþingi fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár bentu þingmenn Viðreisnar ítrekað á að ekki eingöngu hefur vaxandi skuldasöfnun íslenskra stjórnvalda leitt til þess að vaxtagjöld eru orðin þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins, heldur er helmingur þeirra 95 milljarða kr. vaxtagjalda sem við greiðum á næsti ári vegna íslensku krónunnar. Upphæð sem sannarlega væri betur komið til fjárfestinga í samgöngumálum, framlaga til velferðarmála eða í rekstur heilbrigðiskerfisins svo fátt eitt sé nefnt.

Kostnaður heimila og fyrirtækja af íslensku krónunni er mikill og þungur. Það er ekki bara ríkissjóður sem greiðir hærri vexti, það gera heimili og fyrirtæki sannarlega líka. Nokkuð sem skilar sér í himinháum kostnaði við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Krónan dregur líka úr samkeppnishæfni atvinnulífsins sem skilar sér í hærra verði til neytenda, til dæmis á tryggingum og mat, svo nefndir séu stórir útgjaldaflokkar til viðbótar við húsnæðið.

Allir sem hafa komið nálægt fyrirtækjarekstri vita að góð áætlanagerð getur skipt sköpum. Í viðtali í Markaðnum á Hringbraut í vikunni lýsti Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýnar, því hvernig það væri eins og rússnesk rúlletta að reka fyrirtæki í ferðaþjónustu í krónuhagkerfinu. Ferðaskrifstofur þurfi að semja í erlendri mynt allt að 12 mánuði fram í tímann og verðlagning í
íslenskum krónum sé hrein spákaupmennska með íslensku krónuna jafn óstöðuga og raun ber vitni.

Svo er það auðvitað hin hlið peningsins; það eru ekki öll fyrirtæki háð íslensku krónunni. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, kom fram að um 250 fyrirtæki hafa heimild til að færa bókhald og skila ársreikningi í erlendum gjaldmiðli. Þessi fyrirtæki eru þar með laus við óstöðugleika íslenska krónuhagkerfisins og búa þar með við allt önnur og betri vaxtakjör en lítil fyrirtæki og almenningur hér á landi þarf að sætta sig við.

Heilu atvinnugreinarnar hafa þannig yfirgefið erfiðan veruleika íslensku krónunnar. Eftir sitja íslensk heimili og minni fyrirtæki með sárt ennið. Ekki af því að það er náttúrulögmál, heldur af því að það er pólitískt val þeirra sem ráða för.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2022