Skilið eftir á bekknum

Fyrir keppnisleiki þarf töluverðan undirbúning sem oft ræður úrslitum þegar upp er staðið. Þjálfarateymi er ráðið til starfa, leikmannahópur valinn, markmið sett og svo langar og strangar æfingar.

Það er ekki yfirstandandi heimsmeistaramót í handbolta sem vekur þessar hugrenningar hjá mér heldur orð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra þegar starfshópar samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu skiluðu 60 bráðabirgðaniðurstöðum. Ráðherrann sagði að nú væri kominn hálfleikur í endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Ég sit í samráðsnefndinni og fékk í vikunni kynningu á tillögunum sem byggja á fyrirliggjandi gögnum, tillögum og hugmyndum. Starfshóparnir skila fullmótuðum tillögum í maí og svo ætlar ráðherra að leggja fram frumvarp til afgreiðslu á vorþingi 2024.

Í ljósi reynslunnar – því þetta er sannarlega ekki fyrsta samráðsnefndin sem gerir atlögu að raunverulegum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu – er réttast að segja að undirbúningstímabilinu sé nú lokið og sjálfur leikurinn að hefjast. Sumir eru á því að hann verði spennandi, aðrir að úrslitin séu þegar ráðin og ekki verði hróflað við því sem mestu skiptir fyrir þjóðina.

Þegar samráðsnefndin var kynnt sagði ráðherra að grundvöllur vinnunnar væri að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Djúpstæð tilfinning væri meðal þjóðarinnar um að það væri rangt gefið varðandi skiptingu arðsemi af þjóðarauðlindinni.

Nú þegar bráðabirgðatillögur liggja fyrir segir ráðherra hæst bera áherslu á umhverfismál. Það er kannski óþarfi að lesa of mikið í þennan mun, en sporin hræða.

Fyrir utan efnislega flokkun skiptast bráðabirgðatillögurnar í tillögur sem starfshóparnir telja að unnt sé að útfæra og svo tillögur sem þarfnast mikillar umræðu áður. Það má ætla að óumdeildu tillögurnar, ekki síst um umhverfismál, móti leikinn sem nú er að hefjast fyrir alvöru.

Á bekknum án þátttöku í leiknum sitji svo kröfur þjóðar um breytingar á skiptingu arðs, um gegnsæi í eignarhaldi og rekstri, um tímabindingu nýtingarréttar í auðlindaákvæði og önnur atriði sem hafa verið gagnrýnd hvað mest í núverandi kerfi.

En blaðamannafundurinn í lok leiks verður pottþétt flottur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. janúar 2023