Rauð við­vörun fyrir heimilin

Árið 2023 gengur í garð með verðbólgu og vetrarhörkum. Verðbólgan er komin í 9,9% og fólk finnur fyrir því. Matarinnkaup fjölskyldunnar eru dýrari, bensín hækkar og fasteignalánið sömuleiðis. Veðrið er á sama tíma ofsalegt og Veðurstofan dælir út gulum, appelsínugulum og jafnvel rauðum viðvörunum. Fólkið í landinu hlustar á aðvörunarorð veðurfræðinga og hagar sér í samræmi við ráðgjöf þeirra.

Verðbólga í kortunum

Lögmál verðbólgunnar eru ekki þau sömu og gilda um veðrið. Það er ekki hægt að breyta veðrinu í vetur en ríkisstjórnin getur haft raunveruleg áhrif á það hvernig verðbólgan þróast – og þannig dempað verðhækkanir og vaxtahækkanir. Hlutverk ríkisstjórnarinnar er annað og meira en bara að vara við. Það er gert með því að haga bókhaldi ríkisins þannig að Seðlabankinn þurfi ekki að halda sama blaðamannafundinn aftur og aftur um endurteknar vaxtahækkanir.

Vandamálið er bara að fjármálaráðherra landsins beitir ríkisfjármálunum þannig að þau vinna gegn viðleitni Seðlabankans til að dempa verðbólgu. Neytendasamtökin lýstu þessum veruleika ágætlega í vikunni þegar þau bentu á að janúarútsölur hafi ekki náð að draga úr verðbólgu að neinu ráði í ár. Það er vegna þess að gjaldahækkanir í boði ríkisstjórnarinnar sjálfrar eru stór þáttur í því að verðbólgan hækkar aftur núna í byrjun árs. Hækkanir á áfengisgjaldi, bensíngjaldi og hækkun á búvöru blasir við. Það eru útgjaldaliðir sem hið opinbera stjórnar ásamt fjölmörgum öðrum hækkunum.

Neytendasamtökin vöruðu ríkisstjórnarflokkanna við þessum áhrifum þegar fjárlagafrumvarpið var til umræðu á Alþingi í haust. Neytendasamtökin voru þar í hópi með BHM, Samtökum atvinnulífsins og ASÍ. Þessir aðilar sendu ýmist frá sér voru gular, appelsínugular og rauðar viðvaranir um áhrif þessara gjaldahækkana hins opinbera á verðbólgu. Á viðvaranir þessara aðila var ekki hlustað, ekki frekar en okkur í Viðreisn sem vöruðum við því sama.

Óvissustig almannavarna

Þegar ríkisstjórnin stendur ekki vaktina og beitir fjármálum ríkisins gegn verðbólgunni eru heimili landsins dæmd til að bera kostnaðinn í formi endurtekinna vaxtahækkana. Þess vegna skiptir það heimili og fyrirtæki landsins öllu að stjórnvöld geri sitt til að halda verðbólgu í skefjum. Skoðum dæmisögu af fjölskyldu: Vorið 2021 voru útgjöld þessarar fjölskyldu um 180.000 krónur á mánuði af fasteignaláni. Fjölskyldan er með 50 milljón króna óverðtryggt lán til 40 ára, á breytilegum vöxtum. Í dag er veruleiki þessarar fjölskyldu sá að afborgun á láninu er um 330 þúsund kr. á mánuði. Mánaðarlegur kostnaður fjölskyldunnar vegna lánsins hefur aukist um 150 þúsund krónur. Það blasir við að þetta er þungt högg – og í einhverjum tilvikum umfram það sem heimilið ræður við.

Verðbólguhækkun í byrjun árs 2023 er ekki óvænt óveður. Hún er einfaldlega í boði stjórnvalda. Krónutöluhækkanir gjalda ríkisins skiluðu sér beint út í verðbólguna. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur skilið Seðlabankann einan eftir með það verkefni að glíma við verðbólguna og afleiðingarnar eru stýrivextir sem hafa ekki verið hærri síðan 2010.

Og hallinn eykur vandann

Stjórn ríkisfjármála ríkisstjórnarinnar er fullkomlega á skjön við stefnu Sjálfstæðisflokksins um ábyrga stjórn ríkisfjármála. Það sást einna skýrast á því að þegar ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarp sitt var hallinn tæplega 90 milljarðar. Lokaniðurstaðan varð hins vegar 119 milljarða halli. Seðlabankastjóri sagði þá að hann hefði þungar áhyggjur af útgjaldaaukningunni og að hún gerði verk Seðlabankans erfiðara. Aukin ríkisútgjöld á þessum tíma hafa neikvæð áhrif á verðbólguna og hægja á því ferli að ætla að ná henni niður.

Ráðherrar í ríkisstjórninni tala gjarnan um að skuldir ríkissjóðs séu ekki svo miklar hér á landi í alþjóðlegu samhengi. Vandamálið hér á landi birtist þó í því að vaxtakostnaður hins opinbera er mun alvarlegri en skuldahlutfallið. Það er reyndar veruleiki sem íslensk heimili þekkja vel. Vextir á Íslandi er langtum hærri en í nágrannaríkjunum, þrátt fyrir að verðbólgan sé svipuð. Vaxtagjöld eru orðin einn af allra stærstu útgjaldaliðum ríkissjóðs.

Það þarf að taka á verðbólgunni, þó við verðum víst að þola vetrarhörkurnar. Það er ekki hægt að láta fjölskyldurnar í landinu endalaust taka á sig auknar byrðar vegna hækkandi útgjalda fyrir matarkörfuna. Heimilin í landinu þurfa á því að halda að ríkisstjórnin hlusti á rauðu viðvörunina og bregðist við henni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023