Sprett­hóp um hag heimila

Ríkisstjórnin er iðin við að skipa nefndir. Nýir starfshópar og nefndir í stjórnartíð ríkisstjórnarflokkanna telja ekki tugi heldur hundruð. Þetta er enda hin fínasta leið til að fela innri ágreining stjórnarflokkanna og tryggja að málum sé drepið á dreif.

Í gær var greint frá því að verðbólgan hækkaði í janúar, ólíkt því sem hún gerir vanalega, þegar útsölur tempra hana alla jafna. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar hækkaði ríkisstjórnin gjöld á almenning vel umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka. „Hækkun verðbólgu í janúar er að mestu til komin vegna hækkana á búsi, bílum og búvörum. Þessi kostnaðarliðir eiga það sameiginlegt að hið opinbera stýrir verði þeirra að verulegu leyti með álögum,“ segir í harðorðri yfirlýsingu á síðu Neytendasamtakanna. Enn bólgnar báknið út, heimilin borga brúsann.

Hins vegar samþykkti stjórnarmeirihlutinn á Alþingi fjárlög fyrir 2023 sem auka enn frekar á skuldsetningu ríkissjóðs, kynna ný þensluhvetjandi útgjöld og eru alveg laus við nauðsynlegt aðhald hins opinbera. Ríkisstjórnin er bókstaflega að kveikja upp í verðbólgunni, sem er umtalsvert hærri en spár gerðu ráð fyrir. Verðbólgan í Evrópu, sem er keyrð áfram af háu orkuverði vegna stríðsreksturs Pútíns Rússlandsforseta er á niðurleið. Verðbólgan á Íslandi er enn á uppleið.

Þegar ríkisstjórnin kynnti síðustu fjárlög sín var það undir yfirskriftinni: Kaupmáttur varinn og unnið gegn verðbólgu í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023. Það kom ekki fram í kynningu ríkisstjórnarinnar að það væru heimili landsins sem ættu að bera þungann af kostnaðinum við þann slag. Það virðist hins vegar vera að ganga eftir. Staða heimila landsins hefur ekki verið jafn erfið í lengri tíma. Matarkarfan hækkar að því er virðist í hvert sinn sem farið er í búð, eldsneytið hækkar og lánin hækka í stað þess að lækka. Heimilin hafa lítið val, þau geta ekki svo léttilega kosið að búa annars staðar, eða sleppt því að kaupa mat- og drykkjarvöru. Þau lifa bara við sérhannaðan veruleika verðbólgu, aukinna gjalda og hárra vaxta.

Orð ríkisstjórnarinnar um að hún hyggist verja kaupmátt hafa holan hljóm í þessu samhengi. Kannski væri nær fyrir ríkisstjórnina, fyrst hún er jafn hrifin af starfshópum og raun ber vitni, að setja á stofn vel valinn spretthóp um hagsmuni heimilanna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023