Vilja Íslendingar stöðugleika?

Daði Már Kristófersson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 2 sæti Viðreisn

Krónan vofir yfir okkur, dálítið eins og veðrið. Sveiflur í gengi hennar breyta aðstæðum, gera langtímaplön marklaus. Færa sumum hagnað og öðrum tap. En er krónan eins og veðrið? Náttúrulögmál sem ekki verður breytt? Að sjálfsögðu ekki. Krónan er okkar val. Mannanna verk. Ef við viljum breyta fyrirkomulagi gjaldeyrismála er ýmislegt í boði.

Seðlabankinn tók saman ágæta skýrslu um valkosti Íslands í gjaldeyrismálum árið 2012. Skýrslan er full af fróðleik og hefur elst ágætlega. Íslendingar hafa rekið sjálfstæða mynt í rúmlega 100 ár. Saga krónunnar sem sjálfstæðs gjaldmiðils frá dönsku krónunni hófst að sjálfsögðu með gengisfellingu árið 1922. Frá þeim tíma hafa ýmsar leiðir verið viðhafðar við stjórnun gengis – að jafnaði með slökum árangri, svo vitnað sé í fyrrnefnda skýrslu Seðlabankans.

Stuðningsmenn krónunnar tala um mikilvægi sveigjanleikans sem krónan skapar. Að með henni hafi verið mögulegt að takast á við áföll án þess að skapa langvarandi atvinnuleysi. Íslenska hagkerfið er lítið og útflutningsstoðirnar fábreyttar. Það er uppskrift að óstöðugleika sem verður einhvern veginn að takast á við. Þetta er allt satt og rétt.

Gallinn er sá að ef allir vita af þessum sveigjanleika þá breytir sú vitneskja hegðun þeirra. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa ekki að hafa áhyggjur af mistökum við samningsgerð – sveigjanleikinn kemur til bjargar. Stjórnvöld þurfa ekki að hafa áhyggjur af mistökum við hagstjórn – sveigjanleikinn kemur til bjargar. Seðlabankinn getur tekið áhættu við peningaprentun – sveigjanleikinn kemur til bjargar. Sveigjanleikinn dregur úr hvatanum til ábyrgrar hegðunar – hann skapar sveiflur. Kerfið bítur í skottið á sér.

Kostnaðurinn við sveiflurnar er verulegur. Þær setja fjárhag einstaklinga og fyrirtækja í uppnám. Þær leiða til óvissu um framtíðina, sem torvelda langtímaáætlanir. Þær leiða til hærra vaxtastigs sem takmarkar fjárfestingar og hækka rekstrarkostnað einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Mikið af þessum kostnaði er ósýnilegur. Felst í glötuðum tækifærum. Ekki kemur á óvart að flest íslensk fyrirtæki sem stunda viðskipti tengd útflutningi notast við erlenda mynt í sínum uppgjörum.

Á endanum eru það við sjálf sem ákveðum hvort sveigjanleikinn sé meira virði en kostnaðurinn sem hann veldur. Hvort við teljum að hag okkar sé betur borgið með stöðugleika eða sveigjanleika. Stöðugleikinn krefst aga. Endurskoða þarf vinnumarkaðslíkanið. Auka þarf aga hjá hinu opinbera og beita fjármálum þess í meira mæli til að tryggja hann. Allir þurfa að leggjast á eitt. Setja stöðugleikann í forgang.

Fráleitt er að halda því fram að þetta sé ekki hægt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur saman skýrslur um fyrirkomulag gjaldeyrismála (Exchange Arrangements and Exchange Restrictions 2021). Það er athyglisverð lesning. Þar er fjallað um fyrirkomulag gjaldeyrismála hjá 193 ríkjum. Um 65% ríkja heimsins notast við einhverskonar fastgengi (hard peg/soft peg), rúmlaga 30% við fljótandi og restin við annað fyrirkomulag. Séu ríkin flokkuð eftir stærð hagkerfisins kemur í ljós að mikill meirihluti, 86% lítilla hagkerfa (skilgreint sem jafn stórt Íslandi og minna) notast við einhverja útgáfu af fastgengi.

Ef við horfum einingis til ríkjanna sem eru af svipaðri stærð og Ísland (frá hálfri til tvöfaldrar landsframleiðslu Íslands) kemur í ljós að 34 ríki eru með einhverja útgáfu fastgengis, 9 með fljótandi gengi og 4 eru innan Evrunnar. Tvö önnur Evrópuríki að svipaðri stærð og Ísland hafa valið fljótandi gengi, Albanía og Moldova. Flest smáu Evrópuríkjanna eru hins vegar innan Evrunnar. Trúum við því að lausn sem meirihluti svipað stórra hagkerfa styðst við sé óframkvæmanleg á Íslandi? Það virkar langsótt. Eftir því sem fjölbreytni íslenskra útflutningsgreina vex því minna þurfum við á sveigjanleikanum að halda. Er ekki tímabært að við tökum annan snúning á umræðunni um krónuna? Endurmetum stöðuna. Leiðirnar sem okkur standa til boða liggja fyrir. Viljinn til að setja stöðugleika í forgang er allt sem þarf

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 23. febrúar 2023