Íslendingar borga margfalt meira

Hvers vegna þarf margfalt hærri vexti hér á landi til að bregðast við sömu verðbólgu og í öðrum Evrópuríkjum? Ísland er auðvitað ekki eina landið sem finnur fyrir verðbólgu núna en stóra spurningin er hins vegar þessi – hvers vegna þarf að hækka vextina margfalt hér? Eitt er nefnilega glíman við verðbólgu. Annað er hinn séríslenski veruleiki himinhárra vaxta.

Á Íslandi er erfiðara fyrir fólk að eignast húsnæði en í nágrannaríkj­unum vegna þess hvað vextir á húsnæðislánum eru háir. Matarkarfan er dýrari, húsnæðislán eru dýrari og tryggingar eru dýrari. Alvöru samkeppni milli banka er ekki til. Ástæðan er ekki síst sú að sveiflur á gengi krónunnar gera íslenskan markað lítið heillandi fyrir erlend fyrirtæki. Þau eru vön að geta gert spár lengra en nokkrar vikur fram í tímann. Sveiflurnar verja þannig fyrirtækin fyrir erlendri samkeppni og fyrir það greiðir fólkið í landinu hátt gjald, í formi skertrar samkeppni og hærra verðlags.

Snjóhengjan brestur

Ég kallaði eftir svörum frá Seðlabankanum um hlutfall húsnæðislána sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Þegar svör bárust rétt fyrir síðustu jól var þetta hlutfall 27%. Það þýðir að 27% lántakenda hafa tekið á sig vaxtahækkanir af fullum þunga, 11 sinnum í röð. Á þessu ári munu síðan 4.451 heimili losna undan föstum vöxtum óverðtryggðra lána. Vaxta­skellurinn verður þessum heimilum þungur. Auðvitað hafa vaxtahækkanir þýðingu fyrir þá sem eru með verðtryggð lán, þar sem við blasir hinn íslenski veruleiki þess að höfuðstóll láns getur hækkað þrátt fyrir mánaðarlegar afborganir.

Það er ekki jafnt gefið

Um 300 íslensk stórfyrirtæki nota ekki krónuna heldur gera upp í öðrum gjaldmiðli, oftast evru og dollara. Þær tölur liggja fyrir í svörum viðskiptaráðherra við skriflegri fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi. Stóreignafólk notar íslensku krónuna ekki heldur, það getur geymt fjármuni í erlendum gjaldmiðlum. Eftir stendur þess vegna að þegar vextir hækka þá er það almenningur og minni fyrirtæki sem taka á sig kostnaðinn. Stærsti hluti hagkerfisins sleppur. Og auðvitað skapar þetta óréttlæti spennu. Það er einfaldlega ekki jafnt gefið.

Land jafnra tækifæra

Pólitísku spurningarnar sem þarf að svara er hvaða réttlæti er í því að fólk á Íslandi þurfi að borga íbúðina sína mörgum sinnum út af háum vöxtum? Að ungar barnafjölskyldur taki á sig miklar vaxtahækkanir á meðan aðrir hópar á Íslandi eru í skjóli evru og dollara. Stóra myndin snýst um jöfn tækifæri. Að Ísland verði land jafnra tækifæra hvað varðar möguleika á því að geta gert áætlanir og fá að upplifa stöðugleika. Pólitíkin verður að sameinast um það stóra verkefni að tryggja jöfn tækifæri á Íslandi með almennum reglum, heilbrigðri samkeppni – og síðast en ekki síst stöðugum gjaldmiðli.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023