Jarðbundnar lausnir strax

Vaxtahækkun Seðlabankans í gær var eftir svartsýnustu spám. Hækkunin rammar inn það ástand í ríkisfjármálum sem Viðreisn hefur varað við um langa hríð. Heimilin sitja svo uppi með reikninginn, í formi dýrari matarkörfu og hærri afborgana af húsnæði. Þungi málsins fer vaxandi. Það finna langflestir á eigin skinni.

Þjóðkjörnir fulltrúar geta ekki leyft sér að setja kíkinn fyrir blinda augað í því ástandi sem skapast hefur á vakt ríkisstjórnarinnar. Til þess að taka á þeim bráðavanda sem íslensk heimili standa nú frammi fyrir þurfum við öll að stíga upp úr pólitískum skotgröfum. Þingheimur getur ekki leyft sér að horfa á vandamálið ágerast og senda reikninginn á heimilin.

Viðfangsefnið krefst jarðbundinna lausna sem hægt er að ráðast í strax. Þar kemur að kjarna máls. Sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að ráðast í að hemja vaxandi útþenslu ríkissjóðs til að bregðast við verðbólgu og tilheyrandi vaxtahækkunarferli.

Verkefnið er ærið. Viðreisn er nú sem fyrr reiðubúin að leggja sitt á vogarskálarnar til að koma með tillögur í þá átt. Eins er flokkurinn til í að standa með góðum málum sem aðrir kunna að leggja á borðið.

Því þetta þarf ekki að vera svona.

Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann, hefja okkur upp yfir hversdagsþrasið og leita sameiginlegra lausna á því að rétta við bókhald ríkisins – og það strax.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23 mars 2023