Ótti við ímyndaða drauga

Maðurinn finnur það sem hann leitar að, og sá sem trúir á draug finnur draug. Þessi orð Halldórs Laxness koma upp í hugann þegar forsvarsfólk ríkisstjórnarflokkanna stígur nú fram og býsnast yfir því að enn og aftur sé nú Evrópusambandsdraugurinn kominn á kreik. Það er eitthvað svo kunnuglegt og á sama tíma dapurt að í þeirri erfiðu baráttu sem við stöndum nú í við gamla fjendur; ósjálfbæran ríkisrekstur, sturluð vaxtagjöld og tveggja stafa verðbólgu skuli helsti draugur stjórnvalda vera Evrópusambandið.

Látum vera að ákveðnir hagsmunaaðilar noti áróður af þessu tagi. Við vitum hvaðan þeir koma. En að heyra stjórnmálamenn í vinnu fyrir almenning apa þetta upp umhugsunarlaust að því er  virðist, það er öllu verra. Þessi hræðsluáróður gegn Evrópusambandinu er innistæðulaus og vinnur gegn hagsmunum almennings auk þess að draga athyglina frá hinum raunverulega draugagangi.

Ég ólst upp á tímum óðaverðbólgu og óska engum fjölskyldum þess að ganga í gegnum það sama og foreldrar mínir og þeirra kynslóð þurftu að reyna. Ég held að við séum ansi mörg mörkuð af því. Þess vegna veldur það ónotum að heyra formann Neytendasamtakanna segja frá því að þess séu merki að fólk sé farið að tapa verðskyni í þeirri hrinu hækkana sem hefur dunið á síðustu misseri. Verðhækkanir séu orðnar svo tíðar að fólk nái ekki að fylgjast með.

Bleyjur og barnamatur. Mjólk, smjör og ostur. Kjöt. Kex. Áskriftir alls konar. Allt þetta og miklu fleira til hefur hækkað umtalsvert og reglubundið síðustu mánuði og jafnvel ár. Það munar sannarlega um minna fyrir allan þorra fólks á sama tíma og séríslenskar vaxtahækkanir hafa keyrt afborganir af lánum upp úr öllu valdi. Fyrir marga er lítið eftir í buddunni þegar búið er að standa skil á öllum þessum hækkunum og þeim fjölgar sem ná ekki endum saman.

Þetta er Ísland í dag. Það skiptir þess vegna öllu máli að stjórnvöld standi vaktina með fólkinu í landinu. Virk samkeppni er alltaf í þágu heimilanna en aldrei meira en á tímum sem þessum. Eins og með svo margt annað njóta Íslendingar regluverks Evrópusambandsins í samkeppnismálum í gegnum EES samninginn. Það þýðir þó auðvitað ekki að íslensk yfirvöld séu stikkfrí. Sterkt  Samkeppniseftirlit sem nýtur stuðnings stjórnvalda er til dæmis mjög mikilvægt til að tryggja eins og kostur er að fyrirtæki fari ekki fram úr sér í verðhækkunum. Virk samkeppni er mikilvægt verkfæri gegn verðbólgu og það er gegn verðbólgunni sem alvöru draugabanar eiga að beita sér núna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2023