Stöðvum þrettándu vaxtahækkunina

Næstu dag­ar munu hafa úr­slita­áhrif á stöðu efna­hags­mála hér á landi, en þá kem­ur rík­is­stjórn­in til með að leggja fram og ræða þýðing­ar­mikla fjár­mála­áætl­un á þing­inu. Eft­ir skörp skila­boð frá Seðlabank­an­um í síðustu viku ligg­ur ljóst fyr­ir að ætli rík­is­stjórn­in að taka ábyrgð á þeim bráðavanda sem dyn­ur á ís­lensk­um heim­il­um vegna verðbólg­unn­ar dug­ir ekk­ert hálf­kák. Stöðva þarf linnu­laus­an halla­rekst­ur rík­is­sjóðs und­an­far­in ár. Sá halla­rekst­ur var haf­inn fyr­ir far­ald­ur. Mik­il­vægt er að senda skýr skila­boð um að ætl­un­in sé að draga sam­an segl­in. Seink­un á birt­ingu fjár­mála­áætl­un­ar er von­andi merki um að rík­is­stjórn­in ætli að taka hlut­verk sitt al­var­lega í þessu efni.

Marg­ir freist­ast nú til þess að gagn­rýna rík­is­stjórn­ina vegna efna­hags­stjórn­ar síðastliðin ár og stöðunn­ar sem upp er kom­in. Viðreisn hef­ur, ásamt seðlabanka­stjóra, Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins og fleir­um, bent á það um langa hríð að taka verði í hand­brems­una í rík­is­út­gjöld­um sé ætl­un­in að mæta verðbólg­unni. En það þýðir lítið að líta í bak­sýn­is­speg­il­inn úr þessu. Til þess er staðan of al­var­leg. Heim­il­in í land­inu eru und­ir. Ákvarðanir sem tekn­ar verða næstu daga og vik­ur munu ein­fald­lega hafa úr­slita­áhrif á það hvernig verðlag þró­ast hér á landi. Viðreisn mun beita sér fyr­ir öll­um þeim hug­mynd­um sem gagn­ast heim­il­un­um í land­inu í þeirri bar­áttu. Hér duga eng­ir flokka­drætt­ir.

Tök­um seðlabanka­stjóra al­var­lega

Verðbólg­an kem­ur lang­mest niður á heim­il­un­um og litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um sem munu bera skarðan hlut frá borði verði ekk­ert að gert. Mat­arkarf­an verður sí­fellt dýr­ari og af­borg­an­ir af lán­um líka. Við það get­ur Viðreisn ekki unað. Seðlabanka­stjóri hef­ur ít­rekað kallað eft­ir því að rík­is­stjórn­in spili með í því mark­miði að ná niður verðbólgu en engu að síður eru út­gjöld rík­is­ins enn of mik­il.

Það þarf aðhald. Viðreisn hef­ur viðrað ýms­ar til­lög­ur í því skyni. Til að mynda um ráðning­ar­bann hjá hinu op­in­bera, að und­an­skild­um heil­brigðis- og mennta­stofn­un­um, á meðan bönd­um er komið á verðbólg­una. Einnig væri út­gjald­a­regla sem ýtir und­ir aðhald og aga við stjórn rík­is­fjár­mála hjálp­leg í þess­um aðstæðum. Þá höf­um við talað fyr­ir niður­fell­ingu tolla svo fjöl­skyld­ur finni ekki jafn mikið fyr­ir verðhækk­un­um á mat­vöru og tíma­bundna niður­fell­ingu trygg­inga­gjalds svo minni fyr­ir­tæki geti ráðið úr sínu. Viðreisn er reiðubú­in að veita öll­um góðum hug­mynd­um sem auðvelda líf fólks og koma bönd­um á verðbólgu braut­ar­gengi.

Skamm­tíma- og lang­tíma­lausn­ir

All­ir vita svo hvað Viðreisn tel­ur lausn­ina við efna­hags­sveifl­um hér á landi til langr­ar framtíðar, því þetta þarf ekki að vera svona. Unga fólkið á ekki að þurfa að reyna, kyn­slóð fram af kyn­slóð, sann­leiks­gildi sög­unn­ar af afa og ömmu sem misstu allt verðskyn í verðbólguf­ári þegar það eina sem hægt var að gera við krón­una var að eyða henni. Við átt­um okk­ur hins veg­ar á að ekki er raun­hæft mark­mið að ætla sér að leysa gjald­miðlamál þjóðar­inn­ar strax í dag þótt þá veg­ferð þurfi að hefja sem fyrst í þágu al­manna­hags­muna. Svo við lend­um ekki í þess­ari verðbólgu- og vaxta­hring­ekju aft­ur og aft­ur.

Þangað til þurf­um við að snúa bök­um sam­an til þess að ráða niður­lög­um verðbólg­unn­ar, heim­il­un­um til hags­bóta, og fara í hagræðingu í rík­is­rekstr­in­um. Skilj­um seðlabanka­stjóra ekki ein­an eft­ir í súp­unni.

Í þeim efn­um mun ekki standa á Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2023