Það sem aldrei má ræða

Við, sem viljum láta reyna á aðildarviðræður við Evrópusambandið, erum vön að heyra að akkúrat núna sé ekki tíminn til að ræða slíkt. Við heyrum líka oft að það sé bara enginn að ræða Evrópusambandið og að enginn vilji þangað inn. Þetta segja þau sem ekki vilja skoða nánara Evrópusamstarf en staðreyndirnar tala öðru máli.

59% þjóðarinnar vilja kjósa um hvort eigi að hefja aðildarviðræður við ESB, samkvæmt könnun Maskínu. Stuðningur við aðild hefur aukist verulega og eru nú 44% fylgjandi á móti 35% sem eru andvíg. Þjóðin er greinilega að ræða um Evrópusambandið. Stjórnmálin þurfa að fylgja með.

Svo eru það þau sem segja ekki tímabært að ræða Evrópusambandsaðild eða hvort leyfa eigi þjóðinni að kjósa hvort við eigum að stefna þangað inn. Það séu meira aðkallandi mál sem bíða. Það
er vissulega sitthvað til í því. Því miður. Hér er himinhá verðbólga og íslenska vaxtaáþjánin er erfið fyrir mjög marga. Hér eru miklar brotalamir í heilbrigðiskerfinu. Svo ekki sé talað um ósjálfbæran ríkissjóð. En þetta eru mál sem hæf stjórnvöld gætu leyst samhliða því að þjóðin kjósi um hvort það eigi að taka aftur upp viðræður við Evrópusambandið.

Gallinn er að lausnirnar væru alltaf til skamms tíma. Við erum ítrekað að leysa sama krísuástandið. Svo fellur allt í ljúfa löð þess á milli. Við sem eldri erum höfum séð núverandi ástand íslenska efnahagslífsins nokkrum sinnum áður. Þessar sveiflur eru fórnarkostnaðurinn við að hafa svona lítinn gjaldmiðil og heimilin í landinu sitja alltaf uppi með reikninginn. Ekki breiðu bökin,
heldur heimilin í landinu.

Stjórnmálamenn verða að fara að gefa kjósendum kost á framtíðarlausnum. Lausnum, þar sem leyst er úr áskorunum til frambúðar en ekki bara tímabundið.

Innganga í Evrópusambandið er tækifæri til að leggja okkar af mörkum fyrir bættum heimi, okkar tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum sem hafa áhrif á okkur. Með því að ganga inn í Evrópusambandið gætum við líka tekið upp evru, sem myndi tryggja íslenskum heimilum meiri samkeppni á bankaog tryggingamarkaði, svo dæmi séu tekin. Það myndi þýða lægri kostnað, lægri vexti og langþráðan fyrirsjáanleika.

Að ræða aðild að Evrópusambandinu núna kemur ekki í veg fyrir að við tæklum þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. En að ræða Evrópusambandsaðild ekki, tryggir að við munum halda áfram að takast á við þessi erfiðu verkefni um ókomna tíð, því lausnirnar sem flestir stjórnmálaflokkar bjóða upp á eru skammtímalausnir. Aftur og aftur og aftur

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. maí