Sigla háan vind eftir röngu striki

Þorsteinn Pálsson

Á mánudag hermdu fréttir að ríkisstjórnin hefði samþykkt víðtækar aðgerðir gegn verðbólgu.

Það er stórt orð Hákot. Eins er með víðtækar aðgerðir. Þær hljóta að hafa afgerandi áhrif á verðbólgu og vexti, rísi þær undir nafni.

Eftir víðtækar aðgerðir ætti verðbólga sem sagt að hjaðna mun hraðar en áður var gert ráð fyrir og vextir að lækka umtalsvert við næstu vaxtaákvörðun.

Vantrú fremur en hæverska

Í þessu ljósi vekur sérstaka athygli að ríkisstjórnin greinir ekki frá því í tilkynningu sinni hversu mikil áhrif hún telur að aðgerðirnar hafi til að hraða lækkun verðbólgunnar og hversu mikið þær muni lækka vexti. Hvers vegna skyldi það vera?

Skiptir ekki öllu að fólk trúi að aðgerðirnar breyti því sem spáð hefur verið?

Sennilegasta skýringin er sú að ríkisstjórnin sjálf hafi einfaldlega ekki trú á að aðgerðirnar breyti þeim spám sem fyrir liggja. Hitt er fremur ótrúlegt að upplýsingaskorturinn um þetta stafi af hæversku einni saman.

Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er eini áþreifanlegi mælikvarðinn á árangur aðgerðanna.

Eðlisólíkar aðgerðir

Í fréttatilkynningu sinni grautar ríkisstjórnin saman ákvörðunum um eðlisólík markmið. Annars vegar er um að ræða aðgerðir, sem eiga að stemma stigu við verðbólgu. Hins vegar eru þar taldar ráðstafanir til að bæta stöðu þeirra lakast settu á óðaverðbólgutímum.

Ríkisstjórnin hefur réttilega meira sjálfstraust þegar kemur að aðgerðum til að bæta stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Stuðningur við húsnæðiskaup vegur þar þyngst.

Í þessu sambandi þarf þó að hafa í huga að aðgerðir af þessu tagi auka þenslu ef þær eru ekki að fullu fjármagnaðar. Vafamál getur verið hvort svo er í raun og veru.

Ekki tekið á skekkjunni í hagkerfinu

Við mat á þessum aðgerðum skiptir þó mestu máli í bráð og lengd að ríkisstjórnin er ekki að taka á þeirri innbyrðis skekkju í hagkerfinu, sem veldur því að hluti heimila og fyrirtækja þarf að borga tvöfalt eða þrefalt hærri vexti en aðrir og almennt þekkist í grannlöndunum.

Vaxtaákvarðanir Seðlabankans snerta ekki stóran hluta hagkerfisins. Skuldug heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa af þeim sökum að bera þyngri byrðar en aðrir. Ríkisstjórnin hreyfir ekki við þessari kerfislegu misskiptingu.

Kjarni málsins er þessi: Ríkisstjórnin vill ekki kerfisbreytingu í peningamálum. Í staðinn þyrfti hún að grípa til einhverra annarra ráða til að leiðrétta þessa viðvarandi skekkju. En það vill hún ekki heldur.

Þannig virðist það beinlínis vera sameiginleg stefna ríkisstjórnarflokkanna að viðhalda skekkjunni í hagkerfinu og þeirri misskiptingu, sem af henni hlýst. Það er alvarlegasti pólitíski veruleikinn í stöðunni.

Strikin

Í mánudagsyfirlýsingunni segist ríkisstjórnin ætla að sigla háan vind að settu marki. Því fremur skiptir máli að siglt sé eftir réttu striki.

Ríkisstjórnin segir sjálf að hún sigli eftir tveimur leiðarvísum. Annars vegar eru tölur um mesta hagvöxt innan OECD og hins vegar tölur um lægra skuldahlutfall ríkissjóðs en gengur og gerist í Evrópu.

Klípan er hins vegar sú að veruleikinn er allt annar.

Verðbólguþrýstingur

Daginn eftir að ríkisstjórnin birti forsendurnar fyrir aðgerðum sínum birti Morgunblaðið hagvaxtartölur frá hagrannsóknafyrirtækinu Analytica. Þar kemur fram að hagvöxtur á mann dróst saman á fyrsta ársfjórðungi og hefur undanfarin ár verið minni en í nokkru öðru aðildarríki OECD.

Að auki liggur fyrir að kerfisskekkjan veldur því að þrátt fyrir lágt skuldahlutfall ríkissjóðs greiðir enginn fjármálaráðherra í Evrópu jafn hátt hlutfall af þjóðarútgjöldum í vexti eins og fjármálaráðherra Íslands. Önnur útgjöld þurfa því að vera lægri að sama skapi eða skattar hærri. Hvorugt er raunin.

Þetta hvort tveggja þýðir að ríkisstjórnin siglir eftir röngu striki.

Munurinn á því að byggja ríkisumsvifin á heildarhagvexti en ekki tölum um hagvöxt á mann er í raun og veru opinber verðbólguþrýstingur. Siglingin að settu marki verður því lengri sem skekkjan á strikinu, sem siglt er eftir, er meiri.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 8. júní 2023