Þrjár leiðir

Þorsteinn Pálsson

Umræða um vexti og verðbólgu ryður eðlilega öðrum umræðuefnum til hliðar um þessar mundir. Á hinn bóginn ríkir þögn um þær skekkjur í þjóðarbúskapnum sem takmarka möguleika stjórnvalda til þess að takast á við undirliggjandi vanda.

Umræður sem fram fóru á Alþingi á þriðjudag í þessari viku um stöðu efnahagsmála endurspegluðu þessa sérkennilegu stöðu. Deilur um ábyrgð á verðbólgunni eru ekki gagnslausar. En þær virka þó eins og gerviumræða á sporbaug um kjarna málsins.

Þrefalt hærri vextir

Það alvarlegasta í stöðunni er sú staðreynd að vextir þurfa að vera þrefalt hærri en í grannlöndunum til að vinna á svipaðri verðbólgu. Þetta vill ríkisstjórnin ekki ræða. Forysta Samfylkingar er einnig hætt að ræða þennan kerfislega vanda. Í þingumræðunni voru talsmenn Viðreisnar þeir einu sem beindu athyglinni að þessu kjarna viðfangsefni efnahagslífs og velferðar í landinu.

Þessi skekkja er ekki tímabundin meðan verðbólgan gengur yfir. Þetta er viðvarandi skekkja í hagkerfinu. Mismunurinn gagnvart samkeppnislöndunum er alltaf jafn mikill, en ýkist vitaskuld í mikilli verðbólgu.

Þessi skekkja veikir viðvarandi samkeppnisstöðu flestra lítilla og meðalstórra fyrirtækja. En hún veldur líka óréttlæti af því að annar hluti atvinnulífsins starfar í mun hagstæðara lánaumhverfi, sem stýrt er af seðlabönkum Evrópu og Bandaríkjanna.

Uppspretta óróleika á vinnumarkaði

Stundum eru sársaukafullar efnahagsaðgerðir eins og vaxtahækkanir óumflýjanlegar. En þegar þær bitna með mismunandi þunga á launafólki og fyrirtækjum verður óréttlætið sjálfstæð uppspretta óróleika á vinnumarkaði.

Meðan atvinnulífinu er skipt í tvö hólf ólíkra peningakerfa er borin von að finna flöt á stöðugleikamódeli á vinnumarkaði.

Þrefalt hærri vextir en grannlöndin búa við hafa líka leitt til þeirrar þverstæðu að þrátt fyrir hóflega skuldastöðu ríkissjóðs verjum við hærra hlutfalli þjóðarútgjalda í vaxtagreiðslur en skuldugustu þjóðir Evrópu.

Kerfislægur vandi

Þetta háa hlutfall vaxtagreiðslna er helsta ástæðan fyrir því að svigrúm okkar til að styrkja rekstur heilbrigðiskerfisins hefur verið minna en annarra Norðurlanda. Vandi velferðarkerfisins er ekki of lágir skattar heldur og of há vaxtaútgjöld.

Ríkisstjórnin vill ekki ræða þennan kerfislæga vanda. Forysta Samfylkingar hefur tekið upp stefnu VG frá því í kosningunum 2017 og leggur til víðtækar almennar skattahækkanir. Kannanir sýna þó að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hennar fylgir enn hugmyndum um kerfisbreytingar.

Formaður Viðreisnar freistaði þess í þingumræðunum á þriðjudag að beina umræðunni að vali um þessar þrjár megin leiðir: Að viðhalda skekkjunni, leiðrétta hana með sköttum eða fara í kerfisbreytingu.

Í stað þrætubókar um ábyrgð á verðbólgu og vöxtum er miklu nær að draga fram rök og mótrök fyrir  vali kjósenda milli þessara þriggja leiða. Stóru átakalínur næstu kosninga hljóta að teiknast upp um þessar þrjár leiðir að svo miklu leyti sem umræðan snýst um kjarna málsins.

Að plægja jarðveginn

Fyrir átta árum voru talsmenn launafólks og atvinnulífs samstiga í málflutningi sínum gagnvart þessari grundvallar skekkju í hagkerfinu og mikilvægi  kerfisbreytinga. Nú ríkir þögn á þeim vettvangi um þessa miklu hagsmuni launafólks og hluta atvinnulífsins. Pólitíska þögnin er í skjóli breyttrar umræðu á vinnumarkaði.

Einstaka fræðimenn á borð við Gylfa Zoega prófessor og fyrrum fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabankans hafa vakið athygli á þessari skekkju í þjóðarbúskapnum. Það hefur ekki dugað til.

Upp úr miðri síðustu öld tók það fremstu hagfræðinga landsins meir en áratug að plægja jarðveginn fyrir kerfisbreytingum Viðreisnarstjórnarinnar, sem meðal annars náðu til alþjóðlegs samstarfs í peningamálum. Það var of langur tími og of kostnaðarsamur fyrir launafólk og atvinnufyrirtæki.

En kjarni málsins er sá að kerfisbreytingar eru nú óhjákvæmilegar eins og á þeirri tíð. Og það þarf að plægja jarðveginn nú eins og þá.

Greinin birtist fyrst á DV 1. júní 2023