Hverjir taka mark á hagfræðingum?

Þorsteinn Pálsson

Á síðustu árum hafa margir haldið því fram að óstöðugleiki í íslenskum þjóðarbúskap stafi helst af því að verkalýðsforingjar afneiti lögmálum hagfræðinnar.

En er það alfarið svo? Fylgja forystumenn atvinnulífsins kenningum hagfræðinga í einu og öllu betur en verkalýðsforingjar?

 

Ójöfnuður

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins skrifaði í síðasta mánuði grein, sem vakti mikla athygli. Þar gerði hann uppreisn gegn þeirri misskiptingu í samfélaginu að á fjármálamarkaði er millistéttinni og þeim lakast settu gert að greiða margfalt hærri vexti en þeim betur settu og öflugustu fyrirtækjunum.

Í raun er verkalýðsforinginn að hreyfa við grundvallar spurningunni um jöfn tækifæri allra.

Meirihlutinn á Alþingi er andvígur því að tryggja jöfn tækifæri allra á fjármálamarkaði. Miðflokkurinn og formaður Samfylkingar styðja stjórnarflokkana í þessu. Formaður Samfylkingarinnar vegna þess að hún telur rangt að hreyfa við málum, sem ágreiningur er um.

Helsta röksemd meirihlutans er sú hagfræðikenning að sjálfstæður gjaldmiðill sé nauðsynlegur til að jafna sveiflur. Í litlu myntkerfi fylgir því hins vegar mikill kostnaður fyrir almenning, minni fyrirtæki og einyrkja eins og bændur.

Þingmeirihlutinn trúir hins vegar ekki í raun á eina sveigjanlega mynt heldur þrefalt gjaldmiðlakerfi. Aðeins einn hluti þjóðarinnar er skyldaður til að nota sjálfstæða sveigjanlega íslenska krónu. Annar hluti notar verðtryggða krónu, sem ekki er unnt að gengisfella. Þriðji hlutinn fær að starfa í vaxtaumhverfi, sem stýrt er af erlendum seðlabönkum.

Þetta veldur innbyrðis misskiptingu og stöðugum óróa á vinnumarkaði.

 

Uppspretta óstöðugleika

Í grein sinni segir Vilhjálmur Birgisson:

„En hvað veldur því að hægt sé að taka óverðtryggt húnsæðislán á 2 til 5% föstum vöxtum til 30 ára eins og þekkist á Norðurlöndum en ekki hér á landi?

Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hef verið talsmaður íslensku krónunnar en nú hef ég skipt um skoðun enda kominn á endastöð með að verja krónuna enda er margt sem bendir til þess að þessi örmynt okkar eigi stóran þátt í þessum miklu efnahagssveiflum.

Sveiflum sem ætíð bitna á hinum almenna neytanda og heimilunum í formi okurvaxta, verðtryggingar og fákeppni á öllum sviðum.“

Niðurstaða verkalýðsforingjans er sú að lítil mynt sé ein ástæða fyrir hagsveiflum.

 

Álit tveggja hagfræðinga

En hvað segja virtustu hagfræðingar þjóðarinnar á sviði peningamála um þessa kenningu?

Árið 2014 skrifuðu Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson, þá óháðir háskólakennarar í hagfræði, bókina Áhættudreifing eða einangrun. Þar segja þeir:

„Þó svo að sveigjanlegt gengi eigi samkvæmt klassískum hagfræðikenningum að mýkja hagsveiflur, og gengið falli þegar illa árar fyrir þjóðarbúskapinn, er reyndin samt sem áður sú að frjáls gjaldeyrismarkaður er oftar en ekki uppspretta sveiflna fremur en mótvægi gegn þeim.“

Í sömu bók segja hagfræðingarnir enn fremur að þeirri skoðun hafi vaxið fylgi „að sjálfstæð peningastefna sé í raun ómöguleg fyrir smærri myntsvæði, nema þá aðeins að hún sé studd höftum.“

Í þessu efni sýnast sjónarmið hagfræðinganna tveggja um stöðugleika og verkalýðsforingjans falla býsna vel saman.

 

Stefnubreyting

Í grein sinni segist Vilhjálmur Birgisson hafa lagt til við Samtök atvinnulífsins að erlendir óháðir sérfræðingar yrðu fengnir til að kanna kosti og galla þess að taka upp aðra mynt, en fengið óskýr svör.

Fyrir sjö árum var Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Þá lék enginn vafi á því að samtökin fylgdu sömu sjónarmiðum og hagfræðingarnir tveir um þetta efni. Það gerðu Samtök iðnaðarins einnig.

Þeir sem á eftir komu vildu hins vegar ekki fylgja sjónarmiðum hagfræðinganna og endurómuðu kenningu meirihluta alþingismanna.

Þessi stefnubreyting hefur aldrei verið rökstudd.

 

Hallar á forystu atvinnulífsins

Sigríður Margrét Oddsdóttir er nýlega sest á stól framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hún virðist ekki hafa gefið skýr svör um hvort þetta álitaefni megi svo mikið sem kanna, hvað sem verður.

Niðurstaðan er þessi:

Eins og sakir standa sýnist fremur halla á forystu Samtaka atvinnulífsins en verkalýðsforingja þegar kemur að því að fylgja skoðunum fremstu hagfræðinga á þessari uppsprettu óstöðugleika í þjóðarbúskapnum.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 26. október 2023