Lóðarleiga í Reykjanesbæ er alltof há

Íbúar í Reykjanesbæ hafa lengi kvartað yfir hárri lóðarleigu og ekki að ósekju, enda búa þeir við langhæstu lóðarleigu á landinu. Lóðarleiga er hluti þeirra fasteignagjalda sem greidd eru á hverju ári. Annað sem fellur þar undir eru fasteignaskattar, sorphirðugjald og fleira. Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafa lengi verið meðvitaðir um þessa stöðu og hafa leitað leiða til að finna ásættanlega lausn. Hún hefur enn ekki fundist þrátt fyrir að viðræður hafi átt sér stað bæði við landeigendur og fulltrúa frá ríkinu. Á hvorugum þessa aðila var að finna nokkurn vilja til þess að koma til móts við íbúa.

Vegna þessa lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra um lóðarleigu á lóðum í eigu ríkisins. Fyrirspurnin var lögð fram 31. janúar en svar barst ekki fyrr en 5. september þrátt fyrir að ráðuneytinu beri að svara slíkri fyrirspurn ekki seinna en fimmtán virkum dögum eftir að fyrirspurn berst. Svar ráðuneytis má finna á vef Alþingis.

Í svari ráðherra kemur m.a. fram að ríkið sé í dag ekki stór landeigandi innan þéttbýlissvæða. Undantekningin frá því sé þó Ásbrú sem ríkið fékk gefins þegar að herinn fór árið 2006. Þess er einnig getið að lóðarleigutekjur ríkisins af Ásbrú séu 222 milljónir króna á ári. Þá er í svarinu vísað til þess að lóðarleiga ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar sé almennt 2% af lóðarmati í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins. Sú fullyrðing er ekki rétt þar sem Reykjanesbær veitir 25% afslátt af þessum 2% og kemur það fram í svari ráðuneytisins – en bara neðanmáls, í litlu letri, undir töflu sem fylgdi með svarinu.

Þetta þýðir í raun að Reykjanesbær rukkar 1,5% lóðarleigu en ekki 2% líkt og ríkið og landeigendur. Þar af leiðandi er ekki heldur hægt að halda því fram með réttu að lóðarleiga ríkisins sé í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins.

 

Skýrsla Byggðastofnunar

Byggðastofnun gefur út skýrslu á hverju ári um fasteignagjöld sem má finna á vef Byggðastofnunar. Þar kemur m.a. fram að meðaltal lóðarleigu á Íslandi sé kr. 49.435. Er þar verið að miða við lóðarleigu á lóð sem er 808 fermetrar að  stærð.

Reykjanesbær er hins vegar langt frá þessu meðaltali og með langhæstu lóðarleiguna á Íslandi, þar sem hæsta lóðarleigan í Keflavík er kr. 149.655 og í Njarðvík kr. 139.275 [sjá töflu]. Þau sem greiða lóðarleigu til sveitarfélagsins og njóta 25% afsláttar greiða hins vegar kr. 112.241 í Keflavík og kr. 104.456 í Njarðvík. Í Grindavík er verið að greiða kr. 41.570 fyrir sambærilega lóð.

Reykjanesbær er innheimtuaðili

Þegar ég sem bæjarfulltrúi á sínum tíma spurðist fyrir um fyrirkomulag innheimtu lóðarleigu í sveitarfélaginu var mér tjáð að Reykjanesbær sæi um að innheimta fyrir aðra landeigendur og til samræmingar var talið rétt að miða gjaldskrá við 2% lóðarleigu eins og aðrir landeigendur vilja innheimta, en veita þess í stað 25% afslátt til þeirra sem leigðu af sveitarfélaginu. Eftir að hafa skoðað skýrslu Byggðastofnunar í mörg ár er ég kominn á þá skoðun að þessu fyrirkomulagi þurfi að breyta. Ríkið á t.d. ekki að geta sett fram í svari að lóðarleiga ríkisins sé í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins á sama tíma og það rukkar hærra gjald en sveitarfélagið. Sveitarfélagið þarf því að hætta að veita afslátt og einfaldlega færa gjaldskrána til samræmis við það sem verið er að rukka. Ef að aðrir landeigendur vilja síðan fá hærri lóðarleigu en sveitarfélagið rukkar, þá þarf bara að leggja á sérstakt álag vegna þess. Þá væri það alveg skýrt hverjir það væru sem ætluðu sér að rukka meira en sveitarfélagið. Hinn kosturinn er að hætta hreinlega að rukka fyrir aðra landeigendur.

 

Reykjanesbær rukkar of mikið í lóðarleigu

Hins vegar er það ljóst miðað við þær tölur sem koma fram í skýrslu Byggðastofnunar að sveitarfélagið sjálft er að leggja á of háa lóðarleigu í krónum talið miðað við fyrirliggjandi verðmat lóða. Þrátt fyrir að sveitarfélagið leggi á 1,5% lóðarleigu er sú lóðarleiga talsvert hærri en það sem gengur og gerist í öðrum sveitarfélögum. Ég nefndi það fyrr í þessari grein að meðaltal lóðarleigu á landinu væri rúmar 49 þúsund króna og þá er það ekki ásættanlegt að Reykjanesbær rukki 112 þúsund í Keflavík og 104 þúsund í Njarðvík sem er tvöfalt hærra en meðaltalið. Í töflunni sýni ég hver lóðarleigan væri ef álagsprósentan væri 1,1%. Þá væri niðurstaðan sú að lóðarleiga í Keflavík væri kr. 82.310 og í Njarðvík kr. 76.601. Þar með væri lóðarleiga í meira samræmi við það sem gerist í sveitarfélögunum í kringum okkur og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Ég vænti þess að verið sé að vinna að fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og nýta ætti tækifærið til þess að breyta þessu.

Þar með væri kominn þrýstingur á þá aðila sem innheimt hafa okurlóðarleigu mörg undanfarin ár um að lækka lóðarleigu og þar er ríkið sjálft ekki undanskilið.

 

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 12. október 2023