10 feb Stefnuræða 2025: Daði Már Kristófersson

Ræða Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra 10. febrúar 2025
Frú forseti
Á undanförnum misserum hafa verðbólga og háir vextir hvílt þungt á íslensku samfélagi. Heimilin og atvinnulífið hafa upplifað erfiðleika og þurft að taka krefjandi ákvarðanir um fjármál og rekstur. Þá býr ríkið enn við óheyrilegan vaxtakostnað. Við höfum að undanförnu séð verðbólgu og vexti á niðurleið, en það er fyrst og fremst heimilum og fyrirtækjum landsins að þakka sem hafa tekið á sig byrðar og sýnt ábyrgð með hófsömum kjarasamningum.
Agi í fjármálum, umbætur í ríkisrekstri og taumhald á útgjöldum til þess að styðja áfram við lækkun vaxta og verðbólgu verður forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar. Við ætlum að sníða okkur stakk eftir vexti.
Ríkið þarf að fjárfesta í nýjum verkefnum af skynsemi og stofna ekki til rekstrar í góðæri sem við höfum ekki efni á í samdrætti. Við ætlum að taka upp stöðugleikareglu í fjármálum hins opinbera til þess að ná betri árangri og skjóta styrkari stoðum undir stöðugleika til framtíðar og lækkun vaxta.
Frú forseti. Skatttekjur eru undirstaða rekstrar ríkisins. Hversu umfangsmikill sá rekstur á að vera er þrætuepli stjórnmálanna. Um hitt erum við sammála, að skattar eigi að vera sanngjarnir og skilvirkir og skattkerfið skiljanlegt og gegnsætt. Almenn samstaða er um það á Íslandi að vinna að heilbrigðu samspili verðmætasköpunar, uppbyggingar og viðhaldi innviða og þjónustu sem færir sem flestum hagsæld og velsæld. Kröftugt arðsamt atvinnulíf sem skapar verðmæti og störf er undirstaða sameiginlegra verkefna, innviða og þjónustu.
Ríkisstjórnin hefur sett það í forgang að standa fyrir umbótum, hagræða og að auka skilvirkni. Umbætur og endurskoðun verkefna hins opinbera á og verður að vera viðvarandi viðfangsefni. Ár hvert munum við velta við steinum og endurskoða verkefni og leita leiða til að gera betur. Listi yfir það sem betur mætti fara í samfélaginu er langur. Eftirspurn eftir skattfé er því nær ótæmandi. Kröfur um aukin ríkisútgjöld koma bæði frá almenningi og atvinnulífinu en við vitum að geta hagkerfisins til að bera aukna skattbyrði er takmörkuð.
Fyrirtæki sem búa við eðlilega samkeppni fá aðhald frá markaðinum. Hann hvetur til stöðugrar endurskoðunar og endurmats. Þar lúta úreltar hugmyndir í lægra haldi fyrir nýjum og betri. Aðhald í rekstri ríkisins þarf hins vegar að koma frá ríkinu sjálfu. Flatur niðurskurður og viðvarandi aðhaldskrafa gerir ekki greinarmun á slæmri hugmynd eða úreltri og góðri. Þessari nálgun þarf að breyta, annars hækkar stöðugt hlutfall ríkisútgjalda sem fer til úreltra verkefna á kostnað nýrra áherslna, nýsköpunar og fjárfestinga í innviðum. Þetta skilur þjóðin og hefur komið þeim skilaboðum til ríkisstjórnarinnar með hagræðingartillögum svo þúsundum skiptir.
Frú forseti. Á fyrstu dögum mínum í ráðuneytinu fræddist ég um verkefnið Stafrænt Ísland sem er mjög gott dæmi um nýsköpun í rekstri, umbætur og bætta þjónustu með lægri tilkostnaði. Verkefnið er mjög í þeim anda sem við í ríkisstjórninni viljum innleiða á þessu kjörtímabili. Stafrænt Ísland sinnir því hlutverki að aðstoða opinbera aðila við að bæta stafræna þjónustu við almenning. Þar hefur tekist að leiða saman leiðsögn og stefnumörkun hins opinbera og krafta atvinnulífsins með útboðum og rammasamningum.
Frú forseti. Höfum hugfast að náttúruöflin, stríð og vaxandi spenna í alþjóðaviðskiptum geta gert okkur óskunda þegar síst varir. Það er skylda okkar stjórnmálamanna að tryggja að ríkissjóður sé vel í stakk búinn til að geta brugðist við áföllum. Þeirri ábyrgð megum við aldrei gleyma. Ríkisstjórnin ætlar sér að vinna saman, rjúfa kyrrstöðu og ná árangri. Ég vonast til þess að eiga gott samstarf við þingheim og landsmenn alla við það verkefni.