26 feb Þakklát fyrir samtalið

Nú stendur yfir kjördæmavika, sú fyrsta frá alþingiskosningunum í lok nóvember á síðasta ári sem leiddu til sögulegrar myndunar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þingflokkur Viðreisnar nýtir kjördæmavikuna að venju vel. Síðustu daga höfum við gert víðreist um Vesturlandið en vikan er bara rétt hálfnuð og fram undan er spennandi dagskrá á Suðurlandi.
Fyrir ráðherra atvinnuvega er kjördæmavikan ómetanlegt tækifæri til að ræða við fólk víðs vegar að um þau mál sem á því brenna og varða grunnatvinnuvegi okkar. Við hófum vikuna með opnum fundi í golfskála Akraness þar sem við ræddum málefni bæjarins og höfum síðan heimsótt stofnanir og fyrirtæki víðs vegar á Vesturlandi. Við lukum fyrsta degi með frábærum opnum fundi á Hótel Laugabakka þar sem yfir 60 manns mættu víða að til að ræða við þingflokkinn um landsins gagn og nauðsynjar. Mörgum spurningum og athugasemdum var beint að mér sem atvinnuvegaráðherra og ég er verulega þakklát fyrir samtalið. Það kemur ekki á óvart að á þessum slóðum var landbúnaður helsta umræðuefnið og margar hugmyndir til úrbóta viðraðar.
Á fundinum var töluvert spurt um nýtt frumvarp sem ég hef kynnt um breytingar á búvörulögum er varðar kjötafurðastöðvar og undanþágur þeirra frá samkeppnislögum. Þessum lögum var breytt á síðasta kjörtímabili og var þá gengið mjög langt í að búa íslenskum afurðastöðvum mun víðtækari undanþágur frá samkeppnislögum en þekkjast í nágrannalöndum okkar. Það er verk fyrrverandi stjórnarmeirihluta og núverandi minnihluta sem breytti fyrirliggjandi frumvarpi sem miðaði að því að styrkja stöðu bænda og skapa tækifæri fyrir þá til aukinnar samvinnu, á þann hátt að afurðastöðvar sem ekki eru í meirihlutaeigu bænda og önnur fyrirtæki sem eru jafnvel stórtæk í öðrum greinum atvinnulífsins geta nú átt með sér verðsamráð og sameinast án aðkomu og eftirlits samkeppnisyfirvalda. Engin skilyrði eru um eignarhald eða stjórn bænda í þeim lögum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2024 og engir varnaglar í lögunum sem eru því til fyrirstöðu að hinar víðtæku undanþágur bitni á þeim hagsmunum sem ætlunin var að vernda, hagsmunum bænda. Með öðrum orðum, eðlilegu aðhaldi samkeppninnar var kippt úr sambandi.
Nýja frumvarpið gerir ráð fyrir því að búvörulögin verði færð aftur til fyrra horfs en samhliða verður unnið að öðru frumvarpi sem tryggir að innlendir framleiðendur hafi ekki minna svigrúm til hagræðingar en er í nágrannalöndum okkar. Við viljum tryggja bændum tækifæri til samvinnu og samstarfs, til að styrkja stöðu þeirra innan virðiskeðjunnar og jafnframt stuðla að hagræðingu innan atvinnugreinarinnar bændum og neytendum til hagsbóta.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. febrúar 2025