05 feb Verkstjórn eftir áralangt verkstol

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins verður verkstjórn. Það er hressandi tilbreyting eftir sjö ára kyrrstöðustjórn að upplifa að hér sé komin til valda ríkisstjórn sem ætlar að ganga í verkin. Skera á hnútana. Í vikunni kynntu formenn stjórnarflokkanna fyrstu verk ríkisstjórnarinnar með skilmerkilegum hætti. Um var að ræða yfirlit yfir frumvörp og aðrar aðgerðir fyrstu 100 dagana. Í fyrsta lagi kynntu formennirnir áform sín um að koma á stöðugleikareglu með frumvarpi strax í febrúar. Þannig verða engin ný útgjöld árið 2025 án þess að hagræða eða afla aukinna tekna á móti. Það er nauðsynlegt skref til að tryggja að betur sé farið með opinbert fé og til að stuðla að áframhaldandi lækkun vaxta fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Ráðuneytum verður fækkað og það verður því spennandi að sjá hvað hagræðingarhópurinn leggur til þann 28. febrúar. Að auki boðar ríkisstjórnin nauðsynlegar bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Fíknisjúkdómurinn fer ekki í sumarfrí og því verða meðferðarúrræði ekki lokuð í sumar eins og tíðkast hefur. Kjör öryrkja og eldra fólks verða bætt og umbætur boðaðar á fæðingarorlofskerfinu. Ríkisstjórnin ætlar einnig að stuðla að aukinni verðmætasköpun og réttlátri auðlindanýtingu. Höggva á hnútinn í orkumálunum og einfalda, hraða og samræma málsmeðferðir þegar kemur að leyfisveitingum. Orkuforgangur almennings verður tryggður í raforkukerfinu. Ríkisstjórnin ætlar að stuðla að gagnsæi í sjávarútvegi og koma með frumvarp um nýja útfærslu á strandveiðum. Samgönguáætlun verður tryggð og jarðgöng boruð. Neytendur verða settir í forgrunn og frjáls viðskipti. Við ljúkum sölu Íslandsbanka með gagnsæju og traustu söluferli. Dómsmálaráðherra hefur þegar hækkað sektargreiðslur þeirra sem ganga um með vopn til að sporna gegn þeirri þróun. Samhliða því verður lögreglumönnum fjölgað um 50 strax á þessu ári. Hún ætlar að sameina sýslumannsembætti úr níu í eitt án þess að loka starfsstöðvum á landsbyggðinni. Við verðum með augun á alþjóðasviðinu – ekki veitir af – og höldum áfram að stuðla að almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum.
Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessum risastóra verkáætlunarpakka eru fyrirsjáanleg. Svolítið eins og í einhverju HC Andersen-ævintýri. Einum þykir hann of rýr, öðrum þykir hann of yfirgripsmikill. Sumir munu kvarta undan bauninni þótt þeir sofi á 114 dýnum. Eitt er víst: við eigum von á því að vera hér með sundurleitan minnihluta sem slær mjög fyrirsjáanlega tóna. Máttlausar grýlur um skattahækkanir, útgjaldaaukningar eða taut um að þessar aðgerðir komi niður á landsbyggðinni eiga einfaldlega ekki við rök að styðjast.
Verkin munu sanna það.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. febrúar 2025