02 apr Þjóðin kaus breytingar

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnin hyggst leiðrétta veiðigjöld. Ég hef fylgst vel með umræðunni sem sprottið hefur upp vegna þessa, lagt mig fram um að hlusta, skynja og skilja. Þó svo að umræðan hafi á köflum verið fyrirsjáanleg, þá hefur hún verið mestmegnis góð. Þegar breytingar eru gerðar sem geta haft áhrif á atvinnustarfsemi skiptir miklu máli að tryggja gott samtal og gott samráð. Þannig tryggjum við að ákvarðanir séu teknar á grundvelli staðreynda. Auðvitað vakna ýmsar spurningar. Það er til dæmis eðlilegt að sveitarfélög og aðilar sem standa að litlum og meðalstórum útgerðum spyrji sig hvaða áhrif umræddar breytingar hafi á þeirra rekstur. Mun frítekjumarkið og boðuð hækkun þess og þrepaskipting grípa þau eða ekki? Það er svo hlutverk okkar að hlusta á þessi sjónarmið. Þannig virkar samráð.
Það er verkefni stjórnmálanna að búa til skýrar og gagnsæjar leikreglur, sem byggjast á réttlátri skiptingu auðs og auðlinda. Leiðrétt reikniregla tryggir að greitt gjald taki mið af raunverulegu verðmæti. Til þessa hafa greiðendur veiðigjalda sjálfir getað ákvarðað stofn gjaldsins, það segir sig sjálft að þannig getur það ekki gengið. Til þessa hefur veiðigjaldið og upphæð þess verið nokkuð á reiki og jafnvel háð geðþótta stjórnmálanna hverju sinni. Ríkisstjórnin sem kvaddi í lok síðasta árs hafði til að mynda áformað að hækka veiðigjöld um fimm milljarða samkvæmt fjármáláætlun. Hugmyndir án útfærslu. Núverandi ríkisstjórn er ekki að hrófla við kerfinu að neinu leyti. Veiðigjöld verða áfram 33,3% af hagnaði. Það er ekki verið að breyta hlutfallinu eða kvótakerfinu. Það er eingöngu verið að leiðrétta það hvernig veiðigjaldagrunnurinn er reiknaður út. Um er að ræða gjöld sem tekin eru af hagnaði. Ef hagnaður er lítill þá lækka gjöldin og öfugt. Eðlilega.
Ég fagna umræðu um sjávarútveginn. Hér er um að ræða eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Það er ekki markmið stjórnvalda að kippa stoðum undan ákveðnum samfélögum. Það er markmiðið að fá réttlátt gjald fyrir auðlindirnar. Og nýta svo þá fjármuni sem fást í innviðauppbyggingu – ekki veitir af. Við blasir innviðaskuld upp á 680 milljarða. Sem bregðast verður við með öllum tiltækum ráðum.
Við búum saman í samfélagi og greiðum okkar til þess að það gangi upp. Það ríkir vissulega ákveðin tortryggni gagnvart því að umræddir fjármunir skili sér raunverulega í aukna fjárfestingu í innviðum eða þjónustu. Það er skiljanlegt, miðað við reynslu fyrri ára. Það urðu hrein stjórnarskipti. Þjóðin kaus breytingar. Og það er það sem hún mun fá.