Innantökur minnihlutans

Það líður vart sá dag­ur á Alþingi þar sem minni­hlutaþingmaður stíg­ur ekki í pontu til að fussa yfir störf­um meiri­hlut­ans. Það er hluti af leikja­fræðinni. Þras um aðferðir, vinnu­brögð, tíma­setn­ing­ar og smá­atriði. Þetta eru oft fróðleg­ar umræður og at­huga­semd­ir – stund­um gagn­leg­ar. Það sem hef­ur þó ein­kennt nú­ver­andi minni­hluta und­ir stjórn Miðflokks­ins eru ásak­an­ir um að meiri­hlut­inn beri ekki nægi­lega virðingu fyr­ir Alþingi og þing­störf­un­um. Hvers vegna? Jú – því það geng­ur of vel hjá meiri­hlut­an­um að vinna mál­in. Þau rúlla of hratt í gegn að þeirra mati.

Maður sýn­ir þessu auðvitað ákveðna samúð. Enda hafa minni­hluta­flokk­arn­ir tölu­verða reynslu af því að stýra land­inu, en minni reynslu af því að hlut­irn­ir gangi smurt – að minnsta kosti í seinni tíð. Tveir þeirra, Fram­sókn­ar­flokk­ur og Sjálf­stæðis­flokk­ur, hafa nán­ast óslitið verið við völd í ís­lensku sam­fé­lagi frá stofn­un lýðveld­is­ins. Sá þriðji, Miðflokk­ur, sam­an­stend­ur að megn­inu til af þing­mönn­um sem áður til­heyrðu fyrr­nefnd­um valda­flokk­um. Ein­hvers kon­ar óþægi­legt póli­tískt ætta­mót.

Íslend­ing­ar hafa sem sagt upp­lifað heil sex ár án þess­ara flokka við rík­is­stjórn­ar­borðið en 75 með þá inn­an­borðs. Það er því skilj­an­legt að það þurfi viss­an aðlög­un­ar­tíma til að átta sig á stöðunni. Jafn­vel áfalla­hjálp.

Okk­ur hef­ur mörg­um þótt nokkuð sér­stakt að sjá þessa reyndu þing­menn reyna að gíra sig upp í hlut­verk vand­látra and­ófs­manna – ridd­ara rétt­læt­is. Á köfl­um verður það bein­lín­is kó­mískt, sér­stak­lega þegar kvartað er sár­an und­an því að vera vænd um taf­ir eða málþóf – svona í ljósi sög­unn­ar. Það er líka sér­lega skondið þegar þau væna meiri­hlut­ann um að vera lítið annað en stimp­il­púðar fyr­ir fram­kvæmda­valdið – að bera ekki virðingu fyr­ir þing­heimi, lög­gjaf­ar­vald­inu. Eig­um við virki­lega að rifja upp meðferð valds á þeirra löngu vakt? Ég held ekki.

Hug­mynd­ir þess­ara flokka um meðferð valds eru vissu­lega rót­grón­ar. En staðreynd­in er sú að kjós­end­ur höfnuðu þeim í síðustu alþing­is­kosn­ing­um. Í raun fengu valda­flokk­arn­ir tveir sögu­lega út­reið og skila­boð kjós­enda því al­veg kýr­skýr. Fólkið kaus breyt­ing­ar. Nýja stjórn­ar­hætti og öðru­vísi stjórn­mál.

Eft­ir sit­ur sú til­finn­ing að gömlu flokk­arn­ir líti svo á að nú­ver­andi rík­is­stjórn sé bara tíma­bundið frá­vik frá ein­hverri meg­in­reglu. Óþægi­leg pása á vara­manna­bekkn­um. En þing­ræði fel­ur í sér ábyrgð og aðhald. Meiri­hlut­inn ber ábyrgð á fram­gangi mála og að tryggja að stefna rík­is­stjórn­ar fái fram­gang í þing­inu. Það að beita þing­meiri­hluta til að vinna að mál­um er ekki óvirðing – held­ur hlut­verk og skylda. Mun­um að stól­arn­ir við rík­is­stjórn­ar­borðið eru ekki í var­an­legri eigu ein­hverra flokka. Þeir eru sam­eign þjóðar­inn­ar. Þar ligg­ur hið lýðræðis­lega umboð – og það ber að virða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2025