Ástareyjan Alþingi

Nýr ís­lensk­ur raun­veru­leikaþátt­ur hef­ur hafið göngu sína á Íslandi. Hann má finna á rás núm­er sautján á öll­um helstu mynd­lykl­um, Alþing­is­rás­inni. Þar geta lands­menn fylgst með hinum ýmsu tilþrif­um þing­manna í ræðustól Alþing­is. Þar er að finna allt það sem ein­kenn­ir gott raun­veru­leika­sjón­varp. Spennu, drama, átök, upp­hróp­an­ir, lit­ríka karakt­era og óvænt­ar uppá­kom­ur með magnþrung­inni stemn­ingu.

Við þekkj­um nú þegar serí­una um áföstu tapp­ana og fríversl­un­ar­samn­ing­inn við Taí­land. En það nýj­asta úr smiðju minni­hlut­ans er æsispenn­andi raun­veru­leikaþátt­ur um hina mar­grómuðu Bók­un 35 sem nú er í loft­inu. Þar fá lands­menn djúpa inn­sýn í hug­ar­heim miðflokks­manns­ins og fylgi­tungla hans, sjálf­stæðismanna og fram­sókn­ar­manna. Sem hafa nú, þegar þessi grein er rituð, rætt málið í rúm­an sól­ar­hring í ann­arri umræðu. Sér­stak­lega fannst mér áhuga­verð umræðan á milli sjöttu og sjö­undu ræðu Sig­mund­ar Davíðs og Bergþórs Ólason­ar sem átti sér stað á Alþingi um klukk­an 01:16 aðfaranótt föstu­dags­ins 13. júní. Þar steig Bergþór Ólason í pontu und­ir liðnum fund­ar­stjórn for­seta og vildi fá á hreint hversu lengi for­seti hygðist halda umræðum gang­andi inn í nótt­ina. Sig­mund­ur Davíð mætti og tók und­ir og sagði að ef ætl­un­in væri að tala að næt­ur­lagi væri óhjá­kvæmi­leg af­leiðing af því að hann yrði að ít­reka dag­inn eft­ir það sem hann segði að næt­ur­lagi – því al­menn­ing­ur ætti rétt á að hafa tæki­færi til að fylgj­ast með umræðunni. Steig þá Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir í pontu og benti miðflokks­mönn­um á að áhyggj­urn­ar væru til­efn­is­laus­ar. Að hægt væri að horfa á all­ar umræður á vefn­um og spóla til baka. Þá mætti Bergþór aft­ur í pontu og lýsti því yfir að hann hefði fengið skila­boð um það að þetta væri hið nýja „Love Is­land“. Fólk hefði því vænt­ing­ar um að umræðan héldi áfram um sinn. Fyr­ir þau sem ekki þekkja er Love Is­land vin­sæll raun­veru­leikaþátt­ur þar sem ókunn­ugt fólk býr sam­an á sól­ríku setri og binst þar ástar­bönd­um.

Þarna urðu straum­hvörf í umræðunni. Það rann upp fyr­ir mér að ég, stjórn­arþingmaður­inn, væri í reynd hluti af raun­veru­leika­sjón­varpi Miðflokks­ins. Og kynnti mig til leiks sem karakt­er í þátt­un­um. Ég benti reynd­ar á að raun­veru­leikaþætt­ir ættu það til að verða lang­dregn­ir og því væri gott ráð að kom­ast fljótt að niður­stöðu um af­drif mála.

Ljóst er að þáttaserí­an um ástareyj­una held­ur lík­lega áfram. En ör­væntið eigi. Það er von á spánnýj­um raun­veru­leikaþætti eft­ir helgi; Auðlinda­stríð – í anda Pip­ar­sveins­ins mar­grómaða (e. The Bachel­or), þar sem minni­hlutaþing­menn munu kepp­ast um hylli stór­út­gerðar­inn­ar.

Greinin birtist fyrst á Morgunblaðinu 14. júní 2025