Frelsi er ekki sjálfgefið

Fyr­ir 15 árum urðu sögu­leg tíma­mót þegar hjú­skap­ar­lög­um var breytt þannig að öll pör, óháð kyni, fengu jafn­an rétt til hjóna­bands á Íslandi. Ein hjú­skap­ar­lög fyr­ir þau sem eru svo hepp­in að hafa fundið ást­ina. Með því tók Alþingi þá af­drátt­ar­lausu af­stöðu að ást­in væri ekki einka­mál sumra, held­ur mann­rétt­indi allra. Þessi breyt­ing var hvorki til­vilj­un né sjálf­sögð, hún var afrakst­ur ára­tuga­langr­ar bar­áttu hinseg­in fólks og banda­manna þeirra. Bar­áttu sem snýst um viður­kenn­ingu og virðingu fyr­ir rétti ein­stak­linga til að elska og lifa til jafns við aðra.

Ef sag­an hef­ur kennt okk­ur eitt­hvað, þá hef­ur hún kennt okk­ur að engri rétt­ar­bót fylgi sjálf­krafa ei­líft ör­yggi. Við get­um ekki látið sem ekk­ert sé. Í dag horf­um við upp á al­var­legt bak­slag víða um heim, líka hér heima. Hinseg­in ung­menni finna fyr­ir aukn­um for­dóm­um, jafn­vel ótta. Umræða sem áður var hlý og upp­byggi­leg get­ur nú orðið köld og niðrandi á svip­stundu, jafn­vel á op­in­ber­um vett­vangi.

Við meg­um ekki sofna á verðinum. Mann­rétt­indi eru ekki stök ákvörðun sem við tök­um og setj­um svo ofan í skúffu og gleym­um. Þau eru lífæð sam­fé­lags­ins okk­ar – eitt­hvað sem við verðum að verja á hverj­um degi. Þess vegna skipt­ir máli að við stönd­um sam­an þegar rætt er um rétt­indi hinseg­in fólks. Að við lát­um í okk­ur heyra þegar fólk er úti­lokað, af­skrifað eða gert ósýni­legt.

Bar­átt­an fyr­ir ein­um hjú­skap­ar­lög­um var tákn um breytta tíma og sönn­un þess að samstaða og bar­átta get­ur breytt sam­fé­lag­inu. Að sama skapi get­ur sundr­ung og þögn breytt sam­fé­lag­inu, oft­ast til hins verra. Í aukn­um mæli heyr­ast sög­ur af of­beldi og for­dóm­um í garð hinseg­in fólks um all­an heim. Ef við stönd­um ekki sam­an og lát­um ekki í okk­ur heyra er hætt við að réttarör­yggi hverfi. Þegar sam­fé­lagið slær nýj­an tón ber okk­ur skylda til að verja mann­rétt­indi og berj­ast fyr­ir sam­fé­lagi þar sem all­ir geta lifað í ör­uggu um­hverfi, óháð kyn­vit­und sinni eða kyn­hneigð.

Það er ekki nóg að segja „öll­um börn­um á að líða vel“ ef við meiðum svo sum þeirra með orðum og aðgerðal­eysi. Þess vegna þarf að minna á að þau rétt­indi sem hafa áunn­ist eru hvorki sjálf­sögð né til­vilj­un. Engri rétt­ar­bót fylg­ir sjálf­krafa ei­líft ör­yggi. Þess vegna skul­um við standa sam­an – með hlýju, hug­rekki og sam­kennd. Þessi rétt­indi skipta mig máli, ég er þakk­lát fyr­ir að hafa gengið í hjóna­band heima á Flat­eyri fyr­ir sjö árum. Með kon­unni sem ég elska. Því það er ekki sjálf­gefið.