Spam

Við sem not­um sam­fé­lags­miðla og tölvu­pósta erum orðin leiðin­lega vön svo­kölluðum spam-póst­um. Hug­takið „spam“ er fengið úr ensku og hef­ur því miður ekki fengið betri þýðingu en „rusl-póst­ur“. Spam get­ur bæði þýtt fjöl­póst­ur sem send­ur er mörg­um, en einnig að senda end­ur­tekið sömu skila­boðin í pósti eða inn­legg í spjall­hóp, svo eitt­hvað sé nefnt.

Spjall­hóp­ar á sam­fé­lags­miðlum, rétt eins og önn­ur fé­lags­leg sam­skipti, eru al­ger­lega háðir því að fólk inn­an þeirra um­gang­ist þá af ábyrgð. Und­ir­staða til­veru þeirra er að meðlim­ir sýni hver öðrum traust og standi sjálf­ir und­ir því. Það þarf ekki nema einn eða tvo meðlimi sem spamma hóp­inn með sömu skila­boðunum end­ur­tekið, til þess að fólk hætti að stunda hóp­inn og hann bæt­ist í hóp þeirra millj­óna hópa sem svífa dauðir ein­hvers staðar í gagna­ver­um.

Nú um stund­ir stend­ur yfir önn­ur umræða um leiðrétt­ingu veiðigjalda. Það kann að valda mörg­um undr­un, enda eru efn­is­leg atriði máls­ins öll kom­in fram og öll­um kunn. Leitað hef­ur verið eft­ir sam­ráði við alla helstu hagaðila, bæði í sam­ráðsgátt og við þing­lega meðferð. Gögn máls­ins eru ít­ar­leg, hafa verið rýnd og tekið hef­ur verið til­lit til þeirra þar sem það á við.

Samt er málið rætt, og rætt aft­ur. Sömu hlut­irn­ir sagðir aft­ur og aft­ur. Al­veg eins og gert var við fyrstu umræðu máls­ins. Al­veg eins og gert var í umræðu um bók­un 35, al­veg eins og var gert þegar staðfest­ur var fríversl­un­ar­samn­ing­ur við Taí­land og aft­ur og aft­ur og aft­ur.

Það er til­vilj­un að þessi orð eru skrifuð í kjöl­far þjóðhátíðardags­ins. Veiðigjöld­in og öll hin mál­in sem nefnd hafa verið snú­ast nefni­lega ekki um hvert mál fyr­ir sig. Í reynd snú­ast þau um það hvort vilji meiri­hluti lands­manna nái fram að ganga og gengið sé til at­kvæðagreiðslu um mál sem meiri­hluti er fyr­ir á Alþingi.

Að vera full­valda og sjálf­stætt ríki snýst ekki bara um að vera laus und­an er­lend­um yf­ir­ráðum. Það snýst líka um það hvort stofn­an­ir sam­fé­lags­ins virki og að kjörn­ir full­trú­ar geti starfað sam­kvæmt því umboði sem fólkið í land­inu veit­ir þeim, í stað þess að starfa sam­kvæmt umboði sér­stakra afla eða hags­muna sumra.

Sí­fellt end­ur­tek­in skila­boð, al­veg óháð um­fjöll­un­ar­efn­inu, rýra hvern sam­skipta­vett­vang, hvort sem það er lög­gjaf­arþing eða spjall­hóp­ur. Sé traustið ekki um­geng­ist af ábyrgð, hverf­ur áhugi fólks á því. Mun­ur­inn er sá að það er hægt að stofna nýj­an spjall­hóp, það er erfiðara með Alþingi.