16 sep Það er kosið um framtíðarsýn fyrir Ísland
Oft er talað um það á vettvangi stjórnmálanna að stöðugleiki sé mikilvægur. Þetta heyrist ekki síst núna af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Stöðugleiki er grundvallarþáttur en hann má þó ekki vera réttlæting fyrir að styðja ekki hagsmuni almennings. Þá er stöðugleikinn ekki orðinn annað en skjól sérhagsmuna. Þessar kosningar snúast um í hvernig samfélagi við viljum búa og hvernig samfélagi við viljum skila til næstu kynslóðar. Þegar við hugsum um framtíðarsýn fyrir Ísland þá þarf að hugsa um hvernig við nálgumst breytingar. Sagan hefur sýnt okkur að þegar breytingar komast til framkvæmda, þá er sjaldan litið um öxl. Miklu frekar spyrjum við okkur að því hvers vegna breytingarnar tóku svona langan tíma.
Við viljum sanngirni um fiskimiðin
Almenningur hefur til dæmis lengi kallað eftir kerfi sem tryggir almenningi sanngjarna greiðslu fyrir afnot af fiskimiðunum. Ríkissjóður verður af milljörðum á hverju ári vegna þessa kerfis. Milljörðum sem nýta mætti í samfélagslega mikilvæg verkefni eins og heilbrigðisþjónustu og skóla og bæta þannig lífsgæði okkar til muna. Afstaða þjóðarinnar til þess hvort markaðurinn eigi að ráða verðinu á verðmætum fiskimiðanna er skýr. Þjóðin virðist treysta markaðnum. En í nafni stöðugleikans hafa ríkisstjórnarflokkarnir farið gegn hagsmunum almennings í hvívetna. Útgerðin greiðir lágt veiðigjald sem ákvarðað er af stjórnmálunum. Stöðugleiki í þessu máli þjónar þess vegna hvorki hagsmunum almennings né ríkissjóðs. Eðlilegar breytingar munu hins vegar bæta hag almennings, ríkissjóðs og atvinnugreinarinnar. Með heilbrigðum leikreglum fæst sanngjarnt gjald til þjóðarinnar og meiri arðsemi í greininni án þess að kollvarpa núverandi kerfi sem hefur marga kosti. Þetta er hin skynsama leið sem mun skapa sátt um sjávarauðlindina.
Við viljum bæta kjör fjölskyldna
Með sömu gleraugum mætti spyrja hvers vegna við erum með örmynt, gjaldmiðil sem erfiðar almenningi á Íslandi að eignast húsnæði? Sem gerir að verkum að vextir af húsnæðislánum eru margfalt hærri hér en í nágrannaríkjunum? Og leiðir af sér að matarkarfan er umtalsvert dýrari? Við viljum bæta kjör almennings og fyrirtækja með því að tengja krónuna við evru sem mun skila lægri vöxtum. Þetta er eitt stærsta kjaramál fjölskyldna í landinu.
Við viljum gefa heilbrigðiskerfinu tækifæri
Okkar stefna er að styrkja Landspítalann þannig að hann geti uppfyllt þær gæðakröfur sem gerðar eru til aðalsjúkrahúss þjóðarinnar. Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera aðgengilegt fólki óháð efnahag og óháð búsetu. Það er grundvallarafstaða okkar. Um leið er grundvallarafstaða okkar að við viljum ekki takmarka starfsmöguleika heilbrigðisstarfsfólks eins og gert hefur verið undanfarið kjörtímabil. Heilbrigðisstarfsfólk eru eftirsóttustu starfskraftar heims og markmiðið á að vera að laða það hingað. Ríkisstjórnin hefur hins vegar valið að erfiða starf sjálfstætt starfandi lækna, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga sem leiðir af sér biðlista sem aldrei fyrr. Við viljum sjá heilbrigðiskerfið blómstra með því að nýta alla starfskrafta þess.
Grænir hvatar eru leiðin
Viðreisn hefur metnaðarfulla stefnu í loftslags- og umhverfismálum. Það á alltaf að borga sig að vera umhverfisvænn. Við viljum stíga stór skref strax í þágu næstu kynslóða. Við erum stolt af góðum árangri okkar hjá Sólinni, ungum umhverfissinnum, þar sem Viðreisn var einn þriggja flokka á toppnum. Við nálgumst umhverfismálin eins og Viðreisn hefur nálgast jafnréttismálin: sem leiðarljós í allri stefnu. Það á að vinna allar stefnur út frá því hvaða áhrif aðgerðir hafa í umhverfis- og loftslagsmálum. Ísland hefur þannig náð góðum árangri í kynjajafnrétti, með aðgerðum eins og jafnlaunavottun sem Viðreisn kom í gegn.
Gefðu framtíðinni tækifæri
Það er kosið um áframhald af því sama eða breytingar. Breytingar eru nauðsynlegar fyrir almannahagsmuni og fyrir framtíðina. Viðreisn hefur á fimm ára sögu sýnt í verki að við setjum almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Við leggjum ekki til skattahækkanir núna og erum ábyrg í efnahagsmálum. Við eigum að þora að veðja á framtíðina og sækja fram þar sem hægt er að gera betur. Þess vegna á að styðja Viðreisn.