03 des Samráðið er raunverulegt
Skipulags- og samgönguráð samþykkti nýlega nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í hverfisskipulagi er stefnan fyrir hverfið hugsuð í heild sinni og gefnar eru út skýrar leiðbeiningar um hvað hver og einn má gera við sína eign.
Hverfisskipulagið er afrakstur margra ára samráðs. Haldnir hafa verið fundir með nemendum, samráðsfundir með íbúum, rýnifundir með fólki á ólíkum aldri, tillögurnar hafa verið til sýnis á fjölförnum stöðum, hverfisgöngur farnar um hverfið og tekið við skriflegum athugasemdum íbúa á ólíkum stigum málsins.
„En skiptir þetta nokkru máli?” spyr fólk gjarnan. Gæti verið að það sé búið að ákveða allt hvort sem er og allt samráðið sé bara sjónarspil? Þessi gagnrýni er lífseig. En þegar þróun hverfisskipulags er skoðuð frá upphafi til enda sést að samráðið er raunverulegt. Það er hlustað.
Fyrsti fasi hverfaskipulagsins í Breiðholti var árið 2016 og sá síðari árið 2020. Ýmsar hugmyndir hafa settar hafa fram við vinnslu skipulagsins. Skoðum hvaða viðtökur þær hlutu og hvernig unnið var úr þeim:
Hugmyndir sem hætt var við
Jaðarsel-Jöklasel
Settar voru fram hugmyndir um lítil fjölbýlishús meðfram Jaðarseli við Jöklasel. Þessar hugmyndir mæltust ágætlega fyrir í rýnihópum 2016 en fleiri efasemdir heyrðust í kjölfarið. Ákveðið var í staðinn að skilgreina svæðið undir borgarbúskap.
Stapasel-Holtasel
Settar voru fram hugmyndir um að byggja raðhús á óbyggðu svæði milli Stapasels og Holtasels. Þessar hugmyndir mættu andstöðu í rýnihópum og var í kjölfarið hætt við þær.
Breiðholtsbraut
Settar voru fram hugmyndir um að reisa skrifstofu- og atvinnuhúsnæði meðfram Breiðholtsbraut, milli Bakka og Seljahverfis. Skiptar skoðanir voru um hugmyndina og var hún ekki tekin lengra.
Blöndubakki og Ferjubakki
Sett var fram hugmyndir um að þétta byggð í Blöndubakka í Neðra-Breiðholti. Þeim var upprunalega ágætlega tekið í rýnihópum en meiri efasemdir vöknuðu á síðari stigum og var ákveðið að hætta við þessi þéttingaráform. Svipaðar hugmyndir voru við Ferjubakka en niðurstaðan varð sú sama og ákveðið var að halda svæðinu sem opnu svæði.
Stekkjarbakki
Settar voru fram hugmyndir um að reisa sérbýlishúsaröð neðan við núverandi byggð í Stekkjunum. Þeim var ágætlega tekið í rýnihópum en mættu mótstöðu íbúa á síðari stigum og það var hætt við þessi áform.
Bakkahverfi – ofanábyggingar
Líkt og víða annars staðar í hverfisskipulaginu var gert ráð fyrir heimildum til að bæta við lyftu og aukahæð á blokkirnar í Bökkunum, neðra Breiðholti. Margir voru hins vegar á þeirri skoðun að þær mynduðu mjög merkilega byggingarsögulega heild sem þyrfti að varðveita. Það var því sett hverfisvernd á þennan hverfahluta og heimildirnar til ofanábygginga felldar út.
Norðurfell
Í upphafi vinnunnar voru kynntar hugmyndir um uppbyggingu rað- og parhúsa við Norðurfell, neðan við Æsufell. Tillögurnar fengu ekki góðar viðtökur í rýnihópum og voru í kjölfarið var slegnar út af borðinu.
Stórbílastæði
Gert hafði verið ráð fyrir að stórbílastæði, meðal annars við Arnarbakka, myndu víkja. Gerðar voru athugasemdir við þetta af hálfu notenda og munu stæðin halda sér.
Bakkatún
Almennt var tekið vel í þær hugmyndir að lífga upp á kjarnann við Arnarbakka. Hins vegar höfðu margir áhyggjur af byggingarmagni og sérstök andstaða var við að byggja inn á Bakkatúnið. Tekið var tillit til þessara sjónarmiða, byggingarmagn minnkað, gróðurhús fyrir borgarbúskap sett inn og hætt við áform um byggingu félags- og danshúss á Bakkatúni.
Hugmyndir sem var haldið í
Hverfiskjarnar
Almennt voru íbúar fremur jákvæðir í garð þess að þétta og efla eldri hverfiskjarna. Skipulagsvinnu við áðurnefndan kjarna Við Arnarbakka og við Völvufell er nú þegar lokið en sú vinna kláraðist samhliða hverfisskipulaginu.
Aðrir eldri hverfiskjarnar, Hólagarður, svæðið við Jórufell, Rangársel og Tindasel eru merktir sem þróunarreitir og verður unnið sérstakt deiliskipulag fyrir þá.
Sérbýli við Suðurfell
Kynntar voru hugmyndir um lágreist sérbýlishúsabyggð á þróunarsvæði austur af Suðurfelli. Ekki var eining um þessar hugmyndir meðal íbúa en jákvæðu raddirnar þó ívið fleiri. Þetta svæði er því áfram þróunarsvæði og þar gert ráð fyrir byggð.
Austurberg og Gerðuberg
Almennt var hugmyndum um að þétta og styrkja byggð við Austurberg vel tekið. Þegar Austurbergið borgargata með borgarlínu mun hún ásamt Gerðubergi mynda sannkallaðan miðbæ Breiðholts.
Mjódd og Vetrargarður
Í samráðsferlinu minntust margir á að bæta mætti umhverfi Mjóddar. Farið verður í heildstæða vinnu við skipulag Mjóddarinnar strax á næsta ári.
Loks var hugmyndum um Vetrargarð vel tekið og er hann því kominn inn á skipulag.
Litið um öxl
Umræður um óvinsælar hugmyndir sem blásnar eru af gleymast gjarnan fljótt. Sama gildir um umræður um vinsælar hugmyndir koma til framkvæmdar. Eðlilega man fólk mest eftir umræðum um umdeild mál, og mál þar sem skoðanir eru skiptar. Það skapar kannski þá upplifun að öll mál séu umdeild og lítið sé hlustað. En það er auðvitað ekki alveg rétt.
Þegar þróun hverfisskipulags Breiðholts er skoðuð aftur í tímann sést vel hvernig unnið var áfram með þær hugmyndir sem góður rómur var gerður að en öðrum hugmyndum slaufað. Uppskeran er góð. Það mikla samráðsferli sem átti sér stað við gerð skipulags Breiðholts var ekki sýndarsamráð. Þvert á móti hafði samráðið mjög mikil áhrif á lokaniðurstöðuna. Til þess var samráðið, jú, hugsað.
Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3 desember 2021