Stórslys í boði stjórnvalda

Við þekkj­um öll orðatil­tækið um að slys­in geri ekki boð á und­ir sér. En þau gera það sann­ar­lega stund­um. Það á til dæm­is við um slysið sem varð á dög­un­um þegar Alþingi fékk til um­fjöll­un­ar fisk­eld­is­frum­varp mat­vælaráðherra. Frum­varp­inu er ætlað að skapa at­vinnu­grein­inni skil­yrði til auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar með sjálf­bæra nýt­ingu og vist­kerf­is­nálg­un að leiðarljósi svo vitnað sér í grein­ar­gerð frum­varps­ins sem er nú komið til meðferðar hjá at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is. Það er gríðarlega mik­il­vægt að vel tak­ist til í vinnu nefnd­ar­inn­ar. Hér er um að ræða mik­il­væga at­vinnu­grein sem get­ur haft mik­il og já­kvæð áhrif á at­vinnu­tæki­færi á lands­byggðinni en að sama skapi nei­kvæð langvar­andi um­hverf­isáhrif ef við vönd­um ekki til verka. Okk­ur er öll­um hollt að hafa hér í huga þann al­var­lega áfell­is­dóm sem Rík­is­end­ur­skoðun felldi yfir stjórn­sýslu mála­flokks­ins í út­tekt sinni í fyrra.

Hvað var það svo sem vakti mesta at­hygli – og það með réttu – þegar mat­vælaráðherra kynnti þetta mik­il­væga mál sitt? Jú, í 33. grein frum­varps­ins er það ný­mæli að rekstr­ar­leyfi í sjókvía­eldi verði ótíma­bund­in; að fisk­eld­is­fyr­ir­tæk­in fái firðina okk­ar af­henta und­ir starf­semi sína um ald­ur og ævi. Þessi gjöf datt sann­ar­lega ekki óvænt af himn­um ofan. Hún kom frá mat­vælaráðherra inn á borð þing­flokka Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks sem all­ir lögðu bless­un sína yfir hana áður en frum­varpið fór til fyrstu umræðu í þingsal. Þetta mætti kalla að gera boð á und­an sér.

Í kjöl­far fjöl­miðlaum­ræðu og kröft­ugra mót­mæla frá stjórn­ar­and­stöðunni fór bolt­inn að rúlla og al­menn­ing­ur reis upp. Það er ánægju­legt að marg­ir stjórn­arþing­menn brugðust hratt og vel við og viður­kenndu jafn­vel að hafa sofið á verðinum. Í at­vinnu­vega­nefnd var ein­hug­ur um að kalla eft­ir minn­is­blaði frá ráðherra um hvernig hægt væri að breyta um­ræddri 33. grein á þann veg að rekstr­ar­leyf­in yrðu tíma­bund­in. Skila­boð nefnd­ar­inn­ar voru þannig skýr og ég er vongóð um að þar ná­ist samstaða um að af­stýra slys­inu. Þingið verður ein­fald­lega að standa með þjóðinni hér!

Meiri­hluti Alþing­is gæti hins veg­ar ákveðið að gæta ekki hags­muna al­menn­ings hér held­ur mynda varðstöðu um allt aðra hags­muni. Er ekki kom­inn tími til að tryggja að slíkt ger­ist ekki þegar kem­ur að nýt­ingu nátt­úru­auðlinda þjóðar­inn­ar? Þetta slys er skýr skila­boð til okk­ar um að taka okk­ur taki og setja auðlinda­ákvæði í stjórn­ar­skrána með ótví­ræðri tíma­bind­ingu sem trygg­ir þjóðinni for­ræði yfir auðlind­um sín­um. Leiðarljósið á að vera verðmæta­sköp­un í þágu þjóðar­inn­ar en ekki hliðrun verðmæta frá al­menn­ingi í þágu sér­hags­muna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí