28 nóv Breytum þessu
Við stöndum nú á tímamótum. Alþingiskosningarnar þann 30. nóvember 2024 munu marka stefnuna fyrir framtíð landsins og þar býður Viðreisn upp á skýra, raunhæfa og framsækna stefnu fyrir samfélag þar sem frelsi, jöfnuður og ábyrg hagstjórn eru í fyrirrúmi.
Nú er kominn tími til að taka á helstu áskorunum okkar með alvöru lausnum. Það er kominn tími til að breyta.
Alvöru hagstjórn til að ná niður verðbólgu
Verðbólga hefur leikið íslenskan almenning grátt síðustu misseri. Hún étur upp kaupmátt og veldur óstöðugleika í efnahagslífi heimilanna og fyrirtækja með háum vöxtum sem eru fylgikvilli verðbólgunnar.
Viðreisn leggur áherslu á stöðugleika. Með ábyrgri hagstjórn getum við dregið úr verðbólgu og tryggt jafnvægi í efnahagslífinu. Við viljum lækka verðbólgu og vexti, greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði ríkisins með því að leggja áherslu á að fara betur með opinbert fé með því að fækka stofnunum og verkefnum þeirra.
Líðan barna og ungmenna í forgang
Félagsleg staða barna og ungmenna hefur versnað á undanförnum árum, og margar fjölskyldur glíma við erfiðleika. Viðreisn vill auka aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum, styðja betur við fjölskyldur og tryggja að börn fái að njóta öryggis og stuðnings sem þau þurfa til að blómstra.
Mikilvægasta verkefni hvers samfélags er að tryggja velferð næstu kynslóðar.
Lausnir í húsnæðismálum
Viðreisn vill stuðla að raunverulegum lausnum í húsnæðismálum sem hjálpa ungu fólki og fjölskyldum að koma sér þaki yfir höfuðið. Við viljum framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað sem innborgun á húsnæðislán, losa ríkisjarðir fyrir húsnæðisuppbyggingu og einfalda reglugerðir til að flýta byggingu og lækka kostnað.
Stöndum vörð um frelsi einstaklingsins
Frelsi einstaklingsins gagnvart ríkinu er grunnstoð í stefnu Viðreisnar. Frelsi til þess að elska og lifa lífinu án afskipta hins opinbera, frelsi kvenna til að ráða yfir sínum líkama, atvinnufrelsi og frelsi til að vera eins og hver og einn kýs eru okkar leiðarljós.
Ríkið á ekki að skipta sér af því hvað við skírum börnin okkar eða hvern við elskum. Við viljum samfélag þar sem einstaklingar fá að njóta sín og hafa val um hvernig þeir lifa lífi sínu, án óþarfa inngripa ríkisins.
Kosningarnar 30. nóvember eru tækifæri til að velja stefnu sem skilar raunverulegum breytingum. Við í Viðreisn trúum því að saman getum við gert Ísland að landi þar sem lífsgæði, réttlæti og framtíðarsýn eru í fyrirrúmi. Nú er tíminn til að breyta með því að kjósa Viðreisn.