Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.

 

Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem kjósa að taka þátt í þessu samstarfi. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og  efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.´
 

Tökum virkan þátt í vestrænu samstarfi

Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Aukinni hnattvæðingu fylgja áskoranir sem taka skal alvarlega. Samstarf ríkja er forsenda þess að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki fari á svig við lög og reglur í skjóli alþjóðlegrar starfsemi. Ísland á að vera virkur þátttakandi í því starfi.

 

Viðreisn vill að Ísland nýti EES samninginn til fulls. Schengen samstarfið er órjúfanlegur þáttur í þeirri vinnu. Efla þarf stuðning og net viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar til að fylgja eftir vexti útflutningstekna á víðu sviði útflutningsgreina. Viðreisn vill skoða hvort hægt sé að gera samninga um niðurfellingar tolla á fullunnum sjávarafurðum. Slíkur samningur myndi skapa aukinn grundvöll fyrir ný tækifæri og nýsköpun.

 

Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast varnir gegn hryðjuverkum, innra öryggi og landamæraeftirlit, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Að því er varðar öryggi landsins þarf ekki síst að gæta að netöryggi enda hefur komið í ljós að flest ríki hafa staðið berskjölduð gagnvart netárásum. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi lýðræðisríkja í baráttunni gegn netárásum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum.

 

Ísland á að efla þátttöku sína í norrænu samstarfi og nýta samstöðu þjóða til að efla rödd okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst með hliðsjón af markmiði flokksins um að ganga í Evrópusambandið. Sameinuð rödd Norðurlanda á þeim vettvangi yrði öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi. Viðreisn vill skoða hvort vilji sé fyrir að veita Skotlandi og Eystrasaltsríkjunum aðild að norrænu samstarfi í ljósi sameiginlegrar menningar, sögu og hagsmuna.
 

Ísland á að hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða. Stuðla þarf að áframhaldandi  samtali um áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Beina þarf sjónum að heilbrigði hafsins og hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Efla þarf Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og styðja rækilega við alþjóðlegt vísindasamstarf um málefni svæðisins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

 

Ísland á að setja fordæmi í málefnum flóttamanna

Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi.
 

Innleiðum femíníska utanríkisstefnu

Viðreisn vill að Ísland innleiði formlega feminíska utanríkisstefnu að fordæmi Svíþjóðar, Kanada og annarra ríkja og jafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum störfum utanríkisþjónustunnar. Þar sem alþjóðlegt bakslag hefur orðið í jafnréttismálum á síðustu árum er mikil þörf á að þeim sé haldið vel á lofti í alþjóðlegu samhengi. Ísland hefur hingað til verið öflugur málsvari jafnréttis kynja á alþjóðavettvangi og horft er til Íslands í jafnréttismálum. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og sé ávallt á varðbergi fyrir þeim nýju áskorunum sem upp koma.  Innleiðing femínískrar utanríkisstefnu myndi styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sem leiðandi afl í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu og hafa góð áhrif á störf utanríkisþjónustunnar á þann hátt að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum, stórum og smáum. Einnig verði áfram lögð sérstök áhersla á valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi, en það hefur sýnt sig að valdefling kvenna er ein árangursríkasta aðferð þróunarsamvinnu.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti.

Lestu stefnu Viðreisnar í jafnréttismálum hér

 

Loftslagsáherslur í forgrunni allrar ákvarðantöku

Við eigum að uppfylla allar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og setja okkur metnaðarfyllri mælanleg markmið. Stjórnvöld leggi árlega fram aðgerðaáætlun og uppfærð loftslagsmarkmið sem byggja á samþykktri loftslagsstefnu og alþjóðlegum skuldbindingum. Þar skulu sett fram tölu- og tímasett markmið. Aðgerðaáætlun skuli sett fram til næstu fimm ára hið skemmsta og skal umhverfisráðherra leggja hana fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar fyrir 1. nóvember ár hvert. Loftslagsráðs verði eflt, hlutverk þess skýrt og því falið að leggja hlutlægt mat á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

 

Tengja þarf loftslagsmálin þvert á fagráðuneyti svo þau endurspeglist í ákvörðunum í öllum málaflokkum. Áhersla verði lögð á að laga stjórnsýsluna að mikilvægi málaflokksins með því að meta loftslagsáhrif frumvarpa og samþætta og bæta samráð stjórnsýslu í loftslagsmálum með auknu samstarfi jafnt innanlands og erlendis. Þá þarf að auka framboð loftslagsvænni matvæla innan opinberra stofnana enda hið opinbera vel til þess fallið að vera neytendum fyrirmynd í umhverfisvænni neyslu.

 

Ísland þarf að taka ábyrgð á afleiðingum loftslagsbreytinga. Þetta verði m.a. gert með því að auka rannsóknir á aðlögun og öryggi vegna hættu sem skapast vegna loftslagsbreytinga hérlendis. Afleiðingar loftslagsbreytinga víða um heim hafa skapað hörmulegar aðstæður. Fjöldi fólks er á flótta af þeim völdum. Ísland þarf að axla ábyrgð í þeim málum og ætti að taka á móti fleira kvótaflóttafólki sem er á flótta vegna loftslagsbreytinga og þeim sem leita eftir alþjóðlegri vernd á þeim forsendum.

 

Náttúruvernd í öndvegi

Leggja þarf áherslu á alþjóðasamstarf um náttúruvernd t.d. með samningum á borð við Samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika, norrænt samstarf og evrópsk samstarfsverkefni. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á vernd lífríkis og líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum. Efla þarf möguleika ungs fólks á að taka þátt í stefnumótun og ákvörðunum tengdum náttúruvernd og samþættingu verndar og sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, m.a. með uppbyggingu alþjóðlegra atvinnugreina

Lykill að bættum lífskjörum á Íslandi er aukin alþjóðleg samvinna, aukið frelsi í viðskiptum og stöðugt efnahagslíf. Framtíðarvöxtur atvinnulífs þarf að verða í vel launuðum alþjóðlegum þekkingar- og tæknigreinum til að unnt sé að auka framleiðni, verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör.

 

Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað.
 
Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla  útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

 

Aðild að ESB og upptaka evru er því eitt mikilvægasta og stærsta verkefni á sviði efnahags- sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, sem myndi auka sjálfstæði, fullveldi, bæta kaupmátt og lífskjör almennings umtalsvert og varanlega í öllum byggðum landsins.

 

Hagstjórn og fjármálastjórn sem treystir stöðugleika og kjör almennings

Viðreisn leggur til að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Slíkur tvíhliða samningur við Evrópusambandið yrði grunnur að fyrirkomulagi sem yrði hliðstætt gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana, sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

 

Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu þar sem allir bera réttlátar byrðar. Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum, bæði innanlands og gegn notkun á erlendum skattaskjólum. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðalegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.

Lestu stefnu Viðreisnar í efnahagsmálum hér

 

Fjölbreytni og alþjóðasamstarf

Við vinnum að jafnrétti og gegn hvers kyns fordómum og ofbeldi. Við styðjum fjölbreytni mannlífs, vinnum að því að móta jákvæð viðhorf til fjölmenningar og til þess byggja brýr milli menningarheima. Þjónusta sveitarfélaga taki mið af fjölbreyttum bakgrunni íbúa. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á ensku og fleiri tungumálum. Stutt er við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Störf á vegum sveitarfélaga skulu standa öllum til boða og unnið gegn óeðlilegum hindrunum á vinnumarkaði. Við styðjum virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólks.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnarmálum hér

 

 

Alþjóðleg samvinna

Viðreisn er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur. Hann byggir stefnu sína og störf á jafnrétti og hugmyndafræði frjálslyndis. Grunnstefna Viðreisnar byggist á fjórum hornsteinum: Frjálslyndi og jafnrétti, réttlátu samfélagi, efnahagslegu jafnvægi og alþjóðlegri samvinnu.
 

Þjóðir heims verða að vinna saman að því að leysa mörg viðfangsefni er varða alla jarðarbúa. Ísland á að vera virkt í alþjóðasamfélaginu og stuðla að friðsamlegri samvinnu og auknum viðskiptum milli landa. Vestræn samvinna hefur aukið hagsæld þjóðarinnar og er forsenda sterkrar samkeppnishæfni Íslands. Evrópusambandið er réttur vettvangur fyrir frjálslynt Ísland.

  • Samvinna við aðrar þjóðir er Íslendingum nauðsyn. Við eigum að taka eins virkan þátt í samstarfi þjóða og framast er kostur. Sérhagsmunir eiga ávallt að víkja fyrir almannahagsmunum í slíkri samvinnu.
  • Samvinna við önnur ríki á Norðurlöndum, samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildin að NATO og þátttaka Íslands í Sameinuðu þjóðunum hefur reynst farsæl fyrir Ísland.
  • Full aðild að Evrópusambandinu stuðlar að aukinni hagsæld á Íslandi.
  • Samvinna þjóða tryggir og ver mannréttindi, stuðlar að friði, er nauðsynleg til að taka á umhverfismálum, bætir vernd neytenda og tryggir betur réttindi launafólks.
  • Mikilvægt er að Ísland taki loftslagsmál föstum tökum og sé virkt í alþjóðlegu samstarfi um lausnir á þeim vanda.
  • Ísland á að sýna metnað í alþjóðlegu hjálparstarfi, þróunarhjálp og móttöku flóttamanna.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér