Menntun fyrir öll – alla ævi

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.

 

Aukið val og margþættir náms- og kennsluhættir gerir nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái sín notið og vaxið. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og fjölga námsframboði á efri skólastigum.

 

Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni.

 

Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánkerfi námslána. Stefna ætti að blönduðu styrkja- og lánakerfi, þar sem námsmenn hafi þó kost á að nýta aðeins styrkinn, án þess að taka lán. Viðreisn vill afnema frítekjumark námslána MSNM ásamt því að grunnframfærsla sé í samræmi við neysluviðmið Félagsmálaráðuneytisins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, skulu eiga kost á námslánum.

 

Framúrskarandi starfsumhverfi menntastofnana leiðir til öflugs faglegs starfs

Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Leggja skal áherslu á starfsþróun, markvissa faglega endurgjöf, tæknivætt starfsumhverfi og samþætta stoðþjónustu. Sérstaklega skal veita kennurum tækifæri til að þróa getu sína til að miðla þekkingu á stafrænni tækni. Leggja skal áherslu á þverfaglegt samstarf innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum í fjölmenningarlegu skólaumhverfi.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Ísland á að hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða. Stuðla þarf að áframhaldandi  samtali um áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Beina þarf sjónum að heilbrigði hafsins og hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Efla þarf Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og styðja rækilega við alþjóðlegt vísindasamstarf um málefni svæðisins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Loftslagsmál

Ísland þarf að taka ábyrgð á afleiðingum loftslagsbreytinga. Þetta verði m.a. gert með því að auka rannsóknir á aðlögun og öryggi vegna hættu sem skapast vegna loftslagsbreytinga hérlendis.

 

Sjálfbær nýting auðlinda

Draga þarf almennt úr losun frá landi og stórauka bindingu í jarðvegi og gróðri. Takmarka þarf rask á vistkerfum vegna ágengra tegunda og samhliða vernda og efla líffræðilega fjölbreytni með stóraukinni endurheimt raskaðra vistkerfa. Ásamt því að auka rannsóknir á áhrifum landgræðslu og skógræktar á líffræðilega fjölbreytni.

 

Náttúruvernd í öndvegi

Tryggja þarf fjármuni til rekstrar, verndar og landvörslu friðaðra svæða þannig að ágangur rýri ekki gildi svæðanna og að kynslóðir framtíðar fái notið heillandi fegurðar og heilnæmrar útivistar. Möguleg gjaldtaka verður að vera í góðri sátt við almenning og sveitarfélög. Jafnframt verði leitast við að styrkja byggð í nágrenni þjóðgarða og skapa atvinnu og aðstæður, í náinni samvinnu við sveitarfélög, fyrir fjölbreyttar rannsóknir.

Lestu umhverfisstefnu Viðreisnar hér