Þjónusta við fólk verði í öndvegi skipulags heilbrigðis- og velferðarmála, ekki form rekstrarins, sem standa á öllum til boða óháð efnahag. Kostnaðargreining verði grundvöllur fjárveitinga til allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Einfalda og samþætta þarf kerfið þannig að það sé skiljanlegt og aðgengilegt fyrir alla. Öflugt og sveigjanlegt almannatryggingakerfi er forsenda lífsgæða og velferðar.

 

Þjónusta fyrir alla óháð rekstrarformi

Nauðsynlegt er að draga úr bráðavanda og biðlistum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Börn eiga ekki að bíða eftir nauðsynlegri greiningu eða þjónustu. Samþætting og einstaklingsmiðuð nálgun á milli kerfa er lykilatriði.

Kerfi fyrir fólk – ekki öfugt

Viðreisn leggur áherslu á að fólk eigi gott líf og þau kerfi sem eiga að halda utan um það verði einfaldari og sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og skerðingum hætt.

 

Búum eldra fólki áhyggjulaust ævikvöld. Framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum verður að vera í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Koma þarf á millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimila og tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk. Viðreisn leggur áherslu á að starfslok miðist við færni fremur en aldur. Samhæfa þarf stuðning ríkis- og sveitarfélaga.

 

Tryggjum öryrkjum mannsæmandi lífskjör. Sköpum samfélag sem byggir á þátttöku allra og virðum frelsi fólks til að stjórna eigin lífi. Styðjum fólk með skerta starfsgetu til starfa með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu.

 

Virðum réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður  að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum. Hið opinbera á að vera leiðandi í sköpun hlutastarfa fyrir fatlað fólk. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Viðreisn leggur áherslu á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Heilsuefling og forvarnir í forgrunni

Forvirkar aðgerðir og forvarnir eiga að vera leiðarstef í skipulagi ríkisins í heilbrigðis- og velferðarmálum. Með öflugri forvarnarstefnu tryggjum við betri líðan og minna langtímaálag á heilbrigðis- og velferðarkerfin. Samhliða afglæpavæðingu fíkniefna þarf að efla forvarnir og fræðslu. Góð lýðheilsa, upplýst samtal og aðgengi að virkum úrræðum er forsenda góðra lífsgæða í íslensku samfélagi.

 

Heilsuefling þarf að vera hluti af samfélaginu öllu til að koma í veg fyrir veikindi, bæði andleg og líkamleg. Fræðsla um mataræði, hreyfingu, andlega vellíðan og snemmtæk íhlutun  eiga að vera hluti af námi barna. Tryggja þarf aðgengi að fræðslu og heilsueflandi úrræðum handa öllum út æviskeiðið.

Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér

 

Framúrskarandi starfsumhverfi menntastofnana leiðir til öflugs faglegs starfs

Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Leggja skal áherslu á starfsþróun, markvissa faglega endurgjöf, tæknivætt starfsumhverfi og samþætta stoðþjónustu. Sérstaklega skal veita kennurum tækifæri til að þróa getu sína til að miðla þekkingu á stafrænni tækni. Leggja skal áherslu á þverfaglegt samstarf innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum í fjölmenningarlegu skólaumhverfi.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Velferð í heimabyggð

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa. Tryggja þarf að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna og styrkja almennt tekjugrunn sveitarfélaganna. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni. Fólk á að hafa raunhæft val um hvar það býr sér heimili án þess að vera mismunað eftir búsetu. Með aukinni hlutdeild sveitarfélaga í þjónustu við íbúa er valdi hins opinbera dreift enn frekar um landið og það fært nær íbúum.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Velferð

Velferð allra íbúa er grunnur að góðu samfélagi. Við styðjum sjálfstæði og sjálfsvirðingu einstaklinga og styðjum þá til virkni. Gera þarf fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er. Í samstarfi við ríkið þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa. Við leggjum áherslu á forvarnir og barnvæn sveitarfélög. Fræðslu- og velferðaryfirvöld eiga að starfa saman með þarfir barna að leiðarljósi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnarmálum hér

 

Allir skulu hafa rétt til heilbrigðisþjónustu, menntunar og félagslegrar þjónustu.

Efnahagslegum stöðugleika verður ekki viðhaldið án félagslegs stöðugleika. Tryggja þarf jöfnuð, jöfn tækifæri og félagslegan hreyfanleika.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér