Aukið viðskiptafrelsi, markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar. Þannig má koma framleiðni á Íslandi í fremstu röð. Markaðslausnir verði nýttar þar sem þeim verður við komið.
Lykill að bættum lífskjörum á Íslandi er aukin alþjóðleg samvinna, aukið frelsi í viðskiptum og stöðugt efnahagslíf. Framtíðarvöxtur atvinnulífs þarf að verða í vel launuðum alþjóðlegum þekkingar- og tæknigreinum til að unnt sé að auka framleiðni, verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör.
Viðskipta- og atvinnufrelsi þarf að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt viðskiptaumhverfi, með stöðugan gjaldmiðil, til að tryggja samkeppnishæfni, verðmætasköpun og hagvöxt. Með því móti verður til nýsköpun og þróttmikið atvinnulíf sem skapar ný og fjölbreytt störf. Einhæfni í atvinnulífi skapar hættu á sveiflum og gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áföllum. Margs konar tækifæri eru til nýsköpunar á Íslandi. Stuðla þarf að því að þau verði gripin. Stöðugleiki skiptir þar mestu máli, en einnig stuðningur við nýsköpun með styrkjum og hvötum til fjárfestinga í nýsköpun.
Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.
Markaðir er það fyrirkomulag sem við notum við að tryggja hagkvæma framleiðslu stærsta hluta þess sem framleitt er, öllum til hagsbóta. Þung rök þurfa að vera til staðar ef víkja á frá þessari meginreglu. Viðreisn berst gegn kreddum og hagsmunagæslu sem vill draga úr hlutverki markaðslausna. Einfalda skal rekstrarumhverfi fyrirtækja og auka samkeppni og fjölbreytni eins og kostur er. Miklu hagræði má ná í opinberri þjónustu með auknum útboðum verkefna, einkarekstri og markaðslausnum, þó að opinberir aðilar kosti þjónustuna.
Lestu efnahagstefnu Viðreisnar hér
Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Auka má vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tolla og með aðild að Evrópusambandinu. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar markaða og upplýsingum til neytenda. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, þar með talið áfengismarkaði, eða að vörudreifingu. Bændur geti selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera. Auka skal gegnsæi í fasteignaviðskiptum með ástandsskoðun fasteigna og seljendatryggingu.
Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér
Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.
Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem kjósa að taka þátt í þessu samstarfi. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.
Viðreisn vill að Ísland nýti EES samninginn til fulls. Schengen samstarfið er órjúfanlegur þáttur í þeirri vinnu. Efla þarf stuðning og net viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar til að fylgja eftir vexti útflutningstekna á víðu sviði útflutningsgreina. Viðreisn vill skoða hvort hægt sé að gera samninga um niðurfellingar tolla á fullunnum sjávarafurðum. Slíkur samningur myndi skapa aukinn grundvöll fyrir ný tækifæri og nýsköpun.
Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér