Vegið að lýðræðinu

Samvinna, samhugur og samstaða eru orð sem hafa verið okkur hugleikin síðustu mánuði. Enda hefur komið í ljós hversu mikilvægt það er fyrir heimsbyggðina að standa saman á meðan að COVID-19 veiran þeysist yfir hvert landið á fætur öðru. Flestum er nú ljóst að samvinna og samstaða þvert yfir landamæri, menningarheima og stjórnmálaskoðanir er mikilvægari en áður til að vinna bug á þessari meinsemd.

Það leið þó ekki á löngu þar til að það fór að kræla á pólitískum tækifærissinnum víða um heim sem vildu nýta sér aðstæður sér í hag og koma hugmyndum sínum á dagskrá. Hafa sumir gengið svo langt að ætla að skerða borgaraleg réttindi, eingöngu vegna þess að það hefur reynst hægt við þessar aðstæður.

Birtingarmyndir þessara tækifærismennku eru nokkrar. Allt frá því að vera nokkuð áhrifalitlir sjálfskipaðir sérfræðingar í sínum heimalöndum, fjölmiðlar sem miðla falsfréttum í pólitískum tilgangi yfir í áhrifamikla þjóðarleiðtoga sem hafa nýtt viðkvæma stöðu heimsbyggðarinnar til að traðka á þeim lýðræðislegu gildum sem opin vestræn samfélög hafa byggt á. Slíkra tilburða til valdboðsstjórnmála verður nú vart meðal annars í Ungverjalandi, Serbíu, Svartfjallalandi og Póllandi þar sem forsetar hafa boðið lýðræðinu birginn, kannski í skjóli þess að stórveldin tvö, Bandaríkin og Rússland hafa fetað sig inn á þessa slóð, nokkuð átölulaust.

Gegn grundvallarstoðum

Grundvallarstoðir vestrænna gilda eru lýðræði, réttarríki, frelsi og mannréttindi. Evrópusamvinnan gengur beinlínis út á samheldni og samfélagslega ábyrgð. Evrópusambandið er stofnað um frið í álfunni og Atlantshafsbandalagið er byggt á sama grunni vestræns samstarfs. Norðurlöndin hafa ætíð unnið þétt saman og hefur Norðurlandasamstarfið ítrekað sannað gildi sitt. Þær aðstæður sem nú eru uppi hafa enn frekar sýnt okkur fram á mikilvægi þess að þjóðir heims tali saman. Mikilvægi þess að rödd Íslands og annarra vestrænna þjóða heyrist hefur því sjaldan verið meira en nú.

Önnur evrópsk ríki hafa því miður sum hver fetað þá braut að vega að okkar evrópsku grundvallarstoðum og grundvallargildum. Nú gerist það svo að Morgunblaðið heldur inn á þessar sömu slóðir með því að grafa undan alþjóðastofnunum og setja sig í stellingar sem klappstýra stjórnmálaleiðtoga á borð við Orbán og Trump. Í blaðinu er nú hæðst að utanríkisráðherra fyrir að standa vörð um vestræn gildi í félagi við utanríkisráðherra Norðurlandaþjóðanna. Morgunblaðið segir þeim að sitja hjá þegar vegið er að lýðræði í álfunni.  Þetta eru kaldar kveðjur úr Hádegismóum, frá dagblaði sem eitt sinn var kjölfesta í íslenskum utanríkismálum og lykilstoð í umræðu um frelsi, mannréttindi, lýðræði og vestræna samvinnu.

Alþjóðasamvinna aldrei mikilvægari

Alheimskreppan sem nú er tilkomin vegna COVID-19 verður ekki leyst með múrum og einangrun. Hún verður heldur ekki leyst með því að ala á sundrung, tortryggni og ótta. Hún verður þvert á móti leyst með samvinnu og samtali þjóða. Með því að tengja saman vísindafólk, vinna bug á falsfréttum og með því að byggja á upplýstri umræðu. Hið sama á við um loftslagsvánna sem vofir yfir okkur öllum, þar er alþjóðasamvinnan knýjandi svo hægt verði að ná markmiðum um grænna samfélag og kolefnishlutleysi. Betri og bjartari framtíð.

Viðreisn óttast ekki að segja upphátt að markvisst samstarf og samvinna þjóða er grundvallaratriði til að auka lífsgæði fólks, hagsæld og framþróun. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að spyrna gegn því að einstaklingar, stjórnmálaflokkar og þjóðarleiðtogar sem og fjölmiðlar, fái svigrúm til að vega að sjálfsögðum mannréttindum, upplýsingafrelsi, sjálfstæði dómstóla og lýðræði. Þar er engin rödd of veik eða land of lítið til að hafa áhrif á framgang lýðræðis. Það sýnir sagan, það er hlutverk sem við tökum alvarlega og ber að taka alvarlega.  Þess vegna munum við benda á það og andmæla í hvert sinn sem menn stíga fram sem vilja setja lýðræðið í sóttkví og alþjóðasamstarf á ís. Á það geta landsmenn stólað.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. maí 2020