Fortíðaruppbygging í Hraununum

Meirihluti skipulags og byggingarráðs Hafnarfjarðar birti grein í síðasta tölublað Hafnfirðings þar sem þau fjölluðu um fyrirhugað skipulag við Hraunin sem þau telja allt í senn: (1) í takt við fyrirliggjandi rammaskipulagsvinnu, (2) ábyrgt og (3) gæðaskipulag. Meirihlutinn hefur í greinaskrifum sínum stillt málum upp á þann hátt í Hafnarfirði að það sé einungis ein leið möguleg til þess að fylgja hugmyndafræði svæðisskipulags Höfuðborgarsvæðisins, og hún sé að byggja upp samkvæmt fyrirliggjandi skipulagstillögu í Hraunum.

Þessu erum við ósammála.

Fulltrúar Viðreisnar hafa lengi talað gegn þessum tillögum sem við teljum að víki allt of mikið frá fyrirliggjandi rammaskipulagsvinnu þannig að gæði byggðar hafa verið stórminnkuð á kostnað Hafnfirðinga.

Skipulag í engu samræmi við rammaskipulag

Skoðum fyrst orð meirihlutans um að hér sé um að ræða skipulag sem er í takt við rammaskipulagvinnu. Á hjálagðri mynd má sjá súlurit sem ber saman fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu við sama reit í rammaskipulagi bæjarins. Það sér það hver maður að hér er um gríðarlega ofkeyrslu á byggingarmagni og bílastæðum að ræða. Orð meirihlutans um að bláa súlan og appelsínugula súlan séu í raun jafnstórar verða ekkert sannari þó þau endurtaki það aftur og aftur.

Ábyrg vinnubrögð?

Förum þá í næstu rök meirihlutans, að þau séu ábyrg.

Á síðasta kjörtímabili var ákveðið að hefja vinnu við umbreytingu Hraunanna í Hafnarfirði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi í vestri, Reykjanesbraut í austri og Flatahrauni í suðri. Framan af var fagmennska í fyrirrúmi í vinnunni. Haldin var samkeppni á meðal arkitektastofa um hugmyndir að þróun reitsins. Úr þeirri samkeppni voru tvær stofur valdar til þess að þróa skipulagið, ein stofa var valin af bænum og ein stofa var valin af fasteignaeigendum á svæðinu. Þetta var gert í anda samstarfs um uppbygginguna.

Úr þeirri vinnu var dregið upp rammaskipulag sem lýsti framtíðarsýn bæjarins á uppbyggingu svæðisins. Þetta rammaskipulag var afrakstur mikillar greiningarvinnu þar sem farið var ofan í kjölin á heildarþróun svæðisins og unnið út frá metnaðarfullri framtíðarsýn um mannvæna byggð með fólk í fyrirrúmi. Til viðbótar við samráð við fasteignaeigendur voru haldnir opnir kynningarfundir þar sem almenningi gafst kostur á því að kynna sér tillögurnar og spyrja spurninga.

Þetta rammaskipulag var samþykkt í skipulags- og byggingarráði í maí 2018 og varð sem slíkt hluti af samþykktri pólitískri stefnumótun bæjarins. Einn af þeim sem samþykkti rammaskipulagið á þessum fundi er formaður skipulagsráðs sem hefur síðan ítrekað ámælt pólitíska andstæðinga sína fyrir að skipta um skoðun í málum þegar þau fara á milli fagráða og bæjarstjórnar. Hann er þó í sérflokki með það að skipta sjálfur um skoðun á málum eftir því hvort hann er á fundi skipulags- og byggingarráðs eða bæjarráðs.

Eftir að rammaskipulagið var samþykkt komu kosningar og í kjölfar þeirra skipti Sjálfstæðisflokkurinn um meðreiðarsvein og fann sér nýjan samstarfsaðila.

Í kjölfarið var tekin harkaleg u-beygja frá fyrirliggjandi vinnu og kynnt ný deiliskipulagstillaga á einum reit á Hraununum þar sem öllum fögrum fyrirheitum um mannvæna, blandaða byggð var varpað út á haf og þess í stað gengið að öllum kröfum eins uppbyggingaraðila að því er virðist algerlega umhugsunarlaust. Í stað framtíðarsýnar, aga og trú á Hafnarfjörð var hlaupið til og einn ofvaxinn bútur saumaður í bútasaumsteppi sem enginn veit lengur hvernig mun líta út.

Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar lögðu til þegar þessi tillaga var lögð fram að haldin yrði kynningarfundur svo fólki gæfist tækifæri til þess að kynna sér hana og spyrja spurninga.

Það var fellt af meirihlutanum.

Þegar meirihlutinn var spurður af hverju hann teldi sér fært að víkja á svona stórkarlalegan hátt frá samþykktri stefnumörkun bæjarins þá komu þau svör að þar sem bæjarráð hefði aldrei samþykkt rammaskipulagið þá þyrftu þau ekki að fylgja eigin stefnumótun. Í kjölfarið lögðu fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans það til að rammaskipulagið væri lagt fram til samþykktar í bæjarráði svo að gildi þess væri undirstrikað.

Það var fellt af meirihlutanum.

“Ef það er ekki bannað, þá megum við það” er siðferðislegur áttaviti meirihlutans.

Það er með öðrum orðum eftirfarandi vinnubrögð sem meirihlutinn kallar ábyrg:

Víkja frá heildstæðri stefnu um uppbyggingu hverfis til þess að þóknast einum byggingaraðila á einni lóð

Fella tillögur um að kynna tillöguna á íbúafundi

Hafna rammaskipulagstillögu í bæjarstjórn eftir að hafa samþykkt sömu tillögu í skipulags og byggingarráði.

Við getum ekki tekið undir að þetta geti með nokkrum móti talist ábyrg vinnubrögð.

Hvar eru gæðin í þessari byggð?

Förum þá að þriðja punkti meirihlutans: að deiliskipulagsvinnan bjóði upp á vandaða gæðabyggð.

Að mati okkar þá eru allir þeir þættir rammaskipulagsins sem er ætlað var að tryggja gæði í byggðinni verulega útþynntir og jafnvel horfnir með öllu.

Byggðin einkennist af feitum átta hæða turnum með sem liggja þröngt saman. Kaupfélagsblokkin dæmi um svipaða byggingu. Hér er verið að tala um fimm slíkar í þéttum hnapp. Engihjalli í Kópavogi er kannski eina nærtæka dæmið um jafn háa, þétta turna með svona mikið af bílastæðum í kring.

Háar samfelldara byggingar æsa vindstrengi upp og leiða inn Reykjavíkurveginn, rými fyrir verslun og þjónustu hefur verið minnkað verulega sem dregur úr blöndun byggðar, bílastæðamagn er margfaldað og inngarðar eru fylltir af bílastæðum. Þá sýna myndir af skuggavarpi hvernig sól mun einungis skína í inngarða hverfisins hálft árið en hinn helmingurinn verður það kaldranalegt skuggasund. Það er engin krafa um blágrænar ofanvatnslausnir heldur er það gert valkvætt fyrir þróunaraðila. Það er engin lóð útveguð fyrir leikskóla heldur er heimild fyrir slíku og þarf þá bærinn að kaupa það af einkaaðila á því verði sem viðkomandi velur. Þá hafði bæjarstjórn áður samþykkt samningsmarkmið vegna hverfisins en þrátt fyrir fyrirspurnir um slíkt hafa engir samningar fundist í skjalasöfnum bæjarsins.

Það er ótrúlegt að því sé haldið fram að hér sé verið að byggja upp byggð í hæstu gæðum þegar ljóst er hversu gríðarlegur afsláttur hefur verið gefinn af öllum gæðakröfum.

Þriðju rökum meirihlutans er því einnig hafnað.

Greinarhöfundar styðja uppbyggingu þéttrar, blandaðrar byggðar upp við Borgarlínu í samræmi við markmið svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins þar sem sköpuð eru tækifæri fyrir fólk að nýta sér fjölbreyttari samgöngumáta en þarf að öllu jöfnu. Slíkt hverfi var teiknað upp í rammaskipulagi hverfisins en öll ummerki um gæði í byggðu umhverfi hafa verið skilmerkilega afmáð.

Við höfnum með öllu rökum meirihlutans um að þetta sé eina leiðin til þess að þétta byggð í takt við Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.

Það er hægt að gera miklu betur.

Óli Örn Eiríksson, fulltrúi Viðreisnar í Skipulags- og byggingarráði HafnarfjarðarogJón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 29. júní 2020