Plástur á fyrirtækin

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Þegar Kári sleit samstarfi við Katrínu í þriðja sinn, fylgdist þjóðin aftur undrandi með af hliðarlínunni. Samstarfið hefur haft þýðingu fyrir þjóðina alla, en engu að síður virðist utanumhald stjórnarinnar í engu samræmi við hagsmunina að baki. Það varð sömuleiðis alltaf ljósara að án aðkomu Kára við skimun yrði ríki Katrínar lokað.

Eitt af því sem við upplifðum í vetur er hvers íslenska þjóðin er megnug. Þrátt fyrir fámennið vorum við sterk saman og þakklát þremenningunum og öðru fagfólki, innan kerfisins og utan, sem kom okkur í gegnum erfiðan veturinn. Samstarf heilbrigðisyfirvalda og Íslenskrar erfðagreiningar er prýðisdæmi um hvernig kerfi og einkaaðilar geta unnið saman.

Lykillinn að árangri þremenninganna hefur verið að þau hafa miðlað sinni sýn á verkefnið og svarað spurningum. Þjóðin hefur á hverjum tíma fengið að vita hvers sé að vænta. Þau hafa sýnt forystu og ábyrgð og þannig fengið þjóðina með sér í erfitt verkefni.

Það hafa raunar fyrst og fremst komið upp vandamál þar sem reynt hefur á ríkisstjórnina og eftir því sem á líður verður hægagangurinn áberandi um hvernig skuli bregðast við þungri stöðu. Samanburðurinn á verkstjórn þremenninganna og verkstjórn ríkisstjórnarinnar er óþægilegur fyrir stjórnina. Efnahagsstaðan og heilbrigðisváin verða í þessum aðstæðum hins vegar ekki alveg slitin í sundur. Það verður okkur dýrkeypt efnahagslega verði mikið bakslag í baráttunni við veiruna. Lausnirnar hvað efnahaginn varðar mótast af eðli kreppunnar, svigrúmi ríkissjóðs og hvaða sýn stjórnin hefur á hvernig sé best að verja fyrirtæki og fólk fyrir afleiðingum kreppunnar. Svigrúmið er til staðar, en það virðist vanta upp á skýra sýn og að farið sé markvisst í fjárfestingar sem skapa störf. Þegar haustið nálgast vantar enn upp á að fólk fái skýrari svör um hvers sé að vænta af hálfu stjórnvalda. Stefnuleysi stjórnarinnar leiðir til þess að við erum enn ekki komin lengra en að leggja plástur yfir fyrirtækin sem blæðir út.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. júlí 2020