Hafnfirska efnahagsvæðið

Það er margt sem bendir til þess að lífdögum álversins i Straumsvík fari ört fækkandi en taprekstur hefur verið töluverður undanfarin ár. Þetta er stór vinnustaður og risi á hafnfirska efnahagssvæðinu. Ætla má að beinar tekjur bæjarins af álverinu séu um 425 milljónir árlega eða 300 milljónir í fasteignagjöld og 125 milljónir í hafnargjöld. Einnig má áætla að útsvarsgreiðslur starfsmanna séu ekki undir 300 milljónum á ári. Í meðalári kaupir álverið vörur og þjónustu fyrir um tvo milljarða króna af hafnfirskum fyrirtækjum. Það er því alveg ljóst álverið mun skilja eftir sig mikið tómarúm í hafnfirska hagkerfinu ef það kýs að leggja upp laupana.

Ekki alls fyrir löngu óskaði Félag Viðreisnar í Hafnarfirði eftir óformlegum fundi með forsvarsmönnum álversins og kom þar fram að margt þurfi að breytast þannig að eigendur álversins sjái sér hag í því að reka lítið og roskið álver í Hafnarfirði. Megin ástæðan að sögn forsvarsmanna þess er óhagstæður raforkusamningur við Landsvirkjun.  Í sjálfu sér er lítið sem Hafnarfjarðarbær getur gert til að hafa áhrif á þær ytri aðstæður. Aftur á móti er kominn tími á að bæjarfélagið móti sér stefnu um það hvernig best sé að bregðast því þunga efnahagslega höggi sem brotthvarf álversins myndi hafa á okkar samfélag.

Við í Viðreisn höfum horft til þeirra tækifæra sem eru að myndast með stækkun flutningaskipa og hagræðingar sem því fylgir. Í náinni framtíð mun SV hornið þurfa að fara í staðarval vegna stórskipahafnar, en hafnir landsins eru að verða of litlar til að þjónusta stærri flutningaskip. Einn vænlegasti kosturinn eru Óttastaðir rétt handan við Straum. Þar er dýpið nægjanlegt, efni til að byggja hafnargarð er til staðar og plássið sem losnar, ef álverið kýs að fara,myndi nýtast vel sem geymslusvæði tengt hafnarstarfsemi.  Við gætum rafvætt höfnina og gert hana þá umhverfisvænustu á byggðu bóli. Við þetta færist töluvert af hafnarstarfsemi frá núverandi hafnarsvæði og því þarf að huga að breyttri notkun á því frábæra landsvæði í hjarta Hafnarfjarðar. Önnur tækifæri á sviði nýsköpunar í sjávarútvegi, líftækni og grænum lausnum eru handan við hornið.

Það skiptir máli að vera tilbúin með plan A, B og C. Ef og þegar álverið fer þurfum við að bregðast hratt og örugglega við, því skiptir máli að skipuleggja nokkra möguleika í stað þess að vera í stöðugu viðbragði og krísustjórnun. Betra er að hafa plan og vera í startholunum.  Þegar og ef álverið fer gætu efnahagsleg áhrif þess, amk til skammst tíma, verið svipuð að umfangi hér í Hafnarfirði og sú kreppa sem við glímum við í dag.

Framtíðin hefst núna.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 5. október 2020