Við verðum tilbúin

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Borgarstjórn mun í dag ræða ferðamálastefnu Reykjavíkur til næstu fimm ára. Það er kannski ekki mikið um ferðamenn í borginni í dag en þegar fólk fer aftur á stjá, þarf Reykjavík að vera tilbúin. Við vitum hversu mikilvæg ferðaþjónustan er fyrir borgina. Hún hefur skilað miklum tekjum til fyrirtækja, einstaklinga og hins opinbera. Hún hefur ýtt undir margvíslega grósku og gætt borgina lífi. Við sjáum það best í dag þegar ferðamennina vantar.

Auðvitað hefur sú mikla gróska sem hefur verið í ferðaþjónustu á undanförnum árum reynt á innviði borgarinnar og þolinmæði borgarbúa, ekki síst miðsvæðis. Mikil fjölgun ferðamanna hefur líka kallað á kostnaðarsamar fjárfestingar og aukin útgjöld. Við þurfum að taka tillit til þess í næstu skrefum, að endurkoma ferðamannanna verði í sem mestri sátt við íbúa. Því er eitt leiðarstefið í ferðamálastefnunni að eiga í reglulegu samtali við íbúa og hagsmunaaðila og að markaðssetning muni líka snúa að borgarbúum, svo þeir fari ekki á mis við allt það skemmtilega sem hér er hægt að gera og við kynnum fyrir erlendum gestum okkar.

Ferðamálastefnan á að vera leiðarljós okkar í því hvernig borgin þróast sem áfangastaður ferðamanna. Reykjavík á að mæta þörfum bæði ferðaþjónustu og íbúa og hún á að vera borg sem laðar að sér fólk og auðgar líf íbúa, jafnt sem innlendra og erlendra gesta. Langflestir gestir Íslands koma til Reykjavíkur. En Reykjavík hefur ekki endilega verið áfangastaður þessara gesta, heldur nýta þeir þjónustuna sem borgin hefur upp á að bjóða, á leið sinni til annarra staða á Íslandi. Reykjavíkurborg er því að vinna, samhliða ferðamálastefnunni, að áfangastaðastofu fyrir allt höfuðborgarsvæðið í samstarfi við Ferðamálastofu og nágrannasveitarfélög.

Þegar ferðaþjónustan byrjar aftur ætlar borgin vera tilbúin með atvinnugreininni í markaðssetningu og sýna lifandi og framsækna mannlífsborg sem gaman er að heimsækja og þar sem gott er að búa.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. október 2020