Stóru málin í Suðurkjördæmi

Arnar Páll Guðmundsson

Samgöngu, atvinnu og heilbrigðismál verða án efa stærstu kosningamálin í Suðurkjördæmi í kosningunum í haust. Skyldi engan undra enda mikið verk þar að vinna í kjördæminu. Örugg atvinna, góðar samgöngur og framúrskarandi heilbrigðisþjónusta eru allt grunnþættir sem þurfa að vera í lagi ef samfélög eiga að vaxa og dafna.

Atvinnumál

Suðurkjördæmi er kjördæmið þar sem fall ferðaþjónustunnar bítur hvað mest. Sama hvert þú ferð, við hvern þú talar allir nefna fall ferðaþjónustunnar og þann vanda sem við blasir. Staðan og tækifærin í atvinnumálum eru misjöfn eftir hvar við stingum niður fæti í kjördæminu. Ef við byrjum að líta til Suðurnesja þá er staðan þar ekki góð. Atvinnuleysi mælist um 25% og útlit er fyrir að það muni ekki dvína fyrr en á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Það er reyndar fyrirséð að þessi staða verði líklega aðeins til skamms tíma vegna áhrifa COVID-19 á ferðaþjónustu en skilaboðin eru engu að síður skýr. Á Suðurnesjum þarf að skapa fjölbreyttara atvinnulíf þannig að högg í einni atvinnugrein risti ekki svona djúpt og eru ýmis verkefni því tengdu í bígerð, ber þar helst að nefna byggingu skipaþjónustuklasa við Njarðvíkurhöfn, hugmyndir Samherja um fiskeldi í Helguvík og þá þróun sem á sér stað hjá Kadeco á Keflavíkurflugvelli. Viðreisn mun alltaf styðja fjölbreytt atvinnulíf á Suðurnesjum eins og kostur er og leggja öllum góðum hugmyndum lið.

Ef horft er til sveitarfélaganna á Suðurlandi þá er svipaða sögu að segja þar, hrun í ferðaþjónustu hefur haft afleiðingar og aukið atvinnuleysi á svæðinu. Það þarf því að skapa störf og tækifæri á þessum stöðum á næstu misserum. Efling nýsköpunar og aukin áhersla á skapandi greinar og tækniþróun er þar lykilþáttur, sú stefna mun varða leiðina upp úr COVID ástandinu.

Ekki má gleyma því en að hafa fasta atvinnu er hverjum einstaklingi mikilvægt og snýst um mun meira en einungis laun og bónusa, atvinna skapar sjálfsvirðingu og lætur einstaklingi um leið líða sem hluta af samfélaginu.

Samgöngumál

Samgöngumál eru íbúum Suðurkjördæmis hugleikin og þarf að taka þau föstum tökum svo að sú þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum haldi áfram. Áskorun um örugga Reykjanesbraut hefur mikið verið í umræðunni og á hinn svokallaði Stopp hópur hrós skilið fyrir sína baráttu, ég þori að fullyrða að án hans baráttu væri málið ekki svona langt á veg komið. Örugg Reykjanesbraut skiptir Suðurnesin miklu máli en enn eru tveir kaflar á henni sem bíða tvöföldunar, annars vegar milli Flugstöðvar og Fitja og hins vegar milli Hvassahrauns og Krísuvíkurafleggjara. Þessir kaflar eru komnir á samgönguáætlun og bíða framkvæmda. Einbreiðar brýr í kjördæminu eru margar og þeim þarf að fækka eins og kostur er næstu árin og koma þannig í veg fyrir alvarleg slys. Krafa um bættar samgöngur er víðar í kjördæminu, til að mynda hefur verið ákall um betri tengingar yfir Þjórsá milli Árnes- og Rangárvallasýslu og auk þess þarf að sinna viðhaldi vega og vetrarþjónustu í uppsveitum Árnessýslu mun betur en nú er gert.

Ný brú yfir Ölfusá er á teikniborðinu og mun hún verða mikil samgöngubót. Áform um byggingu hennar hafa reyndar lengi verið í umræðunni og stefnir allt í að brúarsmíðin fari í einkaframkvæmd. Það eru reyndar skiptar skoðanir á því fyrirkomulagi, en ef þessi möguleiki mun flýta framkvæmdum þá er þess virði að skoða hann. Sama má segja um fyrirhuguð jarðgöng í Reynisfjalli og hringveg um Mýrdal en samkvæmt samgönguáætlun er stefnt að leita til einkaaðila varðandi fjármögnun.

Núna á 21. öldinni skipta öruggar samgöngur miklu fyrir þróun byggðar á landsbyggðinni en oft er talað um að samgöngur séu lífæð hvers samfélags og forsenda þess að byggðalög fái tækifæri til vaxtar. Því skiptir miklu máli að standa vörð um og tala fyrir uppbyggingu samgöngumannvirkja í kjördæminu.

Heilbrigðismál

Aðgangur að öruggri og framúrskarandi heilbrigðisþjónustu eru almenn mannréttindi og hluti af því að búa í góðu samfélagi. Suðurkjördæmi er þar engin undantekning. Staða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur oft verið í umræðunni en henni er ætlað að þjónusta um 27.000 íbúa. Fjárframlög til hennar hafa ekki fylgt íbúaþróun á Suðurnesjum síðustu ára og hafa sveitarstjórnarmenn og þingmenn oft bent á þessa staðreynd en ekkert virðist vera viðhaft í þeim efnum. Þess má getið að stofnunin hefur löngum fengið langlægstu framlög allra heilbrigðisstofnana á landinu miðað við höfðatölu, þrátt fyrir að lýðheilsuvísar Embættis landlæknis sýni að meiri þörf er fyrir heilbrigðisþjónustu á hvern íbúa Suðurnesja en á öðrum svæðum. Þessi staða hefur reynt virkilega á starfsfólk stofnunarinnar og haft mikil áhrif á rekstur hennar.

Álag á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur auk þess aukist í takt við fjölgun íbúa og er staðan þannig að erfitt getur reynst að fá tíma hjá lækni. Því hafa margir íbúar gripið til þess ráðs að leita annað og er nú svo komið að hluti þeirra eru skráðir á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar Suðurnesja hafa í langan tíma búið við þá staðreynd að eiga ekki sérstakan heimilislækni á svæðinu sem þeir geta leitað til í hvívetna. Þetta er þróun sem verður að breyta en hvað er til ráða? Einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu hafa komið vel út og uppfyllt alla þjónustustaðla sem hið opinbera hefur sett. Því gæti verið skref í rétta átt að opna einkarekna heilsugæslustöð á Suðurnesjum, þar sem ríkið er þjónustukaupi og myndi tryggja aðgang allra að þjónustunni. Með þessari nýbreytni væri hægt að minnka það álag sem nú ríkir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og gera þannig öfluga stofnun enn betri.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands glímir einnig við fjárhagsvanda og þarf nauðsynlega aukin fjárframlög til þess að efla grunnþjónustu sína og sín lögboðnu verkefni á svæðinu. Til þess að gera Suðurkjördæmi betur í stakk búið að mæta kröfum framtíðarinnar þarf að rísa upp og snúa þessari þróun við, það er krafa fólksins.

Þessi stóru mál eru einungis nokkur af þeim málum sem brenna á íbúum Suðurkjördæmis. Kosningarnar í haust munu því snúast um að skapa tækifæri, hvar á landi sem er, og byggja upp það samfélag sem okkur hefur dreymt um svo lengi.

Höfundur er formaður Viðreisnar í Reykjanesbæ

Greinin birtist fyrst  í Sunnlenska 10. febrúar 2021