Hver er framtíðarsýnin fyrir Ísland?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Kórónuveiran breytti heiminum og um leið öllu okkar daglega lífi. Hún breytti stóru myndinni og hún breytti hinu smáa. Samvinna er stóri lærdómurinn eftir baráttuna við veiruna, samvinna almennings og stjórnvalda, samvinna hins opinbera og einkageirans og síðast en ekki síst er lærdómurinn mikilvægi alþjóðasamvinnu.

Fréttatíminn hefur varðað þetta eina mál, þetta ógnarstóra verkefni en mánuði fyrir heimsfaraldur gátu innlendir samfélagsmiðlar leyft sér að kafa á dýptina ofan í mál eins og nýtt lógó KSÍ sem þótti ekki alveg nógu gott. Stundum er meira að segja hægt að líta til baka og jafnvel sakna þess þegar samfélagið gat snöggreiðst vegna skemmtilegra smámála.

Nú er bjart yfir og við fögnum góðum árangri okkar sem þjóð, við höfum endurheimt fyrra frelsi og verjum frístundum í að fylgjast með Evrópu blómstra í fótbolta. Þá er kitlandi að líta fram hjá því að við okkur blasir annað ógnarstórt verkefni. Það eru efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við heimsfaraldurinn. Af hálfu stjórnvalda er furðulítið rætt um að  ríkissjóður skuldar nú yfir þúsund milljarða vegna veirunnar og að samkvæmt fjármálaáætlun eru allt að fimmtíu milljarða króna skattahækkanir væntanlegar um mitt næsta kjörtímabili. Það er aftur á móti hlutverk stjórnvalda að tala um stöðuna eins og hún er og á ábyrgð stjórnvalda að sinna því.

Efnahagsmál snúast um daglegt líf fólks

Verkefni ársins 2021 er enn hið sama og ársins 2020, þ.e. að veita fólki og fyrirtækjum svigrúm til að komast standandi frá efnahagslegu afleiðingum sóttvarnaaðgerða. Verkefni ársins 2021  er um leið að leggja grunn að því að næsti kafli í sögu þjóðarinnar verði annar og betri. Við erum aftur farin að sjá mynd sem við þekkjum þar sem vextir á húsnæðislánum fara hækkandi og ástæða er til að hafa áhyggjur af verðbólgu. Lykilspurning stjórnmálanna er þess vegna hvernig auka á verðmætasköpun og hver framtíðarsýnin er fyrir Ísland.

Þegar öllu er á botninn hvolft snúast efnahagsmál um daglegt líf fólks. Þar hefur mesta þýðingu fyrir fólk að geta gengið að atvinnu og að kostnaður við að eiga og reka heimili sé fyrirsjáanlegur. Hvað fyrirtækin í landinu varðar hefur grundvallarþýðingu að geta gert áætlanir og að vissa og festa sé um helstu útgjaldaliði. Svo er einfaldlega ekki í íslensku umhverfi.  Af þeirri ástæðu er íslenskt samfélag ekki samkeppnishæft til lengri tíma litið. Það er stjórnvalda að skapa skilyrði til að daglegt líf fólks og fyrirtækja í landinu sé gott, stöðugt og samkeppnishæft. Til þess að svo geti orðið þarf stöðugan gjaldmiðil.

Vond sérstaða Íslands

Svigrúm okkar til leysa skuldastöðu ríkissjóðs er hins vegar minna vegna verðbólgu; verðbólgu sem nágrannaþjóðir glíma ekki við. Svigrúmið er minna vegna hærri vaxta og gengisáhættu. Samkeppnisstaða Íslands er veikari af sömu ástæðum. Það gildir um ríkissjóð rétt eins og heimilin í landinu að vextir af lánum hafa mikla þýðingu um hina raunverulegu mynd af stöðu mála. Eftir hrun skuldaði ríkissjóður Íslands til dæmis hlutfallslega helmingi minna en ríkissjóður Grikklands. Vaxtagreiðslur íslenska ríkisins voru hins vegar tvöfalt hærri en gríska ríkisins.

Viðreisn hefur lagt fram tillögu á Alþingi til að verja atvinnulífið og heimilin í landinu með því að fara sömu leið og Danir hafa gert, það er að halda krónunni en tryggja stöðugleika með gjaldmiðlasamstarfi við Evrópusambandið. Það er leið sem myndi tryggja að atvinnulífið sem og almenningur í landinu fengi fyrirsjáanleika sem sárlega hefur vantað og skapa betri aðstæður fyrir allan almenning í landinu til skemmri og lengri tíma litið.

Lykilspurning stjórnmálanna

Nú þegar baráttunni við sjálfa veiruna er að mestu lokið hér innanlands verða stjórnvöld að beina kastljósinu að stöðu efnahagsmála. Það er ástæða til að gleðjast yfir góðum árangri um bólusetningu landsmanna, enda var hún forsenda þess að komast í skjól. Og það er eflaust kitlandi að láta það bíða seinni tíma að ræða það hver staðan í efnahagsmálunum er. Þögn stjórnmálaflokka hvað varðar gjaldmiðil landsins er í hins vegar afstaða um að neita að horfa til framtíðar og ætla að festa fólk í kyrrstöðu. Lykilverkefni stjórnmálanna núna lúta að efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs og um leið hver framtíðarsýnin er fyrir Ísland, hvernig viljum við sjá Ísland vaxa og halda áfram eftir heimsfaraldur. Leiðin sem farin verður mun hafa úrslitaáhrif um hvort hér takist að skapa samfélag sem býður almenningi lífskjör sem eru samkeppnishæf og fyrirtækjum umhverfi þar sem þau geta staðist samkeppni að utan.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 29. júní 2021