Fjölmargir litir regnbogans

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Dagskrá hinsegin daga hefst í dag. Þó ekki verði haldin gleðiganga þetta árið, gefast tækifæri til að fagna fjölbreytileikanum og litrófi lífsins, bæði með skemmtun og fræðslu. Og ekki síst vitundarvakningu um að réttindabaráttu hinsegin fólks sé ekki lokið.

Við heyrum af hræðilegum mannréttindabrotum gegn hinsegin fólki í öðrum löndum og af skrefum til að afnema réttindi í Evrópulöndum. Slíkt minnir okkur á hversu hverful réttindi minnihlutahópa geta verið og mikilvægi þess að standa vörð um þau. Líka á Íslandi.

Fordómar lifa enn

Erum við að gera nóg til að verja sjálfsögð mannréttindi allra til að vera þau sjálf? Fordómarnir, sem búa líka á Íslandi, skerða aðgengi annarra að samfélaginu og stuðla að vanlíðan. Fordómarnir ýta undir misrétti og ósanngjarnara samfélag en við viljum búa í.

Gott samfélag grundvallast á því að allir fái í því þrifist. Í góðu samfélagi lærum við hvert af öðru og njótum fjölbreytileika þess. Samfélagið verður betra, þegar við fjölgum þeim sem eiga þar sjálfsagðan stað. Við sjáum þetta eiga sér stað með hverri bylgju kvennabaráttunnar, auðgun innflytjenda á samfélaginu og með fjölgun lita regnbogabyltingarinnar.

Við getum gefið öðrum sjálfsagðan stað með því að gæta orða okkar. Nota ekki orð sem særa og ýta undir fordóma. Við þurfum líka að læra ný orð sem tengjast kynvitund og kynhneigðum, því tungumálið er samofið sjálfsmyndinni. Með nýjum orðum finnur fleira fólk leiðir til að skilgreina sig sjálft og þær tilfinningar sem hafa alltaf verið til staðar, þó svo að orðin hafi ekki áður verið til.

Útilokun og fordómar skaða íslenskt samfélag. Reglulega þurfum við að horfa í kringum okkur og sjá hverjir það eru sem ekki fá að njóta sinna lita í regnboga samfélagsins. Hvað hið opinbera geti gert til að tryggja litadýrðina. Og berjast gegn þeim fordómum sem við finnum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. ágúst 2021