Hvað má al­menningur ekki vita um sjávar­út­veginn?

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Af hverju má ekki upp­lýsa al­menning um eignar­hald stærstu út­gerðar­fyrir­tækja Ís­lands í ís­lensku at­vinnu­lífi? Þessi spurning brennur á mörgum nú í að­draganda kosninga vegna þess dæma­lausa felu­leiks sem stjórn­völd settu á svið í kringum skýrslu­beiðni sem við í Við­reisn höfðum for­göngu um að leggja fram undir lok síðasta árs.

Al­þingi sam­þykkti ein­róma í desember síðast­liðnum beiðni mína um að sjávar­út­vegs­ráð­herra ynni skýrslu um eignar­hald 20 stærstu út­gerðar­fé­laganna í ís­lensku at­vinnu­lífi. Mark­miðið var meðal annars að veita al­menningi mikil­vægar upp­lýsingar um hvernig hagnaði af sam­eigin­legri auð­lind þjóðarinnar hefur verið varið og sýna ítök stór­út­gerðarinnar í ís­lensku sam­fé­lagi í krafti nýtingar hennar á fisk­veiði­auð­lindinni. Nýtingar sem ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, VG og Fram­sóknar ver með kjafti og klóm að verði ó­tíma­bundin þvert á vilja yfir­gnæfandi meiri­hluta al­mennings. Hvað þá að markaðurinn fái að ráða verðinu fyrir að­gang út­gerðanna að auð­lindinni okkar.

Þegar skýrslan var loksins birt vantaði alveg í hana upp­lýsingar um til­teknar fjár­festingar, það er í hvaða fyrir­tækjum og at­vinnu­greinum út­gerðar­risarnir hafa fjár­fest í. Þar með er ekki verið að upp­lýsa al­menning um kross­eigna­tengsl eða ítök út­gerðarinnar í til­teknum kimum ís­lensks sam­fé­lags eins og við fórum fram á, og Al­þingi sam­þykkti. Það er miður. Víst má fólk vita.

Sjávar­út­vegs­ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins ber fyrir sig lög um per­sónu­vernd. Að sam­kvæmt þeim megi al­menningur ekki fá upp­lýsingar um hvernig þeir sem hafa auðgast gríðar­lega á ó­tíma­bundnu einka­leyfi á veiðum úr sjávar­auð­lind þjóðarinnar hafa fjár­fest í fjöl­miðlum og fast­eignum, mat­væla­markaði og heil­brigðis­geiranum, ferða­þjónustu og veitinga­húsum. Svo fátt eitt sé talið.

Stað­reyndin er hins vegar sú að þetta eru opin­berar upp­lýsingar þó flækju­stigið sé slíkt að það er ekki ein­falt fyrir hvern sem er að draga þessar upp­lýsingar saman. Enda gerir Per­sónu­vernd al­var­legar at­huga­semdir við skýrsluna, ekki síst við vinnslu hennar þar sem ekki var haft sam­band við Per­sónu­vernd sem hefði getað leið­beint og leið­rétt þann „mis­skilning“ að allt væri þetta mjög mikið leyndar­mál. Það sem var í skýrslunni.

Þrátt fyrir þessa ó­trú­legu brota­löm á skýrslunni koma þar engu að síður fram mikil­vægar upp­lýsingar um að á árunum 2017, 2018 og 2019 jukust fjár­festingar stór­út­gerðarinnar í ís­lensku at­vinnu­lífi um tæpa 60 milljarða. Þetta eru upp­lýsingar sem eru gefnar í bók­færðu verði en raun­veru­legt verð sem byggir á markaðs­verð­mæti þeirra fyrir­tækja sem er fjár­fest í, er alla jafna tölu­vert hærra. Þó svo að bara sé miðað við bók­færða verðið þá eru ár­legar fjár­festingar í ó­skyldum at­vinnu­rekstri fjór­falt meiri en veiði­gjöldin sem ríkis­stjórnin telur þessi sömu út­gerðar­fyrir­tæki ráða við að greiða ís­lenskri þjóð fyrir afla­heimildir, fyrir af­not af sjávar­auð­lindinni. Svo því sé til haga haldið. Sátt um þessa mikil­vægu stoð.

Sjávar­út­vegur er ein mikil­vægasta stoð ís­lensks efna­hags­lífs. Eigin­fjár­staða sjávar­út­vegs­fyrir­tækja hefur batnað veru­lega frá hruns­árunum og stóð bók­fært eigið fé þeirra í 276 milljörðum króna við lok árs 2018. Vís­bendingar eru um að fjár­festingar þeirra út fyrir sjávar­út­veginn hafi aukist í sam­ræmi við það. Það er já­kvætt að því leyti að það dreifir á­hættu fé­laganna sjálfra en þessi þróun getur að sama skapi hæg­lega leitt til veru­legrar upp­söfnunar eigna og á­hrifa á fárra hendur og dregið úr virkri sam­keppni á mörkuðum. Smæð ís­lensks at­vinnu­lífs gerir okkur sér­stak­lega við­kvæm fyrir fá­keppni.

Vegna þessarar stöðu töldum við í Við­reisn mikil­vægt að upp­lýsingar um eignar­hluti 20 stærstu út­gerðar­fé­laganna og tengdra aðila í ó­skyldum at­vinnu­rekstri hér­lendis yrðu teknar saman. Með þeim upp­lýsingum sem við báðum um, með stuðningi þing­manna úr flestum flokkum, væri nefni­lega hægt að varpa ljósi á raun­veru­leg á­hrif aðila sem hafa einka­leyfi til nýtingar fisk­veiði­auð­lindarinnar á ís­lenskt at­vinnu­líf og sam­fé­lag. Við töldum að slík skýrsla gæti orðið mikil­vægt fram­lag til um­ræðunnar um dreifða eignar­aðild út­gerðar­fé­laga og skráningu þeirra á markað en það er rétt að minna á það hér að ný­leg Gallup­könnun sýnir að tæp 77 prósent þjóðarinnar vilja að út­gerðin greiði markaðs­gjald fyrir afla­heimildir.

Þeir sem verja nú­verandi fyrir­komu­lag við greiðslu fyrir nýtingu á sjávar­auð­lindinni gera það gegn allri skyn­semi, gegn allri sann­girni – og gegn vilja yfir­gnæfandi meiri­hluta þjóðarinnar. Þessu ætlum við í Við­reisn að breyta

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. september 2021