Hvernig varð sanngirni í sjávarútvegi skammaryrði?

Kosn­ing­arn­ar á laug­ar­dag skera úr um hvort við fáum rík­is­stjórn sem þorir að fara í nauðsyn­leg­ar kerfisbreyt­ing­ar. Breyt­ing­ar sem tryggja eign­ar­hald þjóðar­inn­ar á sjáv­ar­auðlind­inni með tíma­bundn­um nýting­ar­samn­ing­um og fyr­ir­sjá­an­leika fyr­ir út­gerðina.

Mark­mið breyt­ing­anna er ekki síst sann­gjarn­ari skipt­ing á tekj­um sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar milli stór­út­gerðar og þjóðar­inn­ar. Því náum við best fram með því að treysta markaðnum til að ákveða verðmæti auðlind­ar­inn­ar. Ekki stjórn­mála­mönn­um. Ekki stór­út­gerðinni. Það er sann­gjarnt og sann­girni er ekki skamm­ar­yrði í sjáv­ar­út­vegi frek­ar en ann­ars staðar þar sem al­manna­hags­mun­ir koma við sögu.

Mígrenikast stjórn­valda

Und­ir lok síðasta árs samþykkti Alþingi beiðni mína um að sjáv­ar­út­vegs­ráðherra léti vinna skýrslu sem sýndi eign­ar­hald 20 stærstu út­gerðarfé­laga lands­ins í ís­lensku at­vinnu­lífi. Þar sem tekn­ar yrðu sam­an upp­lýs­ing­ar um hvar fjár­fest­ing­ar þeirra lægju í at­vinnu­rekstri utan sjáv­ar­út­vegs. Mark­miðið var einfaldega að veita al­menn­ingi mik­il­væg­ar upp­lýs­ing­ar um hvernig hagnaði af sam­eig­in­legri auðlind þjóðarinnar hef­ur verið varið og sýna ítök stór­út­gerðar­inn­ar í ís­lensku sam­fé­lagi í krafti nýt­ing­ar þeirra á fisk­veiðiauðlind­inni. Nýt­ing­ar sem rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, VG og Fram­sókn­ar ver með kjafti og klóm að verði ótíma­bund­in þvert á vilja yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta al­menn­ings. Hvað þá að markaður­inn fái að ráða verðinu fyr­ir aðgang út­gerðanna að auðlind­inni okk­ar.

Vinnsla skýrsl­unn­ar var aug­ljós­lega mik­ill höfuðverk­ur. Ekki vegna þess að upp­lýs­ing­arn­ar lægju ekki fyr­ir. Staðreynd­in er sú að þetta eru op­in­ber­ar upp­lýs­ing­ar þó flækj­u­stigið sé slíkt að það er ekki ein­falt fyr­ir hvern sem er að draga þær sam­an. Mígrenikastið var til komið vegna þess að það var aug­ljós­lega ekki heppi­legt að upp­lýsa fólk um þessa stöðu.

Skýrsl­an upp­lýs­ir að á ár­un­um 2017, 2018 og 2019 juk­ust fjár­fest­ing­ar stór­út­gerðar­inn­ar í ís­lensku at­vinnu­lífi um tæpa 60 millj­arða á bók­færðu verði, sem er alla jafna tölu­vert lægra en raun­veru­legt markaðsverð. Engu að síður er bók­fært verð fjár­fest­inga stór­út­gerðar­inn­ar í óskyld­um at­vinnu­rekstri fjór­falt hærra en veiðigjöld­in sem Sjálf­stæðis­flokk­ur, Fram­sókn og VG telja þessi sömu út­gerðarfyr­ir­tæki ráða við að greiða ís­lenskri þjóð fyr­ir afla­heim­ild­ir, fyr­ir af­not af sjáv­ar­auðlind­inni. Svo því sé til haga haldið.

Þægir eru óupp­lýst­ir?

Skýrsl­an um eign­ar­hald út­gerðar í óskyld­um at­vinnu­rekstri seg­ir hins veg­ar ekk­ert um eign­ar­hald út­gerðar í óskyld­um at­vinnu­rekstri. Þar er ekki kort­lagt hvernig of­ur­gróði af stór­út­gerðinni hef­ur verið nýtt­ur í að fjár­festa í flutn­inga­fyr­ir­tækj­um og fjöl­miðlum, fast­eign­um og trygg­inga­fé­lög­um, í heil­brigðis­geir­an­um og mat­væla­markaði, í ferðaþjón­ustu og veit­inga­stöðum.

Svo eitt­hvað sé talið til.

Af hverju þessi felu­leik­ur? Get­ur verið að varðhund­ar sér­hags­mun­anna í Sjálf­stæðis­flokkn­um átti sig á því að nú sé nóg komið? Að krafa al­menn­ings um sann­girni í sjáv­ar­út­vegi sé orðin svo skýr, svo sterk, að sann­leik­ur um raun­veru­lega stöðu mála myndi end­an­lega sundra vörn­inni?

Sjálf er ég sann­færð um að svo sé. Öskrin úr vörn­inni um að breyt­ing­ar í átt að sann­girni í sjáv­ar­út­vegi myndu rústa at­vinnu­grein­inni eru bara það. Öskur. Fyr­ir­slátt­ur. Göm­ul taktík sem hef­ur runnið sitt skeið á enda. Það er hægt að ná fram bæði hag­kvæmni og sann­girni. Það þarf enga kollsteypu. Það sjá all­ir. Það vilja flest­ir. Og það mun á end­an­um skapa þá sátt sem okk­ur er öll­um mik­il­væg.

Þeir sem verja nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag við greiðslu fyr­ir nýt­ingu á sjáv­ar­auðlind­inni gera það gegn allri skyn­semi, gegn allri sann­girni – og gegn vilja yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta þjóðar­inn­ar. Þessu ætl­um við í Viðreisn að breyta.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021