Markaðslausnir eru betri

Thomas Möller Alþingiskosningar 2021 Suðvesturkjördæmi 4. sæti Viðreisn

Ásíðustu árum hefur verið stöðug þróun í átt að frjálslyndi og markaðslausnum á Íslandi. Ekki er langt síðan fiskverð og verð á mjólk og kjöti var ákveðið af nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Ríkið fyrirskipaði leyfilega álagningu á vörur og gaf leyfi fyrir innflutningi á stígvélum og jeppum.

Á undanförnum árum hefur þetta breyst mikið í frjálsræðisátt þó að ennþá ráði ríkið hvaða nöfn við megum gefa börnum okkar og hestum.Við erum smátt og smátt að átta okkur á því að frjálst markaðskerfi og markaðslausnir geta leyst flókin efnahagsleg verkefni á mun betri hátt en þær ríkisstýrðu kerfislausnir sem voru hér áður fyrr við lýði.

Ríkið hefur tekið þessar markaðslausnir í sína þjónustu á flestum sviðum. Öll innkaup ríkisins eru boðin út á frjálsum markaði. Það á jafnt við blýanta sem brýr, flugvelli sem farsíma. Sala ríkiseigna fer fram á markaði þar sem hæstbjóðandi fær eignina. Ríkið leigir aðgang að jörðum, húsum og auðlindum svo sem malarnámum, jarðhita og vatni að undangengnu útboði.

Nema í sjávarútvegi

Hvers vegna skyldu veiðiheimildir vera verðlagðar með öðrum hætti?

Útgerðarfyrirtækin í landinu hafa ótímabundinn aðgang að aflaheimildum. Hann gildir til eilífðar og samsvarar því nánast að vera eign. Kvótinn er í raun veðsettur þó það sé bannað með lögum. Um 90% af verðmæti fyrirtækja í sjávarútvegi er kvóti samkvæmt nýjasta verðmati þessara fyrirtækja á markaði. Kvóti í sjávarútvegi er eign almennings. Hann er metinn á um 1.200 milljarða króna á markaðsvirði í dag.

Ríkið sér um þá eign í umboði almennings og ber skylda til að hámarka afrakstur og tekjur af henni eins og öðrum eignum almennings. Tekjur ríkisins af þessum kvóta eru um 5 milljarðar króna á ári sem er minna en tekjur ríkisins af sígarettum. Tekjurnar af kvótanum eru ákveðnar af þingmönnum og ráðherrum hverju sinni.

Markaðslögmálið fær ekki að njóta sín á þessu eina sviði efnahagslífsins. Hvernig skyldi standa á þessu? Af hverju vill ríkisvaldið ekki hámarka tekjur sínar af þessari stærstu eign sinni. Skyldu almannahagsmunir vera látnir víkja fyrir sérhagsmunum stórútgerðanna?

Krafa almennings er skýr

Ný könnun Gallups sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spurðir voru, eða um 77%, er hlynntur því „að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum“.Almenningur er ekki sáttur við einkaeign á sameign þjóðarinnar en þannig eru fiski­stofnarnir skilgreindir samkvæmt lögum

Tillögur Viðreisnar um sátt og sanngirni í sjávarútvegi

Viðreisn vill sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegi og að útgerðin greiði réttlátt endurgjald fyrir auðlindanýtingu á grundvelli markaðslausna, tímabundins nýtingarréttar auðlinda sem eru í þjóðareign og framseljanlegra veiðiheimilda.Viðreisn hefur frá árinu 2016 viljað sjá markaðslausnir í sjávarútvegi, eins og í öllum öðrum atvinnugreinum þannig að endurgjaldið fyrir auðlindina ráðist á markaði eins og allar aðrar eignatekjur ríkisins.

Markmiðin sem nást eiga eru að sátt verði um þessa mikilvægu atvinnugrein, útgerðinni og almenningi til hagsbóta. Viðreisn telur mikilvægt að tryggja nýliðun í sjávarútvegi þannig að frumkvöðlar á þessu sviði fái tækifæri til að spreyta sig í útgerð. Viðreisn vill að í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma.

Með samningum til 20-30 ára sé pólitískri óvissu eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest. Með slíkum samningum verður til aukinn fyrirsjáanleiki sem tryggir útgerðarfyrirtækjunum vissu um rekstrarskilyrðin til frambúðar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. september 2021