Viðreisn aðildarviðræðna

Í sjónvarpskappræðum fyrr í vikunni gapti fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins af forundran yfir því að einhver gæti spurt kjósendur um afstöðu til ESB-umsóknar, án þess að vilji þingsins í málinu lægi fyrir. Lét hann í veðri vaka það væri stefna Viðreisnar.

Þessi framsetning ráðherrans er auðvitað röng. Hins vegar má raunar nefna að einn evrópskur flokkur ræsti nýlega atkvæðagreiðslu um úrsögn landsins úr ESB, án þess að þess að hafa sjálfur skoðun á málinu, án þess að fyrir lægi með hvaða hætti sú úrsögnin ætti að verða og án þess að raunverulegur þingmeirihluti væri fyrir henni. Þetta var breski Íhaldsflokkurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn starfar með í hinum evróskeptíska ECR flokkahópi.

Markmið ESB andstæðingana bresku var einfaldlega að sækja sér umboð. Enda var málið stórt og umdeilt. Og í ljósi þess að ESB-málið er stórt og umdeilt á Íslandi er sú nálgun að sækja sérstakt umboð til kjósenda, ef halda á viðræðum áfram, rökrétt.

Viðreisn hefur það þó fram yfir vini Sjálfstæðisflokksins í breska Íhaldsflokknum að hafa skýra sýn þegar kemur að ESB. Viðreisn vinnur að aðild Íslands að sambandinu. Sá ábati sem myndi hljótast af stöðugum gjaldmiðli og óheftu aðgengi neytenda að einum stærsta markaði heims er ótvíræður. Aðkoman að ákvörðunum í stofnunum ESB myndi vinna að íslenskum hagsmunum. Við vitum að margir hafa áhyggjur af áhrifum aðildar á ákveðnar lykilatvinnugreinar, en á þá þætti hefur aldrei raunverulega reynt í viðræðum. Til þess eru þær.

Ekkert í ferlinu er flókið. Til að ganga í ESB þarf þrennt: Að sækja um aðild, ná samningi og fá hann samþykktan. Viðreisn mun berjast fyrir að fá umboð fyrir áframhaldandi aðildarviðræðum, Viðreisn mun berjast fyrir hagstæðum samningi og Viðreisn treystir sér að tala fyrir samþykkt hans. Fólk getur verið ósammála okkur um áfangastaðinn. En það er skýrt hvert við stefnum.

Höfundur er í 22. sæti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 4. september 2021