Viðreisn tækifæranna

Thomas Möller Alþingiskosningar 2021 Suðvesturkjördæmi 4. sæti Viðreisn

Eitt mikilvægasta mál kosninganna í haust er bætt rekstrarumhverfi atvinnulífsins á Íslandi.

Fyrirtæki sem skapa áhugaverð og vel launuð störf eru grundvöllur velferðar og lífskjara í landinu okkar. Flest nýrra starfa á komandi árum munu verða til í fyrirtækjum sem stunda nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þannig verður hægt að tryggja að unga fólkið okkar fái störf við sitt hæfi í landinu en flytjist ekki burt þangað sem tækifærin og rekstrarumhverfið er betra. Í því sambandi má geta þess að á síðustu 40 árum hafa um 18.000 Íslendingar flutt til útlanda umfram þá sem fluttu heim. Það samsvarar öllum íbúum Garðabæjar.

Það þarf kjark og þor til að gera nauðsynlegar breytingar sem styðja við nýsköpun. Stöðnun og kyrrstaða eru ekki valkostur fyrir íslenskt atvinnulíf. Kosningarnar í haust snúast því meðal annars um að tryggja að frumkvöðlarnir og viðskiptatækifærin verði áfram í landinu.

Nýsköpun þarf stöðugleika

Til að nýsköpun blómstri þarf ýmislegt að laga.  Viðreisn hefur lagt fram hugmyndir sem   tryggja betra rekstrarumhverfi og stöðugleika fyrir nýsköpunarfyrirtækin í landinu.

Óstöðug króna með sífelldum gengissveiflum einn helsti óvinur nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi.

 

Erfitt er að gera áreiðanlegar áætlanir með útgjöld í krónum og tekjur í evrum eða dollurum. Miklar gengissveiflur hafa verið á síðustu fjórum árum en krónan hefur farið frá því að vera um 110 krónur á evru í um 165. Síðan hefur hún gefið eftir en er að hækka aftur síðustu vikur. Þetta sveifluumhverfi er óboðlegt nútíma fyrirtækjum. Stöðugur gjaldmiðill er mikilvægur hluti innviða eins og samgöngur, stöðug orka og öflugur ljósleiðari.

Það sem sprotafyrirtækin þurfa

Það þarf að minnka gengissveiflur með tengingu krónunnar við stöðugan gjaldmiðil. Það mun tryggja stöðugleika, fyrirsjáanleika í rekstri og lægri vexti.

Gengisstöðugleiki með tengingu við evru hefur verið í Danmörku og Færeyjum í áratugi sem hefur leitt til stöðugleika sem við höfum mikla þörf fyrir. Kostir stöðugleika eru að mínu mati stórkostlega vanmetnir á Íslandi!

Með stöðugum gjaldmiðli má búast við að erlendir fjárfestar komi í auknum mæli til landsins og að rekstrarumhverfi frumkvöðla, hugvitsfyrirtækja og skapandi geirans eigi meiri möguleika á að dafna og vaxa í landinu okkar, en ekki bara í útlöndum.

Auk þess má nefna að erlend fjárfesting fæst oft ekki inn í íslensk fyrirtæki nema hugverkaréttindi séu flutt í lögsögu með stöðugum gjaldmiðli. Það hefur og verið gerð krafa um að fyrirtæki séu flutt í erlenda lögsögu af þessum sökum.

Flest sprotafyrirtækin stefna á alþjóðlegan markað og þau eru því í alþjóðlegri samkeppni frá fyrsta degi.  Það þarf sterkari hagræna hvata fyrir fjárfesta í sprotafyrirtækjum en þá sem nú eru uppi.  Hvata sem einnig virka í þá átt að halda fyrirtækjunum á Íslandi.

Áherslur Viðreisnar í málefnum nýsköpunar

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er að skapa atvinnulífinu hvetjandi og samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem fjölgar störfum, tryggir atvinnuöryggi og eflir atvinnulífið. Um þetta munu kosningarnar í haust snúast að miklu leyti.

Í kosningunum í haust mun Viðreisn leggja sérstaka áherslu á nokkur stór mál. Eitt þeirra er stöðugra rekstrarumhverfi atvinnulífsins og sérstaklega efling frumkvöðlafyrirtækja.

Til að bæta stöðu þeirra vill Viðreisn binda gengi krónunnar við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu sem fyrsta skref að upptöku evru. Fyrirsjáanlegt gengi mun gjörbreyta skilyrðum fyrir nýsköpun og uppbyggingu þekkingariðnaðar. Lífskjör fólks og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja mun batna með þessari breytingu.

Með þessum áherslum vill Viðreisn gefa framtíðinni tækifæri.

Höfundur er verkfræðingur, MBA og frambjóðandi í fjórða sæti Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. september 2021