Met í Reykjavík

Síðasta ár var metár í uppbyggingu íbúða í Reykjavík, þegar rúmlega 1.500 nýjar íbúðir komu inn á markað. Árið þar á undan voru þær yfir þúsund. Það stefnir í að þær verði í ár vel yfir þúsund. Meðaltal áranna 2018-2021 er þegar komið yfir 1.000 íbúðir á ári. Það hefur ekki áður gerst í sögu borgarinnar, þótt árin í kringum uppbyggingu Breiðholts og Grafarvogs hafi vissulega líka verið góð.

Tilraunir Samtaka iðnaðarins til að mála þetta blómaskeið sem kreppu taka stundum á sig furðulega mynd. Eins og sá samanburður að „einungis“ rúmlega 2.000 íbúðir hafi byggst upp árlega á höfuðborgarsvæðinu, á meðan rúmlega 3.000 vanti á landinu öllu. Reynt er að láta líta út eins og það sé 1.000 íbúða gat. Staðreyndin er að ekkert er óeðlilegt við að landsvæði, þar sem 2/3 landsmanna búa, skaffi 2/3 nýrra íbúða.

Ástandið á landinu öllu er raunar einnig ágætt. Samkvæmt Þjóðskrá fjölgaði í fyrra íbúðum á landinu um tæplega 4.000. Landsmönnum fjölgaði um 4.600 svo að það nánast bættist við ein íbúð fyrir hvern nýjan Íslending. Með sömu þróun mun hratt saxast á útreiknaða íbúðaþörf.

Nóg verður hægt að byggja í Reykjavík á næstu árum. Yfir 2.000 íbúðir eru í byggingu. Yfir 3.000 íbúðir eru á deiliskipulögðum svæðum. Mörg þúsund íbúðir eru í skipulagsferli og vegur Ártúnshöfðinn þar þyngst. Lóðir fyrir yfir 1.600 íbúðir gengu kaupum og sölum milli einkaaðila í seinustu viku. Borgin sjálf hefur sett upp áætlun um að úthluta lóðum fyrir allt þúsund íbúðir á ári næsta áratug.

Ábyrgð okkar er fyrst og fremst að sjá til þess að uppbygging haldist áfram, jafnt og þétt. Sé horft til nýbyggingarsögu landsins er það varla lærdómurinn að topparnir í kringum 1970, 1990 og 2007 hefðu mátt vera enn hærri. Mun frekar að lægðirnar þar á milli hefðu ekki þurft að vera svona djúpar. Að því þurfum við að vinna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. nóvember 2021