Stjórnarsátt um auðsöfnun?

Stærstu út­gerðarfé­lög­in eiga hlut í hundruðum fyr­ir­tækja sem ekki starfa í sjáv­ar­út­vegi. Þetta kem­ur fram í út­tekt Stund­ar­inn­ar, en til­efni henn­ar er skýrslu­beiðni mín frá því fyr­ir tæpu ári þar sem ég óskaði eft­ir skýrslu frá sjáv­ar­út­vegs­ráðherra um eign­ar­hald 20 stærstu út­gerðarfyr­ir­tækja lands­ins í ís­lensku at­vinnu­lífi. Tæp­ur þriðjung­ur þing­heims stóð með mér að skýrslu­beiðninni sem var samþykkt með öll­um greidd­um at­kvæðum í þingsal.

Það dugði þó ekki til. Átta mánuðum síðar skilaði sjáv­ar­út­vegs­ráðherra skýrslu sem var hvorki fugl né fisk­ur. Ein­göngu voru birt­ar upp­lýs­ing­ar um hversu mikið út­gerðirn­ar eiga í óskyld­um rekstri en ekki hvar fjár­fest­ing­arn­ar liggja. Ráðherra bar fyr­ir sig per­sónu­vernd­ar­lög en Per­sónu­vernd hafnaði því með öllu.

Skýrslu­drög­um breytt

Skýrsl­an var birt í ág­ústlok. Kvöldið fyr­ir þing­kosn­ing­ar mánuði síðar birti RÚV frétt um að list­ar yfir þau fyr­ir­tæki, sem út­gerðarfyr­ir­tæk­in og tengd fyr­ir­tæki höfðu fjár­fest í, hefðu verið í þeim drög­um að skýrsl­unni sem rík­is­skatt­stjóri sendi ráðuneyt­inu. Þetta var í byrj­un júlí eða um það leyti sem Alþingi fékk þær upp­lýs­ing­ar að skýrsl­an væri al­veg að verða til­bú­in. Í end­an­legri skýrslu, sem kom loks nær tveim­ur mánuðum síðar, var búið að taka upp­lýs­ing­arn­ar út. Ég vil skýr svör um hver greip þar inn í.

Við búum sem bet­ur fer við frjálsa fjöl­miðlun. Óeðli­legt inn­grip stjórn­valda í beiðni Alþing­is hef­ur ekki komið í veg fyr­ir að fram hafa komið upp­lýs­ing­ar um bein­an og óbein­an eign­ar­hlut stærstu út­gerðarfé­laga lands­ins í hundruðum ís­lenskra fyr­ir­tækja sem ekki starfa í sjáv­ar­út­vegi. Þar má nefna fjár­mála­fyr­ir­tæki, fast­eigna­fé­lög, trygg­inga­fé­lög, skipa­fé­lög, fjöl­miðla, orku­fyr­ir­tæki, heild­söl­ur og smá­söl­ur, fyr­ir­tæki í heil­brigðisþjón­ustu, ferðaþjón­ustu, veit­ingastaði o.fl.

En hvað geng­ur stjórn­völd­um til? Af hverju þessi leynd? Það má ekki tala um þetta af því að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er svo smár í alþjóðleg­um sam­an­b­urði? Það kem­ur kjarna máls­ins jafn lítið við og það að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er vel rek­inn og skap­ar verðmæti fyr­ir þjóðfé­lagið.

Eft­ir sit­ur spurn­ing­in: hvernig teng­ist þetta gagn­rýni á sí­auk­in ítök stór­út­gerðar­inn­ar í ís­lensku at­vinnu­lífi í krafti gríðarlegs sam­an­safnaðs auðs vegna ótíma­bund­ins rétt­ar á nýt­ingu sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar? Hvernig stend­ur á því að stjórn­völd leggja áherslu á að halda upp­lýs­ing­um um þau ítök frá þing­inu og frá ís­lensk­um al­menn­ingi?

Munu hinar breiður strok­ur nýs stjórn­arsátta­mála Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar fela í sér breyt­ing­ar hér eða er áfram­hald­andi stjórn­arsátt um vax­andi ítök stór­út­gerðar­inn­ar í ís­lensku sam­fé­lagi í kyrrþey?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. nóvember 2021