Á Reykjavík ráðherra?

Rík­is­stjórn­in legg­ur áherslu á sam­starf við sveit­ar­fé­lög­in ef marka má nýj­an stjórn­arsátt­mála. Mörg helstu verk­efn­in á að vinna í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög. Með þeim á að tryggja lofts­lags­mark­mið, jafna tæki­færi barna til að stunda tóm­stund­astarf og vinna stefnu í þjón­ustu við eldra fólk svo fátt eitt sé talið.

Gott sam­fé­lag sinn­ir fé­lags­legri þjón­ustu við þá sem á þurfa að halda: börn, ung­linga, fatlað fólk, aldraða o.fl. Það gera Reyk­vík­ing­ar og gott bet­ur þar sem þeir draga líka vagn­inn fyr­ir ná­granna sína í Garðabæ, Hafnar­f­irði, Kópa­vogi, Mos­fells­bæ og á Seltjarn­ar­nesi. Bein af­leiðing er svo að Reykja­vík er eina sveit­ar­fé­lagið á höfuðborg­ar­svæðinu sem inn­heimt­ir há­marks­út­svar. Reyk­vík­ing­ar axla sem sagt meiri ábyrgð á fé­lagsþjón­ustu, þar með talið hús­næðismál­um, og greiða fyr­ir vikið hærri skatta en íbú­ar ná­granna­sveit­ar­fé­lag­anna. Ætli rík­is­stjórn­in hafi áhuga á að gæta hags­muna skatt­greiðenda í Reykja­vík og stuðla að góðu sam­fé­lagi í öll­um sveit­ar­fé­lög­um?

Rík­is­stjórn­in ætl­ar í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög­in að taka fast utan um hús­næðismál­in. Reykja­vík er í sér­flokki þegar kem­ur að upp­bygg­ingu á hús­næði fyr­ir lág­tekju­hópa en um 80% fé­lags­legs hús­næðis á höfuðborg­ar­svæðinu er í borg­inni. Ætlar rík­is­stjórn­in hér að gefa þeirri staðreynd gaum að reyk­vísk­ir skatt­greiðend­ur taka á sig nær tvö­falt stærri hluta af upp­bygg­ingu fé­lags­lega íbúðakerf­is­ins en hlut­fall íbú­anna seg­ir til um?

Verður þetta for­svars­fólki rík­is­stjórn­ar­inn­ar of­ar­lega í huga þegar þau fara að huga að sam­starfi við sveit­ar­fé­lög­in? Verk rík­is­stjórn­ar­inn­ar frá henn­ar fyrra lífi gefa því miður ekki góð fyr­ir­heit. Í fersku minni er þegar stjórn­völd breyttu lög­um um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga til að hægt væri að skerða fram­lag Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga til Reykja­vík­ur.

Staðan er því sú að Reykja­vík greiðir lang­mest allra sveit­ar­fé­laga í jöfn­un­ar­sjóðinn í ljósi stærðar eða um þrjá millj­arða króna ár­lega um­fram það sem Reyk­vík­ing­ar fá til baka. Mis­mun­ur­inn fer í að jafna stöðu annarra sveit­ar­fé­laga. Þar að auki fell­ur svo kostnaður á Reyk­vík­inga fyr­ir að sinna fé­lags­legri þjón­ustu og fé­lags­legri hús­næðis­upp­bygg­ingu fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið og jafn­vel landið allt.

Það er vissu­lega marg­vís­legt hagræði sem næst með stærðinni. En meira að segja rík­is­stjórn sem er ekk­ert sér­stak­lega hlynnt höfuðborg­inni ætti að sjá mis­réttið í því að viðbót­ar­skatt­byrði sé velt af íbú­um ná­granna­sveit­ar­fé­lag­anna yfir á borg­ar­búa. Það verður áhuga­vert að sjá hvort skatt­greiðend­ur í Reykja­vík eigi sér tals­menn í rík­is­stjórn­inni sem nú hef­ur hafið störf sam­kvæmt nýj­um stjórn­arsátt­mála. Það áttu þeir nefni­lega ekki í henn­ar fyrra lífi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2021