Skilvirkara skilnaðarferli

Hjónabandið er mikilvæg grunneining í samfélagi okkar og því nauðsynlegt að um það gildi skýr lög og reglur. Gildandi hjúskaparlög voru sett árið 1993 en þau byggjast að mörgu leyti á eldri lögum sem má rekja til ársins 1921.

Það má því til sanns vegar færa að núgildandi hjúskaparlög endurspegli ekki tíðarandann, meðal annars hvað viðkemur mikilvægi hjónabandsins almennt þar sem vægi þess hefur minnkað með tilkomu fjölbreyttari sambúðarforma og auknum stuðningi við einstæða foreldra. Því eru ekki jafnsterk rök fyrir þeim víðtæku takmörkunum fyrir lögskilnaði og voru áður fyrr, sérstaklega þar sem tímamörk og takmarkanir eru mjög íþyngjandi fyrir þolendur ofbeldis í hjúskap.

Ég hef því ásamt nær þriðjungi þingheims lagt fram frumvarp um breytingar á hjúskaparlögum sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að auðvelda þolendum ofbeldis í hjónabandi að leita skilnaðar en einnig þá sjálfsögðu breytingu að stytta tímamörk skilnaðar fyrir hjón sem eru sammála um að slíta hjúskap.

Lagt er til að lögskilnaður á grundvelli heimilisofbeldis verði gerður að raunhæfu úrræði fyrir þolendur slíkra brota þar sem sýslumanni er veitt heimild til að veita lögskilnað að kröfu annars hjóna, án undangengins skilnaðar að borði og sæng, hafi maki þess beitt það líkamlegu eða andlegu ofbeldi eða haft í hótunum um slíkt.

Í núgildandi hjúskaparlögum er afar þröng heimild til þess að krefjast lögskilnaðar ef annað hjóna hefur beitt hitt eða barn sem býr hjá þeim líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi, eða hefur sýnt af sér hegðun sem vekur alvarlegan ótta um að það gerist sekt um slíkt.

Annað hjóna getur þá krafist lögskilnaðar að nokkrum skilyrðum uppfylltum en þungbærasta skilyrðið er að gerandinn þarf að samþykkja að óska skilnaðar á grundvelli brota sinna. Geri hann það ekki þarf að leiða skilnaðarmálið til lykta fyrir dómstólum. Þessi krafa um samþykki geranda gildir þótt hann hafi hlotið dóm fyrir brot gegn maka sínum. Annar ágalli í núgildandi lögum er að
þau ná ekki til andlegs ofbeldis.

Ofbeldi innan veggja heimila er ein algengasta tegund ofbeldisbrota hér á landi. Þessi brot eru alvarleg, ekki síst vegna þess að ofbeldinu er beitt í nánu sambandi fólks sem bundið er saman með lögum. Það er nógu erfitt fyrir þolendur heimilisofbeldis að yfirgefa maka sem beitir ofbeldi án þess að við bætist að lögin standi í vegi fyrir því.

Þessu þarf að breyta. Það er löngu tímabært að við gerum skilnaðarferlið skilvirkara fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Að við hlustum á reynslusögur þeirra og útrýmum skaðlegum flöskuhálsum í kerfinu enda hljótum við öll að vera sammála um að hér eins og annars staðar á kerfið að að þjóna fólki en ekki standa í vegi fyrir því.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2022