Á­föll í barn­æsku tengd geð­heilsu­vanda og heilsu­brest á full­orðins­árum

Á dögunum voru kynntar nýjar niðurstöður rannsóknar Áfallasaga kvenna sem sýna að sterk tengsl eru á milli fjölda áfalla í æsku og geðheilsuvanda og skertrar getu til að takast á við áskoranir daglegs lífs á fullorðinsárum. Rétt er að taka fram að rannsóknin er ein sú stærsta sinnar tegundar á heimsvísu.

Á undanförnum árum hefur opinber umræða um andlega líðan og geðheilsu stóraukist og við sjáum ákveðin stigma og fordóma fara minnkandi fyrir vikið.

Við búum samt sem áður í samfélagi þar sem geðheilbrigðisvandinn er stór og umfangsmikill. Og ef litið er til niðurstaðna á borð við Áfallasögu kvenna þá er mikill skortur á fyrirbyggjandi aðgerðum og áherslu lagða á snemmtækum inngripum.

Talið er að um og yfir 60 prósent barna upp­lifi ein­hvers konar á­fall eða á­föll frá 0 til 18 ára aldurs. 22 prósent upplifa eitt áfall. 21 prósent upplifa 2-3 áföll og svo eru 17 prósent sem upplifa fjögur áföll eða fleiri.

Dæmi um áföll, sorg eða viðvarandi andlegt álag sem börn upplifa:

  • Vanræksla og öryggisleysi á heimili
  • Skilnaður foreldra og erfið samskipti í kjölfarið
  • Kynferðisofbeldi
  • Einelti í skóla og/eða tómstundarstarfi
  • Heimilisofbeldi – andlegt og líkamlegt
  • Geð- og fíknivandi á heimili
  • Andlát í fjölskyldu

Því miður sjáum við tölur um tilkynnt ofbeldi á börnum, kynferðislegt ofbeldi og heimilisofbeldi aukast um tugi prósentu stiga á tímum heimsfaraldurs.

Og almennt hafa flöggum um að andleg líðan og geðheilsa fari versnandi hjá börnum og ungmennum, sífellt orðið fleiri og rauðari á sama tíma.

Hver er þinnar gæfu smiður?

Við sem erum við stjórnvölinn í málefnum barna, til dæmis skólamálum, verðum að átta okkur á því að það eru skýr tengsl á milli vanlíðan barna og geta ekki einbeitt sér að námi og það bitnar eðlilega á námsárangri. Það þarf að ráðast að rót vandans en ekki leggja áherslu á birtingamynd hans sem birtist í einkunnum eða hegðun í skólaumhverfinu. Börn geta nefnilega ekki alltaf verið sinnar gæfu smiðir og þá þurfum við að treysta á að kerfið taki utan um þau sem þurfa á því að halda og grípi inn í.

Líkt og fyrr segir benda rannsóknir æ oftar á að sterk tengsl séu á milli fjölda áfalla og andlegs álags í æsku og skertrar getu til að takast á við áskoranir daglegs lífs og seiglu á fullorðinsárum. Gott núverandi dæmi um það eru þúsundir skjólstæðinga hjá Virk í starfsendurhæfingu eftir heilsubrest. Sífellt fleiri eru að fá greiningu um kulnun í starfi og eru í veikindaleyfi og þar eru konur í meirihluta. Hér er nefnilega ekki alltaf um of mikið álag á vinnustað að ræða. Álag og erfið samskipti geta jú vissulega verið svokallaður trigger. Ég tel mun líklegra að hér sem um áföll að ræða sem ekki hafa verið ávörpuð né unnið úr.

Fjárfestum í börnum til framtíðar

Það verður samfélaginu dýrkeypt ef ekki er aðhafst strax í dag þegar það kemur að því að styðja við börn sem verða fyrir áföllum og koma í veg fyrir áföll þar sem því er við komið.

Það er mér ekkert mikilvægara en að hlúa að þessum börnum sem þurfa á okkur, sem skútunni stýrum, að halda. Hér þurfa ríki og borg að vinna mun betur saman. Við þurfum að fjárfesta í dýrmætum mannlegum innviðum. Það er hinn eina sanna arðbæra langtímafjárfesting sem getur bætt afkomu hins opinbera til framtíðar litið.

Greinin birtist fyrst á Vísi 8. febrúar 2022